Gervigreindartækni Hér má sjá hvernig snjallmyndavélar Tidal-kerfisins virka og greina hvern fisk og meta.
Gervigreindartækni Hér má sjá hvernig snjallmyndavélar Tidal-kerfisins virka og greina hvern fisk og meta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýrri gervigreindartækni hugbúnaðarfyrirtækisins Tidal vex nú hratt fiskur um hrygg en búnaðurinn, sem er snjallt myndavélakerfi, greinir velsæld fiska í sjókvíum. Þróunarstjóri fyrirtækisins, Kira Smiley, hélt erindi á Hringborði hafs og eldis,…

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Nýrri gervigreindartækni hugbúnaðarfyrirtækisins Tidal vex nú hratt fiskur um hrygg en búnaðurinn, sem er snjallt myndavélakerfi, greinir velsæld fiska í sjókvíum. Þróunarstjóri fyrirtækisins, Kira Smiley, hélt erindi á Hringborði hafs og eldis, málþingi um stöðu og framtíð lagareldis, í Arion banka í síðustu viku.

Tidal er hluti af X, nýsköpunarsetri tæknirisans Alphabet, móðurfyrirtækis Google. X er í daglegu tali kallað Moonshot Factory og dregur að sögn Smiley nafn sitt af tungllendingarverkefni Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, á sjöunda áratug síðustu aldar. Verkefnið töldu margir ógjörning en samt sem áður tókst að koma tunglferju á mánann og breyta þannig gangi heimssögunnar.

„Við höfum verið atkvæðamest í Noregi. Búnaður okkar er í 230 kvíum hjá stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs og heimsins alls, Mowi ASA. Við erum einnig farin af stað í nokkrum öðrum heimsálfum. Við höfum hægt og rólega verið að teygja okkur á fleiri markaði en áður en við förum áfram af fullu afli viljum við tryggja gæði tækninnar og selja vöru sem er tilbúin. Nú er komið að því að færa starfsemina út og verða meira áberandi,“ segir Smiley í samtali við Morgunblaðið.

Háþróað stjórnborð

Búnaður Tidal fylgist náið með lífmassanum í eldiskvíunum. Hann greinir t.d. laxalús og fylgist með velferð fiskanna og sjálfvirku fóðrunarkerfi kvíanna. Kerfið býður upp á háþróað stjórnborð þar sem fylgst er náið með öllu og upplýsingar gefnar í rauntíma eins og Smiley útskýrir og sýnir blaðamanni myndband máli sín til stuðnings. „Allir hlutaðeigandi, eldisfólkið, allt frá stjórnendum til sölufólks, getur með notkun kerfisins tekið betri ákvarðanir. Í stað þess að taka kannski tuttugu fiska upp úr kvínni til sýnatöku til að meta stöðu kvíarinnar í heild, þar sem eru kannski 200 þúsund fiskar, þá geturðu með okkar kerfi horft á tugi þúsunda fiska á hverjum degi og gert ástandsmat byggt á því. Þannig er komist hjá því að setja heilsu fiska í uppnám með því að taka þá úr kvínni.“

Tidal á enn eftir að hasla sér völl á Íslandi en Smiley segir að fyrirtækið hafi áhuga á íslensku laxeldi enda sé geirinn ungur og vaxandi. „Eftirspurnin eftir gervigreindartækni, og þekkingu á því hvernig hún muni bæta rekstur fyrirtækja með gagnadrifnum ákvörðunum, verður sífellt meiri. Við finnum vel fyrir því með okkar kerfi.“

Lóðrétt og lárétt

Smiley segir að myndavélar Tidal ferðist í sífellu um alla kvína, bæði lóðrétt og lárétt. „Hún myndar og greinir allt að 50 þúsund fiska á dag og því er hægt að álykta um allt að 98% lífsmassa kvíarinnar út frá greiningunni, þar á meðal um meðalþyngd og dreifingu. Þetta er mjög gagnlegt fyrir sölufólkið t.d. sem veit á hverri stundu meira um vöxt og viðgang fisksins.“

Eins og Smiley segir getur verið erfitt fyrir mannsaugað að greina laxalús í kvíum en myndavélar Tidal séu sérþjálfaðar í að sjá lúsina og merkja á skjánum. „Það er mjög mikilvægt að vera með slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir til að stjórna vandamálinu áður en það verður óviðráðanlegt. Það hefur enda komið á daginn að með því að nota okkar tækni þarf minni meðferð vegna óværunnar. Sparnaður næst fram og aukið heilbrigði dýranna.“

Um eftirlit með fóðrun segir Smiley að ekkert annað kerfi á markaðnum bjóði upp á fóður- og laxalúsaeftirlit í einu og sama kerfinu. „Við skoðum hegðun fisksins, metum matarlyst hans og stjórnum þannig magni matargjafar á hverjum tíma. Þetta skiptir máli því ef fóður safnast fyrir á botninum getur það minnkað súrefnismagn í kvínni og haft önnur slæm áhrif. Einnig er dýrt að sóa fóðri.“

Vöxtur í kortunum

Spurð að lokum hvernig hún sjái fyrirtækið þróast í framtíðinni segir Smiley að stjórnendur sjái mikinn vöxt í kortunum. „Við hlökkum til að stækka í Noregi og í öðrum löndum, vonandi á Íslandi líka.“

Tidal

Hluti af X, nýsköpunarsetri tæknirisans Alphabet, móðurfyrirtækis Google.

X er í daglegu tali kallað Moonshot Factory

Tidal á enn eftir að hasla sér völl á Íslandi

Fóður- og laxalúsaeftirlit í einu og sama kerfinu

Er í 230 kvíum hjá stærsta laxeldisfyrirtæki heims

Höf.: Þóroddur Bjarnason