[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleiksmaðurinn reyndi Kári Kristján Kristjánsson ætlar að leika áfram með ÍBV á næsta tímabili. Kári gaf til kynna í vor að hann myndi leggja skóna á hilluna en hann staðfesti við Vísi í gær að hann myndi leika áfram með Eyjamönnum næsta vetur

Handknattleiksmaðurinn reyndi Kári Kristján Kristjánsson ætlar að leika áfram með ÍBV á næsta tímabili. Kári gaf til kynna í vor að hann myndi leggja skóna á hilluna en hann staðfesti við Vísi í gær að hann myndi leika áfram með Eyjamönnum næsta vetur. Kári verður fertugur í október og hefur leikið samfleytt með Eyjamönnum frá 2015 þegar hann sneri aftur til Eyja eftir tíu ára fjarveru. Hann hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með ÍBV á undanförnum árum.

Aleksandar Pavlovic, leikmaður Bayern München, verður ekki með þýska landsliðinu á Evrópumótinu í knattspyrnu vegna hálsbólgu. Emre Can leikmaður Dortmund kemur inn í hans stað en þeir eru báðir varnarsinnaðir miðjumenn. Pavlovic, sem er aðeins 20 ára gamall, var í stóru hlutverki hjá Bayern á síðasta tímabili. Hann er hins vegar of veikur til að taka þátt á Evrópumótinu í heimalandinu.

Hollenska landsliðskonan Victoria Pelova, sem spilar með Arsenal í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á Englandi, sleit krossband í hné í landsleik á dögunum. Pelova var í lykilhlutverki á miðjunni hjá Arsenal á tímabilinu og spilaði alla 22 leiki liðsins sem lenti í þriðja sæti í deildinni.

Lamine Yamal, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins í knattspyrnu, tók heimanám með sér til Þýskalands þar sem EM hefst á föstudaginn en hann er yngsti leikmaður mótins í ár. Yamal er fæddur árið 2007 og verður sautján ára 13. júlí, degi fyrir úrslitaleik EM. Pólverjinn Kacper Kozłowski er yngsti leikmaður sem hefur spilað á EM en hann var 17 ára og 246 daga gamall þegar hann lék á EM árið 2020. Ef Yamal spilar, sem er líklegt, mun hann slá metið.

Spænsku tennisstjörnurnar Carlos Alcaraz og Rafael Nadal sameina krafta sína á Ólympíuleikunum í París í sumar og keppa saman í tvíliðaleik. Nadal er 38 ára gamall og hefur tvisvar sinnum unnið gullverðlaun á Ólympíuleikum en hann gerði það árið 2016 í tvíliðaleik með Marc Lopez og 2008 í einliðaleik, þegar núverandi samherji hans Alcaraz var aðeins fimm ára gamall. Alcaraz er 21 árs gamall og tekur þátt í fyrsta sinn á Ólympíuleikum en hann er annar á heimslistanum.