Þríeyki Pétur Jónasson gítarleikari ásamt þeim hjónum, Guðrúnu og Javier, en þau koma öll þrjú fram á tónleikunum Ferðalok þann 23. júní.
Þríeyki Pétur Jónasson gítarleikari ásamt þeim hjónum, Guðrúnu og Javier, en þau koma öll þrjú fram á tónleikunum Ferðalok þann 23. júní. — Ljósmynd/Francisco Javier Jáuregui
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Á dagskránni í ár eru átta tónleikar og mjög margir sem taka virkan þátt en á hátíðinni eru 80 tónlistarmenn, aðallega söngvarar en líka hljóðfæraleikarar og stjórnendur. Að auki eru líka ýmis námskeið en við sýnum kannski svolítið breiða…

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Á dagskránni í ár eru átta tónleikar og mjög margir sem taka virkan þátt en á hátíðinni eru 80 tónlistarmenn, aðallega söngvarar en líka hljóðfæraleikarar og stjórnendur. Að auki eru líka ýmis námskeið en við sýnum kannski svolítið breiða flóru íslenskra söngvara, frá þeim yngstu og þeim sem eru að hasla sér völl til mjög reyndra söngvara sem bæði koma fram og eru að kenna. Þar má meðal annars nefna Diddú sem kennir á masterclass-námskeiði og miðlar af sinni reynslu þar,“ segir Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, sem ásamt manni sínum, Francisco Javier Jáuregui, er listrænn stjórnandi og stofnandi Sönghátíðar í Hafnarborg. Hátíðin hefst á laugardaginn, 15. júní, og stendur til sunnudagsins 30. júní.

Tilfinningaþrunginn titill

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarhátíð ársins 2020 en hún var stofnuð árið 2017. Hátíðin fer því nú fram í áttunda sinn en titill hennar að þessu sinni er „Dýpsta sæla og sorgin þunga“ sem vísar í tilfinningaþrungið ljóð Ólafar frá Hlöðum. Spurð nánar út í valið á titlinum segir Guðrún þau hjónin afar hrifin af ljóðinu enda sé það einstaklega fallegt. „Við sömdum lag saman við þetta ljóð en lagið kom einhvern veginn bara til okkar. Svo eru þetta svo sterk orð að við ákváðum að nota þau sem titil hátíðarinnar í ár en þessi fyrsta lína lýsir í rauninni umfjöllunarefni stórs hluta þess sem verið er að fjalla um á hátíðinni, það er að segja þessum andstæðum, sælunni og sorginni, og þessu ástandi manneskjunnar sem ljóðskáld og tónskáld hafa fundið sig knúin til að tjá í verkum sínum, sem og söngvarar og hljóðfæraleikarar líka. Þannig að okkur fannst þetta aðallega svo tilfinningaþrunginn titill sem nær þeim tilfinningum sem eru í mörgum af þeim verkum sem eru á efnisskránni.“

Fjölbreytt dagskrá

Á hátíðinni verður boðið upp á fjölbreytta tónleika með gamalli og splunkunýrri íslenskri og erlendri tónlist, ljóðatónlist, kórverk og tónlist úr óperum og zarzúelum og segir Guðrún af nægu að taka.

„Það eru nokkrir söngvarar að koma frá útlöndum sem eru starfandi þar eins og Alexander Jarl Þorsteinsson, Marta Kristín Friðriksdóttir, Sveinn Dúa Hjörleifsson og Tómas Tómasson og svo margir listamenn sem eru mjög virkir og starfa hér á Íslandi, bæði sem einstaklingar og aðrir sem hópar, eins og Kammeróperan. Við fáum einnig áhugaverða heimsókn frá Póllandi en þaðan kemur metnaðarfullur raddoktett, Simultaneo, og Maria Pomianowska sem leikur á óvenjulegt hljóðfæri, fjögurra strengja suka. Hópurinn, undir stjórn Karol Kisiel, frumflytur meðal annars nýtt verk á hátíðinni, samið sérstaklega fyrir Simultaneo,“ segir hún og nefnir í kjölfarið að hún voni að koma hópsins veki áhuga þeirra fjölmörgu Pólverja sem búi á Íslandi.

„Svo má ég til með að nefna ungu kynslóðina en kammerkórinn Huldur samanstendur af ungum söngvurum sem syngja undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Þau eru með alíslenska efnisskrá, bæði lög eftir Emil Thoroddsen og Jón Ásgeirsson en líka frumflutning á verki eftir Hauk Tómasson. Sumir í kórnum bæði syngja og semja tónlist eða texta. Þannig að þetta er kammerkór sem leggur mikið upp úr frumsköpun og nýjum verkum en mörg þeirra hafa verið í kór Menntaskólans við Hamrahlíð.“

Safna fyrir geisladisknum

Þá segir Guðrún óperutónlist sérstaklega áberandi á efnisskrá hátíðarinnar í ár þar sem margir einsöngvarar sameini raddir sínar í flutningi á sumum af ástsælustu augnablikum óperubókmenntanna. „Einir tónleikarnir eru einmitt orðnir að nokkurs konar hefð á hátíðinni og það er Óperugala. Þeir eru alltaf rosalega vel sóttir svo það er mjög mikil hætta á að það verði uppselt. Það er því gott að næla sér í miða í tæka tíð,“ segir hún og hlær. „Þar koma fimm söngvarar fram en tveir þeirra eru að koma sérstaklega frá útlöndum fyrir tónleikana.“

Auk þess að vera á kafi í undirbúningi þessa dagana vinna þau Guðrún og Javier hörðum höndum að útkomu nýs geisladisks og á einum tónleikum hátíðarinnar, sem bera yfirskriftina Ferðalok, munu þau flytja mörg af þeim lögum sem finna má á disknum. „Þetta eru allt lög eftir Atla Heimi Sveinsson, sem Javier hefur útsett, en við erum með í gangi núna söfnun á Karolina Fund til að klára framleiðsluna á disknum. Pétur Jónasson er líka með okkur í hluta af efnisskránni sem og Gissur Páll Gissurarson sem flytur ástsæl lög eftir Sigvalda Kaldalóns þannig að þetta eru tveir risar í íslensku sönglagahefðinni, Atli Heimir Sveinsson og Sigvaldi Kaldalóns, saman á tónleikum.“

YouTube-síðan vinsæl

Innt eftir því hvort hátíðin hafi eitthvað breyst á þessum átta árum svarar Guðrún því til að hún hafi í það minnsta alltaf haldið í kjarnann sem sé þessi órafmagnaða söngtónlist. „Röddin er mikið í fyrirrúmi en á hverri hátíð er alltaf eitthvað nýtt, nýir flytjendur og ólíkar efnisskrár. Ég myndi þó ekki segja að hátíðin sé eitthvað mikið annað en þegar hún byrjaði því kjarninn er sá sami, að bjóða upp á söngtónleika þar sem órafmögnuð söngrödd heyrist í einsöng, samsöng, með hljóðfærum og a capella. Hátíðin er farin að festa sig mikið í sessi og margt fólk kemur ár eftir ár og kaupir sér hátíðarpassa. Sumir mæta á alla tónleikana sem okkur finnst alveg frábært því um leið verður til einhvers konar félagsleg vídd á hátíðinni,“ segir hún og bætir því við að þau hjónin hafi verið dugleg síðastliðin ár að færa inn upptökur frá völdum atriðum inn á YouTube-síðu hátíðarinnar. „Við myndum vilja setja inn miklu meira en við höfum bara ekki tíma til að klippa öll þessi myndbönd. Á síðunni hefur hins vegar byggst upp ákveðið safn sem ég veit að fólk leitar töluvert í. Þar er mikið af upptökum af söngvurum og líka mikið af tónlist, stundum tónlist sem jafnvel er ekki til annars staðar í upptökum. Þar má einnig finna viðtöl við söngvara og aðra tónlistarmenn um ýmislegt en þar er farið dálítið djúpt ofan í söngtækni. Þannig að þar eru myndbönd sem geta bæði gagnast hinum almenna áhorfanda og áhugamanni um söng en líka þeim sem helga sig sönglistinni.“

Börnunum boðið að borðinu

Auk tónleikanna átta býður hátíðin upp á masterclass-námskeið Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Diddúar, fyrir söngnemendur og söngvara, tónlistar- og myndlistarnámskeið fyrir 6-12 ára, tónlistarsmiðju fyrir 3-5 ára og krílasöng fyrir 6-18 mánaða. Er markmið hátíðarinnar að koma list raddarinnar á framfæri og segir Guðrún aðspurð að mjög mikilvægt sé að bjóða börnunum að borðinu. „Einnig er mikilvægt að bjóða foreldrunum með en á tveimur námskeiðunum taka foreldrarnir líka þátt með börnunum sínum. Þessi námskeið eru mjög vinsæl og fyllast strax. Þarna fá foreldrarnir tækifæri til að eiga tónlistarstund með börnunum sínum, sem er mjög gaman. 6-12 ára börnin eru svo bæði með myndlistar- og tónlistarkennara þannig að þar blöndum við saman listgreinunum, sem okkur finnst mjög áhugavert. Í sönginn blandast svo líka bókmenntir, ljóðlist og tónlist en börnin í þessum aldursflokki koma svo fram á tónleikum með atvinnutónlistarmönnum þannig að við gefum þeim sitt pláss og það verður blöndun á milli kynslóða, milli barna og atvinnumanna,“ segir hún og tekur sérstaklega fram að frítt sé inn á fjölskyldutónleikana.

Að sögn Guðrúnar hefur undirbúningurinn gengið vel og segir hún hátíðina vel sótta á hverju ári. „Fólk veit orðið af þessari hátíð, þar sem þetta er áttunda árið, og spyr okkur oft að fyrra bragði, jafnvel löngu áður, hvort miðasalan fari ekki örugglega að hefjast. Miðasalan í ár hefur farið vel af stað og fullt af fólki er þegar búið að kaupa sér hátíðarpassa en það er takmarkað upplag af honum í boði. Á hverjum tónleikum koma fram margir listamenn svo áhorfendur fá góða sýn á söngflóruna á landinu í dag. Einnig hvetjum við stundum áhorfendur í salnum til að syngja með í lok tónleika, sem er mjög skemmtilegt,“ segir Guðrún að lokum, full eftirvæntingar fyrir komandi dögum.

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar og þá listamenn sem þar koma fram má finna á heimasíðu hennar songhatid.com.