Upplifun Búa til miðbæ fótboltans á Brúartorgi.
Upplifun Búa til miðbæ fótboltans á Brúartorgi.
Það verður sannkölluð EM-stemning við Brúartorg í miðbæ Selfoss í sumar. Komið verður upp stórum skjá eins og fyrri ár og miðbær fótboltans búinn til. „Allir EM-leikir verða sýndir í beinni, það verður umfjöllun um leikina og í framhaldi af því viðburðir í kringum skjáinn

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Það verður sannkölluð EM-stemning við Brúartorg í miðbæ Selfoss í sumar. Komið verður upp stórum skjá eins og fyrri ár og miðbær fótboltans búinn til.

„Allir EM-leikir verða sýndir í beinni, það verður umfjöllun um leikina og í framhaldi af því viðburðir í kringum skjáinn. Það verða uppákomur í kringum leikina, viðburðir, veitingastaðir og verslanir verða með opið svo það verður mikil stemning,“ segir Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, verkefna- og markaðsstjóri miðbæjar Selfoss.

„Þetta er aðalviðburðurinn núna eða allavega á meðan EM er í gangi. Við höfum undanfarin ár verið að sýna brekkusönginn í beinni og verið með pöbbkviss og aðra alls konar viðburði í kringum þennan skjá. Bæði fullorðins- og fjölskylduviðburði.“

Vel heppnað síðustu ár

Hún segir að það hafi myndast gríðarleg stemning og skemmtun í kringum þessa viðburði síðustu ár.

„Það hefur verið svo gaman að vera með þennan skjá. Það er upplagt bæði fyrir heimamenn að koma og búa til stemningu fyrir fótboltanum en líka fyrir fólk úr bænum og annars staðar að til að gera sér ferð yfir heiðina og koma og horfa á leikina. Vera jafnvel yfir helgina eða hvernig sem það er. Vonum bara að veðrið verði með okkur í liði, það er svolítið atriði í þessu,“ segir Elísabet og hlær.

„Við erum að búa til meiri stemningu og skemmtilegri upplifun á Selfossi. Við viljum auðvitað bara ná fólki í bæinn til okkar svo það geti upplifað stemningu sem getur orðið til þarna í miðbænum okkar, sem fer stækkandi.“

Loksins er kominn staður á Selfoss fyrir fólk til að fara út, hittast og upplifa eitthvað skemmtilegt. „Það er kominn allt öðruvísi bæjarbragur og stemning í bæinn. Heimafólkið hefur tekið rosalega vel í þetta og er duglegt að koma. Það smitar út frá sér því fólk annars staðar að finnur það og vill vera með. Við finnum fyrir fleiri íslenskum ferðamönnum sem gera sér ferð á Selfoss. Mun meira en var,“ segir Elísabet að lokum.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir