[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lýðveldi Íslands verður 80 ára á þjóðhátíðardaginn 17. júní og af því tilefni verða ýmsir viðburðir víða um land. Margrét Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu og formaður afmælisnefndar, sagði í samtali að fyrst bæri að nefna útgáfu bókarinnar Fjallkonan

Sigríður Helga Sverrisdóttir

sigridurh@mbl.is

Lýðveldi Íslands verður 80 ára á þjóðhátíðardaginn 17. júní og af því tilefni verða ýmsir viðburðir víða um land. Margrét Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu og formaður afmælisnefndar, sagði í samtali að fyrst bæri að nefna útgáfu bókarinnar Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær, sem forsætisráðuneytið gefur út um fjallkonuna og þá táknmynd sem hún er fyrir land og þjóð og sjálfstæði þjóðarinnar, en einnig menningu og náttúru. Bókin hefur að geyma greinar eftir þekkta sérfræðinga og úrval þjóðhátíðarljóða. „Hún er gjöf til þjóðarinnar og verður dreift um land allt fyrir 17. júní. Hægt verður að nálgast hana á sundstöðum, bókasöfnum og í sendiráðum erlendis. Þetta er handhæg lítil bók sem getur nýst fólki t.d. í kórastarfi,“ segir Margrét.

Sungið með landinu

Afmælisnefnd var skipuð til að móta dagskrá sem forsætisráðuneytið leiddi. Ákveðið var að hafa tvær meginvörður í dagskránni. Sú fyrri er Sungið með landinu þar sem kallaðir eru til liðs allir kórar landsins til þess að syngja á 17. júní. Efnt var til sérstakrar samkeppni um nýtt þjóðhátíðarlag. Alls voru 63 tónskáld sem skiluðu inn lagi. Dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að lag Atla Ingólfssonar við ljóð Þórarins Eldjárns, Ávarp fjallkonunnar, yrði hlutskarpast. Nú eru kórar um allt land búnir að vera að æfa þetta lag.

Fyrsti viðburðurinn var um síðastliðna helgi þegar gengið var á Miðfell í Þingvallasveit þar sem nýstofnaður kór landsins, Fjallakórinn, söng þetta nýja lag ásamt þjóðsöngnum með mjög áhrifaríkum hætti á toppnum á Miðfelli. Þar voru sameinaðar þessar tvær vörður í dagskránni þ.e.a.s. Sungið með landinu og Gengið um þjóðlendur, sem er í anda fjallkonunnar og um leið verkefni sem sameinar fólk.

Afmælisnefndin vildi hafa fjölskylduvæna hátíð og fjölskylduvæna dagskrá þar sem sjónum væri beint um allt land og einnig að Íslendingum erlendis þannig að dagskráin væri bæði nærandi og fræðandi. Kórar sameina fólk og í kórum er fjölbreytt fólk á öllum aldri og hvaðanæva að.

Gengið um þjóðlendur

Hin varðan, sem Margrét nefndi, er síðan Gengið um þjóðlendur þar sem markmiðið er líka að sameina fólk með gönguferðum um náttúruna. Verkefnið er í samstarfi við Ferðafélag Íslands og Útivist. „Þar erum við að ganga um þjóðlendur og náttúru Íslands. Við viljum vera til taks og spjalla um hvað eru þjóðlendur og hvaða máli þær skipta fyrir hagsmuni almennings til framtíðar litið,“ sagði Margrét.

Bollakökur í boði

Í tilefni af hátíðinni verða bakaðar tugþúsundir af bollakökum með lýðveldismerkinu sem einnig verður dreift um land allt 17. júní. Búið er að semja við bakara um allt land til að gera slíkar kökur og búið að skipuleggja það að alls staðar, þar sem verða formlegar hátíðir, verður bollukökunum dreift. Þetta sé hluti af því að gera notalega stemningu. Reynt verði að dreifa þessu jafnt yfir landið í stað þess að hafa aðeins eina köku í Reykjavík.

Lýðveldismerkið

Merki lýðveldisafmælisins er hannað af Sigurði Oddssyni og er innblásið af ímynd fjallkonunnar eins og allt annað tengt þessari hátíð. Laufamynstrið í tölunni 80 í merkinu er tilvísun í laufamynstrið á skautbúningi fjallkonunnar. „Fjallkonan er sú sem leiðir okkur áfram í þessu og öll dagskráin má segja er hylling til fjallkonunnar, sem er táknmynd lands og þjóðar og sjálfstæðis Íslands,“ segir Margrét.

Höf.: Sigríður Helga Sverrisdóttir