Á Boðnarmiði yrkir Gunnar J. Straumland: Tíðin bjarta Það er löngum þrautaráð að þykjast sáttur þegar yfir þyrmir háttur þyngri en lífsins töframáttur. Þó er betra að þiggja ráð frá þíðum vindi sem tjáir mér að leiki í lyndi lífsgöngunnar mesta yndi; vorið sem að vekur gleði og von í hjarta

Á Boðnarmiði yrkir Gunnar J. Straumland:

Tíðin bjarta

Það er löngum þrautaráð að þykjast sáttur

þegar yfir þyrmir háttur

þyngri en lífsins töframáttur.

Þó er betra að þiggja ráð frá þíðum vindi

sem tjáir mér að leiki í lyndi

lífsgöngunnar mesta yndi;

vorið sem að vekur gleði og von í hjarta.

Því sé engin þörf að kvarta

þegar lifnar tíðin bjarta.

Enn yrkir Gunnar:

Þó loft sé þétt og þrátt og grátt

þá hef ég samt grun um

að muni létta og mætti brátt

Móðuharðindunum.

Magnús Halldórsson segir: Ljótt er að heyra ef VG mun deyja út:

Ómar feigðarboð

Í fréttum ómar feigðarboð,

fagleg aðgerð virðist brýn.

Stoppa þarf upp Steingrím J

og stinga Kötu' í formalín.

Limra um Karl eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Hjá ilmandi ungmeyjum lá karl

er óspurð hún byrjaði: „Já, Karl,

ef langar þig að

strax leyfi ég það“

og óðara heimtaði 'ann hákarl.

Af hreinleika sálarinnar eftir Eyjólf Óskar Eyjólfsson:

Engum er Auðbjörg lík,

indæl og skilningsrík

svo augljóst er mér

að ungfrúin fer

ekki í pólitík.

Kriskínas aðmíráll eftir Hrólf Sveinsson:

Aðmíráll Konstantín Kriskínas

var kvalinn löngum af iskías,

og til þess að ná sér

fór hann að fá sér

á kvöldin vindil og viskíglas.

Fuglalimran Leiðrétting eftir Pál Jónasson:

Þó Sigríður húsfrú á Súlu

sé komin með stærðar kúlu

er hún alls ekki bomm

enda orsökin romm

og neysla á saltaðri súlu.