Brautryðjandi Minnisvarði, sem Flugmálastjórn lét reisa um fyrsta flugið til Íslands, var afhjúpaður 2. ágúst 1954, 30 árum eftir lendinguna. Erik H. Nelson var heiðursgestur og bauð Flugmálafélag Íslands honum til landsins.
Brautryðjandi Minnisvarði, sem Flugmálastjórn lét reisa um fyrsta flugið til Íslands, var afhjúpaður 2. ágúst 1954, 30 árum eftir lendinguna. Erik H. Nelson var heiðursgestur og bauð Flugmálafélag Íslands honum til landsins. — Ljósmynd/Vigfús Sigurgeirsson/Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SVIÐSLJÓS Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

SVIÐSLJÓS

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrsta hnattflugið vakti eðlilega mikla athygli enda um heimsviðburð að ræða. Það hófst í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna, þegar átta menn úr bandaríska flughernum lögðu af stað í fjórum eins hreyfils, tvívængja Douglas-flugvélum 6. apríl 1924. Flugstjóri og vélamaður í hverri vél. Þær voru 12 metra langar með 16 metra vænghaf og fulllestaðar vógu þær rúmlega fjögur tonn. Áhöfnum tveggja vélanna tókst að ljúka leiðangrinum, lentu í Seattle 28. september eftir að hafa verið 175 sólarhringa á leiðinni. Hornafjörður komst á heimskortið, þegar tvær vélanna lentu þar 2. og 3. ágúst og Morgunblaðið var að sjálfsögðu á tánum.

„Sú fregn flaug hjer um bæinn á laugardagsmorguninn, að flugmenn þeir, úr ameríska hernum er þreyta hið margumrædda heimsflug, væru væntanlegir til Hornafjarðar þann dag. Þeir hefðu lagt af stað frá Kirkwall kl. 7,25 um morguninn.“

Mikill undirbúningur

Fréttin kom þó ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti, því fyrri part sumars hófu heimamenn undirbúning og skipulagningu lendingar í samráði og samvinnu við einn af umsjónarmönnum hnattflugsins. Lendingarsvæðið við Mikleyjarál var mælt út, það afmarkað og bálkestir hlaðnir. Kveikt var í þeim skömmu fyrir lendingu, „svo flugmenn gætu sjeð vindstöðuna, eftir því hvernig reykinn legði“. Flugmennirnir voru enda ánægðir. „Umbúnaður var þar að þeirra dómi hinn besti, vel frá öllum merkjum gengið, og lendingarsvæðið tilvalið frá náttúrunnar hendi.“ Amerísk herskip voru til taks á Atlantshafinu, ef eitthvað kæmi fyrir og til þess að vísa flugmönnunum leið.

Á ýmsu gekk í hnattfluginu og ferðin gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Forystuvélin hrapaði í Alaska en báðir mennirnir komust lífs af. Festa mátti bæði lendingarhjól og flotholt á vélarnar. Þeim var flogið sem sjóflugvélum þar til lendingarhjól voru sett undir þær í Kalkútta á Indlandi. Flotholt voru aftur sett undir í Orkneyjum fyrir fyrsta flug sögunnar yfir Atlantshaf frá austri til vesturs.

Þrjár vélar lögðu upp frá Orkneyjum laugardaginn 2. ágúst, en snúa þurfti tveimur þeirra við vegna þoku. Þær lögðu aftur af stað daginn eftir og lenti önnur þeirra á Hornafirði eftir ríflega sex tíma flug. Hinni varð að nauðlenda á hafinu vegna bilunar og var áhöfn hennar á reki í fjóra tíma áður en áhöfn á enskum togara kom til bjargar.

Sú þriðja, New Orleans, með Svíann Eric Nelson við stýrið og John Harding yngri sem vélamann lenti heilu og höldnu eftir átta og hálfs tíma flug síðdegis þennan laugardag. „Fagnaði mannfjöldinn nú þessum fyrsta flugmanni – eða mönnum sem heimsækja land vort og fara fuglaleið. Jók það á fögnuðinn að það var Svíi, sem fyrstur leysti þetta afrek – Norðurlandabúi, sömu þjóðar og sá maður, sem sigldi fyrstur kringum Ísland.“

Morguninn eftir var vélunum tveimur flogið til Reykjavíkur þrátt fyrir að þar væri allharður norðanstormur, eins og Morgunblaðið gat um. Talið var líklegast að vélunum yrði lent í Skerjafirði, á Viðeyjarsundi eða í Kópavogi. Flugmennirnir lentu vélunum hins vegar á innri höfninni, eins og þeir höfðu sagst ætla að gera, en skeytið barst ekki í réttar hendur. „Var þar saman kominn eins mikill mannfjöldi, og annars gerist um konungskomur.“

Lendingarsvæðið var skammt austan við Höfn. Fram kom í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5. ágúst að Nelson og félagar teldu að Hornafjörður „muni tvímælalaust verða framtíðar flughöfn“. Reglulegar flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Hornafjarðar komust þó ekki á fyrr en eftir 1940 og nú er staðan sú að óvíst er um framhald þeirra eftir að núgildandi samningur rennur út 30. ágúst.

Fyrsta flugið 1919

Eins og álft upp af vatni

Fyrsta flugið hérlendis var í Reykjavík síðdegis 3. september 1919. Breski stríðsflugmaðurinn Cecil Faber flaug þá nýrri tveggja sæta tvívængja vél Flugfélags Íslands í nokkrar mínútur og Ísland komst á flugkort heimsins.

„Óvæntur atburður suður á Flugvelli,“ sagði Morgunblaðið daginn eftir um viðburðinn í Vatnsmýrinni. „Reynsluflugið var ákveðið þá strax, og án þess að nokkur vissi, ók Faber vélinni út á völl, settist við stýrið og renndi á stað. Vélin rann nokkra tugi faðma niður eftir túninu, eins og álft sem flýgur upp af vatni, og loks losnaði hún frá jörðu og smáhækkaði. Hljóðið frá mótornum heyrðist inn í bæinn og menn fóru að skima í kringum sig. Og allir, sem skimuðu, ráku augun í það sama: vélin leið áfram um loftið eins og risavaxinn fugl, stöðugri en nokkur vagn á rennsléttum vegi, sneri sér krappar beygjur og tylti sér eftir dálitla stund aftur á grassvörðinn.“

Annað flug var um kvöldið og viðstaddir voru agndofa sem fyrr, þegar vélin fór á loft og var fjórðung stundar í loftinu. „Þegar hún losnaði við jörðina, dundi við lófaklapp allra og köll margra,“ hélt Morgunblaðið áfram og staðhæfði að flugtak hefði einkennileg áhrif á jarðbundnar verur. „Ekki að eins mennina. Hestarnir á næsta túni við flugvöllinn gláptu á þetta furðuverk og voru steinhissa. Og einn hundur ætlaði að tryllast.“