Marentza „Ég er þakklát fyrir hversu vel var tekið á móti mér hér.“
Marentza „Ég er þakklát fyrir hversu vel var tekið á móti mér hér.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú eru sextíu ár síðan ég steig í fyrsta sinn á íslenska jörð,“ segir Marentza Poulsen, en 10. júní árið 1964 flutti hún með foreldrum sínum og þremur bræðrum til Íslands frá Færeyjum. „Þá var ég 13 ára en varð fjórtán um haustið og…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Nú eru sextíu ár síðan ég steig í fyrsta sinn á íslenska jörð,“ segir Marentza Poulsen, en 10. júní árið 1964 flutti hún með foreldrum sínum og þremur bræðrum til Íslands frá Færeyjum.

„Þá var ég 13 ára en varð fjórtán um haustið og fermdist þá upp á faðirvorið hjá séra Jóni Þórarinssyni í Neskirkju. Hann talaði dönsku, sem kom sér vel fyrir mig því danska er annað tungumál okkar Færeyinga. Við fjölskyldan sigldum hingað með stóru skipi, Dronning Alexandrine, og það tók fjóra daga, fyrst var siglt á milli eyja heima til að sækja farþega, en síðan til Íslands. Þetta var rosalega flott skip og mikil upplifun, öll byggðin var mætt á bryggjuna til að veifa okkur og kveðja. Við vorum á fyrsta farrými og klæddum okkur upp þegar við fórum að borða á skipinu, mamma fór í háhæla skó og hvítir dúkar og tauservéttur voru á borðum í matsalnum. Þar var þjónað til borðs, við höfðum aldrei upplifað það áður. Í matsalnum sátu menn í einkennisbúningum með gylltar rendur, stýrimenn og hærra settir. Þetta var mikið ævintýr og þegar við nálguðumst Ísland sáum við eldgosið í Surtsey. Það var alveg magnað að sjá eldinn koma upp úr hafinu,“ segir Marentza og bætir við að þegar skipið hafi lagt að ytri höfninni í Reykjavík, hafi þau ekki fengið að fara í land fyrr en tollararnir voru búnir að tékka farangurinn.

„Þeir settu hvítan kross með krít á ferðatöskurnar okkar að því loknu.“

Í þorpinu mest konur og börn

Marentza segir ástæðu þess að þau fjölskyldan fluttu hingað vera þá að pabbi hennar hafði starfað frá 1952 sem vélstjóri á bátum á Íslandi.

„Á þessum tíma voru íslenskir bátar meira og minna mannaðir með Færeyingum. Sjómenn voru því í burtu frá fjölskyldum sínum marga mánuði í einu, aldrei minna en sex mánuði. Þegar við bjuggum í Færeyjum kom pabbi stundum ekki heim frá Íslandi fyrr en eftir níu mánuði. Þorpið mitt var fullt af konum og börnum, menn komu bara heim og bjuggu til börn en fóru svo burt á sjóinn. Á þessum tíma voru flestir Færeyingar sjómenn og margir strákar fóru á sjóinn með pabba sínum um leið og þeir luku grunnskóla. Annar eldri bróðir minn fór með pabba á sjó til Íslands fyrir fermingu, aðeins þrettán ára. Mamma hafði verið vinnukona á Íslandi þegar hún var 18 ára og hana dreymdi um að koma aftur til Íslands, auk þess átti hún tvær systur hér. Hún var til í að vera í eitt ár á Íslandi á meðan strákarnir væru að mannast, en við fluttum aldrei aftur til Færeyja.“

Alltaf nóg pláss fyrir alla

Faðir Marentzu keypti litla íbúð fyrir fjölskylduna í Skerjafirði og stundaði sjóinn ásamt eldri bræðrum hennar.

„Margir Færeyingar voru hér á þessum tíma og Færeyingafélagið var öflugt. Hér var líka færeyskt sjómannaheimili, sem var félagslegt athvarf. Ég kynntist lengi vel engum Íslendingum, en allir þessir ungu strákar á mínum aldri sem voru hér á sjó, þeir komu í landlegum heim til okkar í litlu íbúðina sem var um sjötíu fermetrar. Stofan var alltaf troðfull af karlmönnum og mikið gaman, sungið og spilað,“ segir Marentza sem spilaði á harmónikku og gítar.

„Ég hafði ekki þörf fyrir annan félagsskap, við Færeyingarnir vorum í okkar heimi. Mamma var matmóðir mikil og eldaði ofan í alla gesti, stundum voru yfir tuttugu strákar í mat. Allir reyktu, en það var ekki mikið fyllerí. Eitt sinn kom leigubílstjóri og bankaði upp á hjá okkur og spurði hvort þetta væri færeyska sjómannaheimilið, hann var með fullan bíl af Færeyingum. Mamma sagði nei, en bauð þeim samt öllum inn. Heima hjá okkur bjuggu fyrsta hálfa árið færeysk mæðgin, því alltaf var nóg pláss fyrir alla. Í Litla-Skerjafirði var flugvöllurinn við hlið okkar en ég hafði aldrei séð flugvél þegar ég flutti hingað. Ógleymanlegt var þegar ég sá flugvél lenda þar í fyrsta sinn með miklum látum. Ég varð hrædd og hljóp inn. Við fórum lengi vel alltaf út í glugga þegar vél lenti.“

Fyrsta vinnan í sápugerð

Marentza segir hafa verið mikil viðbrigði að flytja hingað til lands og þurfa að kaupa allan mat, því í þorpinu í Færeyjum þar sem hún ólst upp voru allir með sjálfsþurftarbúskap.

„Við vorum ekki alin upp við að borða ýsu og mamma varð hissa þegar hún fékk ekki þorsk í fiskbúðinni hér. Íslendingar seldu hann allan úr landi, svo við borðuðum löngu, hlýra og steinbít. Við Færeyingar þóttum hallærislegir hér á Íslandi, ég fann alveg fyrir því, við vorum sveitafólk með rauðar kinnar. Ég lærði snemma að vinna, var hraust og dugleg. Fyrsta vinnan mín var í Sápugerðinni Mjöll sem var staðsett í götunni okkar, þá var ég 14 ára. Margar færeyskar ungar stúlkur komu til Íslands til að vinna á Hótel Sögu, og þar fór ég að vinna 15 ára sem gangastúlka. Næst fór ég á Hótel Loftleiðir í eitt ár þar sem ég byrjaði smurbrauðsnámið mitt og síðan lá leiðin til Danmerkur, á gullárunum, hippatímanum. Þar kynntist ég fullt af Íslendingum, því þar var Íslendingafélagið vel virkt. Ég lærði tiltölulega fljótt að tala íslensku og alltaf þegar einhver var að leiðrétta mig fannst mér það jákvætt. Yndilseg vinkona mín, Helga Helgadóttir, sem var þrjátíu árum eldri en ég, kenndi mér málfræðina og kom í veg fyrir að ég yrði þágufallssjúk. Ég kom heim til Íslands frá Danmörku sem smurbrauðsjómfrú og kynntist um það leyti manninum mínum, Herði Hilmissyni, árið 1971. Við það varð ég meiri Íslendingur. Þegar ég horfi til baka og hugsa hvað ég hef gert á Íslandi í þessu sextíu ár, þá er ég fyrst og fremst þakklát fyrir hversu vel var tekið á móti mér. Ég er þakklát fyrir að fólk hefur tekið með opnum huga mínum hugmyndum sem ég hef borið á borð hér. Ég tók að mér veitingastjórastarf í Oddfellow-húsinu þegar ég var 29 ára og ófrísk af yngsta syni mínum. Þetta var minn stærsti skóli, en ég hef greinilega haft þetta í mér, ég þekkti það bara ekki fyrr en reyndi á það.“

Góða fólkið á Reynistað

Marentza segir að þau fjölskyldan hafi fljótlega eftir að þau fluttu til Íslands kynnst einstakri fjölskyldu, í gegnum færeysku konuna sem bjó hjá þeim í Skerjafirðinum.

„Hún hafði verið vinnukona á óðalssetrinu Reynistað í Stóra-Skerjó, hjá Eggerti og Soffíu Claessen. Frú Claessen bauð mömmu vinnu við að sinna heimilinu á Reynistað og ég var barnapía hjá dóttur Frú Claessen, henni Láru. Við höfðum fyrst ekki hugmynd um að þetta væri fína fólkið í Reykjavík, en við vorum lánsöm að kynnast þessu góða fólki sem reyndist okkur vel. Við eigum þeim mikið að þakka í okkar lífi og þau eiga öll stað í hjörtum okkar.“