Hagstærðir Vetnið og ammoníakið sem ekki verður notað innanlands verður flutt til Evrópu. Útflutningsverðmæti gæti orðið 130 milljarðar á ári.
Hagstærðir Vetnið og ammoníakið sem ekki verður notað innanlands verður flutt til Evrópu. Útflutningsverðmæti gæti orðið 130 milljarðar á ári. — Ljósmyndir/Arkitema COWI
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til stendur að reisa 120 þúsund tonna vetnisverksmiðju og 700 þúsund tonna ammoníaksverksmiðju á Grundartanga. Gert er ráð fyrir 130 milljarða útflutningsverðmæti á ári þegar verksmiðjan verður fullbyggð

Sviðsljós

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Til stendur að reisa 120 þúsund tonna vetnisverksmiðju og 700 þúsund tonna ammoníaksverksmiðju á Grundartanga. Gert er ráð fyrir 130 milljarða útflutningsverðmæti á ári þegar verksmiðjan verður fullbyggð. Vetnisfélagið Katanes, sem er í eigu franska fjölskyldufyrirtækisins Qair, hefur tryggt sér land undir starfsemina þar sem gert er ráð fyrir sérhafnaraðstöðu til útflutnings.

Franskt fjölskyldufyrirtæki

Tryggvi Þór Herbertsson, stjórnarformaður Vetnisfélagsins Katanes Qair Ísland H2, segir félagið sérhæfa sig í framleiðslu á vetni og ammoníaki, eingöngu með grænni orku.

„Jean Marcbouchet stofnaði fyrirtækið í kringum árið 2000 sem þróaðist með því að kaupa fyrirtæki og sameinast fyrirtækjum. Direct Energy keypti af honum fyrirtækið árið 2017 og þá stofnaði hann Qair sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum, frá því að vera nokkur megavött 2018 í það að vera 1,2 gígavött í dag. Þetta er fjölskyldufyrirtæki Marcbouchets auk fjárfestingasjóða, meðal annars hollenska fjárfestingasjóðsins Diff og BP France sem er fyrirtæki í eigu franska fjármálaráðuneytisins,“ segir Tryggvi Þór.

Með starfsemi víða um heim

Qair starfar í Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku auk þess að vera með innkaupaskrifstofu í Kína. Stærstu löndin í framleiðslu á raforku eru Brasilía og Pólland. Framleiðslan fer fram með vindmyllum bæði á sjó og landi, vatnsafls- og sjávarfallavirkjunum auk þess að framleiða orku úr sorpi. Hjá fyrirtækinu vinna 650 manns. Verið er að byggja virkjanir sem munu skila 450 megavöttum og í þróun eru raforkuver sem koma til með að skila 35 gígavöttum.

Tryggvi Þór segir Katanesverksmiðjuna gera Íslendingum kleift að skipta út miklu magni jarðefnaeldsneytis sem hefur í för með sér minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Vetnið og ammoníakið sem ekki verður notað til að knýja bifreiðir og skip á Íslandi verði flutt til Evrópu. Hagstærðirnar séu þær, að ef allt verði flutt út þá sé útflutningsverðmætið 130 milljarðar á ári, auk þess að skapa atvinnu og færa nýja þekkingu til landsins.

„Þetta rennir því ekki einungis nýrri stoð undir útflutning landsmanna heldur sparar gjaldeyri sem nú er notaður til innflutnings á jarðefnaeldsneyti. Katanesverksmiðjan mun styðja við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og tryggja orkuöryggi Íslands til framtíðar. Það er okkar markmið að taka þátt í því og um leið nýta möguleika til útflutnings,“ segir Tryggvi Þór.

Á nokkrum stöðum á landinu er Qair að þróa vindorkuverkefni; vestur í Dölum, á Norðausturlandi og Suðurlandi, og er áætluð framleiðslugeta þeirra um 1 gígavatt. Tryggvi Þór telur að það sé nóg til að hefjast handa við fyrsta áfanga verksmiðjunnar.

„Helsta vandamálið í þessu er rafmagnið. Við þurfum grunnorku upp á 10-20% af heildarorkuþörfinni og svo framleiðum við sjálf 80-90%, mest með vindorku. Leyfið fyrir vindorkugörðunum er forsenda þess að hægt sé að hefjast handa við byggingu verksmiðjunnar,“ segir hann.

Á Grundartanga er áætlað að ljúka verkfræðihönnun og rannsóknum á svæðinu og taka endanlega fjárfestingarákvörðun árið 2025. Gert er ráð fyrir að framleiðsla hefjist árið 2028. Fullbyggð mun verksmiðjan framleiða um 120 þúsund tonn af vetni og um 700 þúsund tonn af ammóníaki á ári.

Þökin með torfi

Unnið er að umhverfismati fyrir verksmiðjuna og segir Tryggvi að mikil áhersla sé lögð á hönnun mannvirkja á Grundartanga.

„Ég sagði við dönsku arkitektana að þeir ættu að hanna fallegustu efnaverksmiðju í heimi en hún mætti ekki kosta neitt mikið meira. Þökin eru með torfi og húsveggirnir eru brotnir upp þannig að risavaxnar byggingarnar eru látnar falla vel að landinu,“ segir Tryggvi Þór að endingu.

Höf.: Óskar Bergsson