Stýrivextir Jerome Powell slær á væntingar um lækkun stýrivaxta.
Stýrivextir Jerome Powell slær á væntingar um lækkun stýrivaxta. — AFP/Andrew Caballero-Reynolds
Bandaríski Seðlabankinn ákvað í gær að halda stýrivöxtum vestanhafs óbreyttum á bilinu 5,25 – 5,5%. Vextir bankans hafa ekki verið hærri í rúma tvo áratugi. Samhliða því gaf bankinn það út að ekki mætti búast við vaxtalækkun fyrr en í fyrsta…

Bandaríski Seðlabankinn ákvað í gær að halda stýrivöxtum vestanhafs óbreyttum á bilinu 5,25 – 5,5%. Vextir bankans hafa ekki verið hærri í rúma tvo áratugi.

Samhliða því gaf bankinn það út að ekki mætti búast við vaxtalækkun fyrr en í fyrsta lagi undir lok árs, þá líklega á síðasta vaxtaákvörðunardegi ársins sem er í desember. Þessi spá, sem lögð var fram í fundargerð peningastefnunefndar bankans, vakti athygli helstu viðskiptamiðla og greinenda í gær, því nefndin hafði gefið það út í byrjun árs að hún gerði ráð fyrir því að lækka vexti í þremur áföngum yfir árið.

Greinendur vestanahfs hafa þó stillt væntingum sínum í hóf eftir að Jerome Powell seðlabankastjóri lét hafa eftir sér í fjölmiðlum í byrjun vikunnar að óljóst væri um vaxtalækkanir. Hann tók að vísu þannig til orða að áform um vaxtalækkanir væru ekki meitlaðar í stein og að bankinn væri reiðubúinn að halda vöxtum háum eins lengi og þörf krefur til að kveða niður verðbólgu. Hún mældist í lok maí 3,3% og hefur lítið breyst á árinu.

Powell hefur áður sagt að bankinn muni leggja áherslu á að ná verðbólgumarkmiði sínu, sem er 2%. Í helstu viðskiptamiðlum vestanhafs í gær mátti sjá greinendur tala um að í ljósi stöðunnar í hagkerfinu væri nær útséð með vaxtalækkun fyrr en þá í fyrsta lagi undir lok árs. Hagkerfið væri ekki að kólna í samræmi við væntingar seðlabankans, til dæmis fjölgaði nýjum störfum um 272 þúsund í maí. Þó höfðu einhverjir væntingar um vaxtalækkun fyrr, og vísað þar til þess að evrópski seðlabankinn væri að munda sig upp í vaxtalækkunarferli.