Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Vinstri meirihlutinn í borgarstjórn sendir unglingum í Reykjavík kaldar kveðjur með ítrekaðri kjaraskerðingu.

Kjartan Magnússon

Öflugir unglingar hófu störf í unglingavinnunni, Vinnuskóla Reykjavíkur, í vikunni. Þar munu þeir sinna hefðbundnum verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds. Ástæða er til að þakka unglingunum fyrir mikilvægt vinnuframlag sem vegur þungt í umhirðu borgarinnar.

Laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur hækkuðu síðast sumarið 2022 en voru síðan óbreytt sumarið 2023 samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Slík launafrysting hafði verulega kjaraskerðingu í för með sér fyrir unglingana vegna verðbólgunnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu í fyrra að hnekkja umræddri kjaraskerðingu með því að leggja til í borgarstjórn að tímalaun unglinga í Vinnuskólanum myndu hækka um 9% sumarið 2023 eða í samræmi við launavísitölu. Vinstri meirihlutinn kom hins vegar í veg fyrir að tillagan yrði rædd eða afgreidd í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn skaut tillögunni þá til borgarráðs þar sem hún var tekin til afgreiðslu og felld 13. júlí með atkvæðum meirihlutans.

Tillaga Reykjavíkurráðs ungmenna

Reykvískir unglingar voru óánægðir með umrædda kjaraskerðingu eins og gefur að skilja. Fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna tóku málið upp á sameiginlegum fundi ráðsins með borgarstjórn í febrúar sl. Lögðu þeir til að launin yrðu hækkuð nú í sumar í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta hækkun var gerð. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins studdu tillöguna en niðurstaðan varð sú að vísa henni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.

Sanngjarnt hefði verið að leiðrétta laun unglinganna í samræmi við launavísitölu frá síðustu breytingu 2022 eins og Reykjavíkurráð ungmenna fór fram á. Þegar málið var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði í apríl sl. kom hins vegar í ljós að hugur meirihlutans stóð til þess að festa áðurnefnda kjaraskerðingu í sessi gagnvart reykvískum unglingum. Samþykkti meirihlutinn þannig tillögu um 7,8% hækkun launataxta, sem er langt frá því að vinna upp þá kjaraskerðingu er unglingarnir hafa orðið fyrir frá síðustu hækkun, 2022.

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að launin hækkuðu í samræmi við launavísitölu frá 2022 var felld með atkvæðum meirihlutans í ráðinu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram sömu tillögu um launaleiðréttingu til handa unglingunum við afgreiðslu málsins í borgarráði 18. apríl sl. Þar var hún einnig felld og í borgarstjórn 23. apríl höfnuðu fulltrúar meirihlutans því að slík tillaga yrði tekin til meðferðar.

Ítrekuð kjaraskerðing meirihlutans

Meirihlutaflokkarnir í Reykjavík, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Viðreisn, hafa þannig ítrekað skert kjör yngsta starfsfólks borgarinnar, 13-16 ára unglinga, á sama tíma og samið hefur verið um umtalsverðar kjarabætur fyrir alla aðra hópa.

Unglingavinnan er fyrsta reynsla þúsunda unglinga af vinnumarkaði. Með slíkri kjaraskerðingu sendir meirihluti borgarstjórnar unglingunum kaldar kveðjur, sýnir mikilvægu vinnuframlagi þeirra óvirðingu og notfærir sér að þessi viðkvæmi hópur hefur ekki samningsrétt.

Í sumar verður tímakaup reykvískra unglinga í 8. bekk 766,5 krónur, í 9. bekk 1.022 kr. og í 10. bekk 1.277,5 kr. Eru þetta mun lægri laun en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða sínum unglingum.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.