[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk sem býr á hjara veraldar þarf nauðsynlega á því að halda að fá smá sól í andlitið og fylla kroppinn af D-vítamíni. Það skiptir máli að nota hverja stund sem býðst til þess að slaka svolítið á og hafa það gott

Marta María Winkel Jónasdóttir

mm@mbl.is

Fólk sem býr á hjara veraldar þarf nauðsynlega á því að halda að fá smá sól í andlitið og fylla kroppinn af D-vítamíni. Það skiptir máli að nota hverja stund sem býðst til þess að slaka svolítið á og hafa það gott. Stóru tískuhúsin úti í heimi koma reglulega með sólstrandarlínur sem innihalda eigulegt góss eins og hatta, baðföt og handklæði. Í ár er það fyrirsætan Olivia Vinten sem situr fyrir í slíkri línu frá franska tískuhúsinu Chanel. Það er auðvelt að láta sig dreyma um hatt, stuttbuxur og hlýralausan topp þegar myndir úr línunni eru skoðaðar. Ef þú vilt leika þetta eftir gætirðu fest kaup á stuttbuxum og hlýralausum topp.

Handfarangurinn kemur sterkur inn

Það færist í vöxt að fólk fari í raunveruleg frí til þess að hlaða batteríin – ekki til þess að ná góðum myndum af sér í fríinu. Eftir að hafa týnt tösku á leið til Rómar fyrir nokkrum árum ferðast ég helst aldrei nema með handfarangur. Það kom mér því ekki á óvart þegar ég las grein í Sunday Times fyrir stuttu þar sem kom fram að allir helstu tískuritstjórar heimsins eru snarhættir að tékka inn risatösku þegar farið er í frí heldur er handfarangurinn mest móðins núna. Það að ferðast bara með handfarangur veitir ákveðið aðhald en líka mjög mikið frelsi. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að taskan týnist eða stolið sé úr henni. Það þarf að undirbúa pökkun vel og í raun þarf fólk að hanna atburðarás þótt það sé að fara að slaka á. Fólk þarf stuttbuxur og toppa en líka einar síðar buxur og síðerma flík til að vera í á kvöldin til að forðast bit. Ég ferðast til dæmis alltaf með þrjú pör af skóm; eina háhælaða skó sem eru þægilegir, eitt par af sandölum og íþróttaskó. Ég nýti allt plássið í töskunni og passa að það sé ekkert holrými. Treð til dæmis nærfötum inn í íþróttaskóna og set örlítið þvottaefni með í lítinn IKEA-plastpoka svo ég geti handþvegið í vaskinum á hótelherberginu. Þegar þú ert búin að pakka ofan í tösku þarftu að skipuleggja hvað þú ætlar að lesa í fríinu. Ef þú ert ekki búin að lesa nýjustu bók Isabel Allende, Vindurinn veit hvað ég heiti, þá skaltu taka hana með þér og svo gæti verið sniðugt að hlusta á Sálarangist eftir Steindór Ívarsson á Storytel eða Hugrekki eftir Höllu Tómasdóttur. Nú eða horfa bara út í loftið og njóta augnabliksins. Fólk gerir víst allt of lítið af því.