Heiðursvörður Þýskir hermenn sjást hér þramma í takt í höfuðborginni Berlín. Ráðamenn þar vilja stórefla hersveitir landsins á komandi árum.
Heiðursvörður Þýskir hermenn sjást hér þramma í takt í höfuðborginni Berlín. Ráðamenn þar vilja stórefla hersveitir landsins á komandi árum. — AFP/John McDougall
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Til skoðunar er nú í Þýskalandi að setja á laggirnar nýtt fyrirkomulag í tengslum við herþjónustu. Verða þá ungir menn skyldaðir til að skrá sig til hugsanlegrar herþjónustu. Þýski varnarmálaráðherrann, Boris Pistorius, leggur þó áherslu á að ekki sé verið að endurvekja herskyldu í landinu. Sjálfboðaliðar verði áfram hryggjarstykki Þýskalandshers.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Til skoðunar er nú í Þýskalandi að setja á laggirnar nýtt fyrirkomulag í tengslum við herþjónustu. Verða þá ungir menn skyldaðir til að skrá sig til hugsanlegrar herþjónustu. Þýski varnarmálaráðherrann, Boris Pistorius, leggur þó áherslu á að ekki sé verið að endurvekja herskyldu í landinu. Sjálfboðaliðar verði áfram hryggjarstykki Þýskalandshers.

Almenn herskylda var lögð af í Þýskalandi árið 2011 og vakti sú ákvörðun mikla athygli á þeim tíma. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur hins vegar gjörbreytt öryggisástandi Evrópu og búast margir við áframhaldandi útþenslustefnu af hálfu Rússa. Af þeim sökum hafa ráðamenn í Berlín ákveðið að stórefla herafla landsins og er fyrrgreint fyrirkomulag hugsanlegur liður í þeirri aðgerð.

Nýliðun gengið hægt og illa

Frá árinu 2011 hefur fólki í Þýskalandi boðist að skrá sig til 7 og 23 mánaða herþjónustu. Frá upphafi árásarstríðs Moskvuvaldsins í febrúar 2022 hefur nýliðun hins vegar gengið illa og það þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt aukna áherslu á fjölgun hermanna. Árið 2023 gengu alls 18.802 einstaklingar til liðs við þýska herinn, eða einungis 27 fleiri en árið á undan.

Þrátt fyrir að varnarmálaráðherrann hafi sagt að ekki sé verið að endurvekja herskyldu hefur hann ýjað að slíku skrefi áður. „Ef ekki fást nægjanlega margir sjálfboðaliðar, þá verðum við að skikka fólk til þjónustu,“ sagði hann í viðtali í maí síðastliðnum við þýska blaðið Die Zeit.

Þýska blaðið Welt am Sonntag gerði nýlega könnun á viðhorfi almennings til herskyldu og er niðurstaða þeirrar könnunar sú að meirihluti Þjóðverja er henni fylgjandi.

Alls eru 66% kjósenda jafnaðarmannaflokks kanslarans (SPD) fylgjandi almennri herskyldu, 72% kjósenda kristilegu flokkanna CDU í Hessen og CSU í Bæjaralandi, 64% kjósenda Annars kosts fyrir Þýskaland (AfD) og 62% kjósenda frjálslyndra demókrata (FDP).

Það eru hins vegar kjósendur Græningja sem skera sig úr, en einungis 48% þeirra styðja herskyldu.