Agnar Wiium Ástráðsson fæddist 18. ágúst 1947 í Reykjavík. Hann lést 21. maí 2024 á Hrafnistu Laugarási.

Foreldrar Agnars voru Elsa Kristín Wiium húsfreyja, f. 29. desember, d. 2012, og Ástráður Hólm Þórðarson múrarameistari, f. 13 nóvember 1921, d. 2001.

Agnar átti einn bróður, Kristján Wiium, kvæntur Pamela Ingrid K.Thordarson, dóttir þeirra er Kristín Kristjánsdóttir, gift Óskari Þór Óskarssyni.

Útför fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Lífsleið okkar liggur um ófyrirséðar lendur og fjöldi manna verður okkur samferða á þeirri leið í lengri eða skemmri tíma.

Þannig lágu leiðir okkar Agnars um sömu staði á sama tíma en við störfuðum árum saman á bæjarskrifstofu Garðabæjar en vorum einnig félagar í Karlakórnum Fóstbræðrum.

Þegar við hófum kynni okkar fórum við að ræða um uppruna okkar. Ég sagði Agnari þá sögu að þegar faðir minn var formaður á vélbát frá Seyðisfirði á árum síðari heimsstyrjaldar var hann eitt sinn að sumarlagi við veiðar sunnan til í Vopnafirði. Þá sáu bátsverjar að þýsk Focke-Wulf-flugvél kom fljúgandi inn fjörðinn að norðanverðu og þótti þeim einsýnt að flugvélin kæmi út að sunnanverðu á bakaleiðinni. Þeir vissu að íslenskir bátar höfðu orðið fyrir árásum og brugðu því á það ráð að sigla bátnum í felustað inn á milli kletta við bæinn Fagradal. Þar gátu þeir stokkið í land og hittu þar fyrir ungar huggulegar stúlkur við heyskap „sem báru ættarnafnið
Wiium“ bætti pabbi við. Ein þessara stúlkna mun hafa verið Elsa móðir Agnars.

Þegar ég horfi til baka til samstarfsins með Agnari sem alltaf var ánægjulegt og vinsamlegt eru það þrjár myndir sem mig langar að bregða upp.

Fyrsta myndin er úr Garðabæ. Ég var í vettvangsskoðun sem skipulagsstjóri í Akrahverfi þegar ég heyri nafn mitt kallað úr óvæntri átt og lít til himins. Þar sveif Agnar í körfu sem hékk neðan í byggingarkrana ásamt byggingarstjóra og var hann við úttekt. Það voru ekki síst byggingarstjórar sem höfðu orð á því að það væri gott að eiga samskipti við Agnar sem sinnti starfi sínu af nærgætni og yfirvegun. Hann var ekki gjarn á að flækja málin sem geta verið nógu snúin á þessu verksviði.

Agnar lét af störfum árið 2015 en var duglegur að líta inn hjá okkur á bæjarskrifstofunni þar til brast á með heimsfaraldrinum og öll samskipti voru bönnuð. Þegar þau ósköp voru afstaðin var hann farinn að veikjast og leiðin lá bratt niður á við. Önnur myndin er úr starfsmannaferð til Stuttgart árið 2012 þar sem Agnar er að dansa uppi á borði á bjórhátíð með vindil í annarri hendi en bjórkrús í hinni.

Þriðja myndin er úr síðasta söngferðalaginu sem Agnar fór í með Fóstbræðrum vorið 2019 en ári síðar gerðist það í fyrsta sinn síðan 1917 að aðaltónleikar kórsins, vortónleikar, féllu niður vegna covid. En Agnar náði þó að syngja eina „vortónleika“ til viðbótar sem voru hans 48. í október 2021. Á myndinni standa Fóstbræður í kvöldsólinni kjólklæddir eins og svartfugl í bjargi neðan við Kolbeinstangavita sem er í landi Leiðarhafnar í Vopnafirði. Einn kórfélagi okkar gerði málverk eftir myndinni sem hangir nú uppi í Fóstbræðraheimilinu enda skírskotun til verksins sem Fóstbræður frumfluttu, „Brennið þið vitar“, sterk. En á málverkinu má einnig sjá handan fjarðar Fagradalsfjöllin þangað sem Agnar átti ættir að rekja. Fagradalsheimilið var á sinni tíð rómað fyrir söng, hljóðfæraslátt, glaðværð og gestrisni og þangað sótti Agnar eflaust sönggleðina.

Blessuð sé minning byggingarfulltrúans og fóstbróðurins Agnars Wiium Ástráðssonar.

Arinbjörn Vilhjálmsson.

Þegar tekið er á móti nýjum kórmönnum í Karlakórnum Fóstbræðrum er viðkomandi settur við hlið sér eldri og reyndari félaga sem tekur hann að sér, leiðbeinir og aðstoðar eftir föngum fyrstu mánuðina. Er viðkomandi oft kallaður „mentor“. Agnar Wiium Ástráðsson var minn mentor er ég byrjaði í kórnum fyrir þó nokkrum árum síðan og fyrir það er ég þakklátur. Agnar, sem sjálfur gekk í raðir kórsins árið 1971 og hafði þegar upplifað flest það sem hægt er að upplifa í karlakór, tók mér vel og með sinni einskæru ljúfmennsku og þolinmæði hjálpaði hann nýgræðingnum eins og hægt var.

Þegar við félagarnir í Fóstbræðrum minnumst Agnars minnumst við hægláts ljúfmennis og húmorista sem aldrei tróð sér fram eða hreykti sér á nokkurn hátt heldur kappkostaði frekar með hvatningu og skemmtilegum athugasemdum að gera okkur hina sem með honum sungum stærri og sjálfsöruggari í okkar söng. Þó var 1. bassinn Agnar afbragðssöngvari og átti drjúgan þátt í að skapa góðan og fallegan hljóm í sinni rödd. Hann var líka góður félagi og ósérhlífinn og lét aldrei sitt eftir liggja er taka þurfti til hendinni hvort heldur var í félagsstarfinu eða söng við hin ólíku tilefni.

Agnar söng í kórnum í 49 ár eða á 48 vortónleikum og hafði fullan hug á að ná að syngja á 50 vortónleikum. Því miður gripu örlögin í taumana og varð Agnar að draga sig í hlé frá söngnum vegna veikinda og urðu vortónleikarnir árið 2021 hans síðustu. Ég vil þó trúa því að hann nái settu marki á nýjum stað er hann hittir fyrir Fóstbræður sem þegar eru horfnir á braut. Þykist ég vita að hann muni ekki láta sitt eftir liggja er hann hefur upp raust sína og syngur „Flytjum saman fullum rómi“ í félagssöng kórsins, Fóstbræðralagi.

Við félagar og vinir Agnars í Fóstbræðrum kveðjum kæran vin með söknuði og munum heiðra minningu hans og halda áfram að vanda okkur.

Hvíl í friði kæri vinur og blessuð veri minning þín.

Fyrir hönd Karlakórsins Fóstbræðra,

Halldór Þórarinsson, formaður.