Varasamar verklagsreglur Rúv.

Í gær komu óvænt fyrir almenningssjónir „Verklagsreglur vegna uppljóstrunar starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Ríkisútvarpsins“, sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri setti starfsmönnum og raunar stjórn Ríkisútvarpsins ohf. líka.

Markmið reglnanna er að koma í veg fyrir það í lengstu lög að fjallað sé um það sem út af kann að bera í Efstaleiti annars staðar en í Efstaleiti.

Allt eflaust í nafni gagnsæis og góðra stjórnunarhátta, en tekið fram að reglurnar séu settar á grundvelli 5. gr. laga um vernd uppljóstrara.

Varla verður annað sagt en að reglurnar hafi dugað vel, svona miðað við það að útvarpsstjóri setti þær hinn 21. mars 2024, en af þeim hafði enginn frétt fyrr en í gær og ekki fyrir tilverknað Ríkisútvarpsins, „fjölmiðlis í almannaþágu“.

Athygli vekur að verklagsreglurnar taki til stjórnar Rúv., því það er ekki vaninn að ráðnir framkvæmdastjórar setji yfirstjórn sinni reglur. Enn síður í ljósi þess að stjórnin er kjörin af Alþingi og á trúnað við það, ekki útvarpsstjóra eða reglur hans.

Enn furðulegra er málið þó fyrir það að ekki verður af fundargerðum stjórnar séð að útvarpsstjóri hafi kynnt henni þessar verklagsreglur, sem hann vill að hún lúti.

Það kom því í hlut Páls Vilhjálmssonar, kennara og blaðamanns, að greina frá þessum leynilegu reglum á bloggi sínu, en hann hefur fjallað mikið um starfshætti Rúv. og starfsmanna þess.

Verklagsreglurnar eru ekki langar, en vekja áleitnar spurningar um viðhorf Rúv. til landslaga. Í þeim er starfsmönnum í raun bannað að tjá sig við aðra fjölmiðla um málefni ríkisfjölmiðilsins, sem gagnrýnisverð geta talist, nema að fengnu leyfi frá yfirmanni eða að verklagsúrræði Rúv. séu fullreynd.

Erfitt er að sjá hvernig slíkar takmarkanir á lögvernduðum mannréttindum eru í anda fjölmiðils, sem hafa á hreinskilni og upplýsingu almennings að leiðarljósi.

Enn síður þó hitt, að með reglunum virðist útvarpsstjóri vilja upphefja hinar almennu leiðir réttarríkisins, sem borgararnir hafa til þess að koma umkvörtunum á framfæri við réttvísina, að eitthvað annað eigi að gilda um Ríkisútvarpið og starfsmenn þess. Að stjórninni ógleymdri.

Reglur Stefáns kveða á um að verði starfsmenn Rúv. áskynja um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi á vettvangi stofnunarinnar sé þeim skylt að koma því á framfæri með „innri uppljóstrun“ og annars staðar ekki.

Starfsmanni Rúv. er aðeins heimilt að grípa til „ytri uppljóstrunar“ að uppfylltum fjórum skilyrðum: Að hann hafi „reynt innri uppljóstrun til þrautar“, að hún hafi ekki „leitt til fullnægjandi viðbragða“, hann geri það í góðri trú um að hafa á réttu að standa, í þágu almennings og ekki hægt að koma í veg fyrir ósómann öðruvísi, og loks að hann hafi „réttmæta ástæðu til að ætla að um háttsemi sé að ræða sem getur varðað fangelsisrefsingu“.

Þetta eru ströng skilyrði, einkum í ljósi þess að í reglunum er ávallt vikið að stofnuninni sjálfri, aðeins einu sinni minnst á eftirlitsaðila en alls ekki á lögregluna, líkt og gert er í lögunum, sem reglurnar eru reistar á. Framhald uppljóstrana um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi veltur því að mestu á stofnuninni sjálfri. Sagði einhver ríki í ríkinu?

Nú er það svo að Rúv. hefur ekki alltaf farið að lögum, t.d. um stofnun dótturfélags utan um samkeppnisrekstur. Þar voru miklir hagsmunir í húfi og markmiðið skipuleg skattaundanbrögð, en ekki svo að einhver væri á leiðinni í steininn. Hefði enginn mátt frétta af því nema með leyfi höfuðpaursins?

Markmið reglnanna er vitaskuld að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Rúv., en Páll bendir á að hvorki Stefán né aðrir undirmenn hans hafi reynst liðlegir við að svara spurningum um möguleg lögbrot, sem starfsmenn Rúv. kunna að hafa tengst.

Reglur um að allar uppljóstranir innan Rúv. endi á borði hans eru því ekki ýkja trúverðugar. Löghlýðnin í Efstaleiti og fréttaflutningur um hana má ekki velta á mati útvarpsstjóra eins.