Flestir leikmenn í Bestu deild kvenna í fótbolta á yfirstandandi keppnistímabili eru uppaldir á Akureyri. Alls koma 25 leikmenn í deildinni í ár frá Akureyrarliðunum Þór og KA og flestar spila konurnar með sameiginlegu liði félaganna, Þór/KA

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Flestir leikmenn í Bestu deild kvenna í fótbolta á yfirstandandi keppnistímabili eru uppaldir á Akureyri. Alls koma 25 leikmenn í deildinni í ár frá Akureyrarliðunum Þór og KA og flestar spila konurnar með sameiginlegu liði félaganna, Þór/KA.

Átján af þeim 23 konum sem hafa spilað með Þór/KA í fyrstu sjö umferðum Bestu deildarinnar í ár eru uppaldar á Akureyri og sjö til viðbótar leika með öðrum liðum í deildinni.

Af þessum 25 Akureyringum í deildinni eru sextán uppaldar hjá Þór og níu hjá KA.

Í leikjum Akureyrarliðsins á þessu tímabili hafa verið allt að níu uppaldir leikmenn í byrjunarliðinu. Hulda Ósk Jónsdóttir, sem kom frá Völsungi, er eini íslenski leikmaðurinn sem er reglulega í byrjunarliði Þórs/KA og er ekki alin upp á Akureyri. Þetta er hins vegar hennar níunda tímabil með Þór/KA.

Tindastóll með 50 prósent

Þetta er langhæsta hlutfallið af uppöldum leikmönnum hjá liðunum tíu í deildinni en aðeins eitt annað félag nær að vera með 50 prósent uppalda leikmenn. Það er Tindastóll sem hefur teflt fram níu Skagfirðingum af þeim átján sem hafa leikið með liðinu í deildinni það sem af er tímabilinu. Til viðbótar leika þrír Húnvetningar með Tindastóli en þær stúlkur léku með Kormáki í yngri flokkunum.

FH hefur notað næstflesta uppalda leikmenn til þessa á tímabilinu, tíu talsins, en hefur hins vegar notað flesta leikmenn af öllum liðunum, en alls hafa 24 konur komið við sögu hjá Hafnarfjarðarliðinu í sjö leikjum.

Nítján koma úr Breiðabliki

Breiðablik á hins vegar næstflesta leikmenn í deildinni en samtals nítján konur sem hafa komið við sögu í fyrstu sjö umferðunum eru uppaldar hjá Kópavogsliðinu.

Af þeim spila hins vegar aðeins níu með Breiðabliki á yfirstandandi tímabili og hinar tíu dreifast í önnur félög deildarinnar.

Flestar sem hafa yfirgefið Kópavoginn leika nú með FH, eða fjórar talsins.

Fæstar í Reykjavíkurliðum

Reykjavíkurfélögin Víkingur, Þróttur, Fylkir og Valur raða sér í fjögur neðstu sætin á listanum yfir uppalda leikmenn á þessu tímabili. Víkingar eru með sex heimakonur en hin þrjú félögin eru með fimm uppalda leikmenn hvert.

Valur á hins vegar sjö leikmenn í öðrum liðum deildarinnar og því samanlagt tólf leikmenn í deildinni, jafnmarga og Stjarnan.

Flestar frá Bandaríkjunum

Eins og vanalega eru langflestir erlendir leikmenn deildarinnar bandarískir og af 33 útlendingum sem hafa spilað í deildinni í ár koma 20 frá Bandaríkjunum en síðan koma fjórar konur frá Kanada og þrjár frá Finnlandi. Hinar sex koma frá sex mismunandi löndum.

Breiðablik er eina liðið í deildinni sem er ekki með neinn bandarískan leikmann í sínum röðum.

Talsverð fækkun frá 2023

Í fyrra léku 50 erlendar konur í deildinni og þeim hefur því fækkað talsvert en getur fjölgað á ný í júlí þegar opnað verður fyrir félagaskiptin.

Keflavík er með flesta erlenda leikmenn í sínum röðum, sjö talsins, og Tindastóll kemur næstur með fimm. Fæstir erlendir leikmenn eru hjá Breiðabliki, aðeins finnski bakvörðurinn Anna Nurmi, og FH og Víkingur eru með tvo erlenda leikmenn hvort félag.