— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gosmóðan gefur dulúðugan blæ á höfnina við Skarfabakka þennan morgun sem blaðamaður á leið í franska könnunarskipið og ísbrjótinn Le Commandant Charcot. Fyrsta tvinnskipið (e. hybrid) meðal skemmtiferðaskipa sem siglir á norðurslóðum og eini ísbrjóturinn sem hefur verið byggður sem farþegaskip

VIÐTAL

Guðrún S. Sæmundsen

gss@mbl.is

Gosmóðan gefur dulúðugan blæ á höfnina við Skarfabakka þennan morgun sem blaðamaður á leið í franska könnunarskipið og ísbrjótinn Le Commandant Charcot. Fyrsta tvinnskipið (e. hybrid) meðal skemmtiferðaskipa sem siglir á norðurslóðum og eini ísbrjóturinn sem hefur verið byggður sem farþegaskip.

Heimsókn í skipið er háð ströngum skilyrðum og eflaust meira eftirliti en Íslendingur getur vanist enda kreistir blaðamaður ökuskírteinið í hægri hendi til að vera öruggur um að sanna á sér deili þegar í skipið er komið.

Rekstraraðili Le Commandant Charcot er franska fyrirtækið Ponant sem gerir út fjölda skemmtiferðaskipa er sigla víða um heim. Á Skarfabakka hefur skipið stutta viðveru áður en það leggur af stað í næstu ferð.

Le Commandant Charcot siglir ótroðnar slóðir. Að vera ísbrjótur þýðir að skipið getur ferðast á staði sem önnur skemmtiferðaskip komast ekki á enda nýkomið úr för í afskekktar byggðir á Grænlandi.

Allir um borð!

Le Commandant Charcot rúmar 245 farþega og 215 manns í áhöfn. Skipstjórinn Patrick Marchesseau segir fjölbreytni farþeganna mikla en þeir eru frá Bandaríkjunum, Kína og mismunandi Evrópulöndum.

Í hverri ferð fylgir alla jafna hópur fjögurra vísindamanna sem starfa við rannsóknir sínar um borð. Marchesseau segir þá geta verið að rannsaka hluti eins og örplast í sjó, bráðnun íss og fleira. Á skipinu eru tvær rannsóknastofur sem auðvelda vísindamönnunum vinnuna og gera þeim kleift að deila framvindunni með farþegum. Þá geta farþegar skipsins hjálpað til við aðgengilegri verkefni, eins og að skoða og greina sjófugla.

Innviðir skipsins eru á við fimm stjörnu hótel og leiðist blaðamanni ekki að ganga um og skoða spa-ið, líkamsræktina, koníaksstofuna, innisundlaug og slökunaraðstöðu. Yfirkokkur veitingastaðarins um borð þarf á hverjum degi að uppfæra matseðilinn í takt við birgðastöðu og það sem er fáanlegt á hverjum stað. Þegar skipið er í höfn í Reykjavík er keypt íslenskt hráefni svo farþegar fái það ferskasta hverju sinni.

Charcot skipstjóri

Le Commandant Charcot var afhent í apríl 2021 og vígt í lok júlí sama ár og er því aðeins þriggja ára. Anne Manipoud-Charcot gaf skipinu nafnið Le Commandant Charcot í höfuðið á afa sínum, franska lækninum og heimskautafaranum Jean-Baptiste Charcot sem fórst með skipinu „Pourquoi-Pas?“ í óveðri við strendur Íslands í desember 1936. „Le Commandant Charcot“ þýðir einmitt Charcot skipstjóri.

Ferðirnar ævintýri líkastar

Skipið er nýlent í Reykjavík eftir ferð til suðausturstrandar Grænlands. Marchesseau segir það meðal annars hafa siglt til þorpsins Tasiilaq en umferð þangað er afar takmörkuð nema helst úr lofti, þar sem sjórinn er þakinn ís.

Marchesseau lýsir því hvernig allir njóta góðs af heimsókn skipsins, bæði farþegar og þorpsbúar, en skipið flytur með sér ferska matvöru, grænmeti og ávexti sem það færir þorpinu á vörubrettum. Skipið leggur að höfn og farþegar fara frá borði til að skoða þorpið og umhverfi þess. Ef áhugi er fyrir hendi er hægt að prófa mismunandi afþreyingu á sjónum eins og kajakferðir eða úti á ísnum og nefnir Marchessau gönguskíði og snjóþrúgur.

Um borð starfa Inúítar en þeir eru einnig leiðsögumenn. Inúítar eru þeir sem sjá ísbirnina á undan öllum öðrum um borð. „Þeir eru algjörlega frábærir,“ segir Marchesseau og á þar við Inúítana. „Við sjáum ísbirni mjög reglulega í hverri ferð. Örugglega um 30 birni.“

Blaðamaður sér þetta myndrænt fyrir sér og fær spennuhroll þegar skipstjórinn lýsir því hvað gerist þegar ísbjörn er í augsýn.

Dýrið sést yfirleitt úr töluverðri fjarlægð, en þá hægir skipið ferðina. Dýrinu er látið eftir að taka ákvörðun. Það gæti sleppt því að hreyfa sig, verið grafkyrrt. Þá er bara að bíða. Ef ísbjörninn verður hræddur fer hann fljótt. Ísbjörninn getur einnig gerst forvitinn og nálgast skipið. „Við leyfum honum að koma,“ segir Marchesseau. Bera þarf virðingu fyrir náttúrunni á þessum framandi slóðum.

Ísjakarnir breytast ört

Aðspurður segir Marchesseau erfitt að greina breytingar á ísnum þar sem skipið hefur aðeins siglt í þrjú ár á þetta svæði. „Ísinn hefur verið að minnka sem eru auðvitað opinberar tölur.“ Þótt augað sjái ekki greinilegar breytingar á ísnum er því öðruvísi farið með ísjakana en auðveldara er að sjá bráðnun þeirra frá ári til árs.

Næst er ferðinni heitið á norðaustanvert Grænland. Marchesseau ætlar að reyna að sigla skipinu eins norðarlega og mögulegt er. Meta verður stöðuna á ísnum hverju sinni. Sú ferð endar síðan á Svalbarða. Þaðan verður svo farið á Norðurpólinn. Á þeirri leið ætlar norskur könnunarbátur að fylgja Le Commandant Charcot því ísbrjóturinn auðveldar aðgengi að pólnum.

Höf.: Guðrún S. Sæmundsen