Jón Kr. Ólafsson
Jón Kr. Ólafsson
Í næstu viku verða 24 ár liðin frá opnun tónlistarsafnsins Melódíur minninganna á Bíldudal. Nú er að koma að kaflaskilum í sögu safnsins en Jón Kr. Ólafsson eigandi þess vonast eftir að koma öllum safnmunum inn í Rokksafnið í Reykjanesbæ eftir sumarið

Í næstu viku verða 24 ár liðin frá opnun tónlistarsafnsins Melódíur minninganna á Bíldudal. Nú er að koma að kaflaskilum í sögu safnsins en Jón Kr. Ólafsson eigandi þess vonast eftir að koma öllum safnmunum inn í Rokksafnið í Reykjanesbæ eftir sumarið.

Jón, sem á sínum tíma var þjóðkunnur söngvari, verður 84 ára seinna í sumar en hann opnaði safnið 17. júní 2000. Þar má finna ýmsa muni tengda tónlistarsögu þjóðarinnar; fágætar hljómplötur, búninga af mörgum frægustu tónlistarmönnum landsins og skartgripi frá Elly Vilhjálms svo fátt eitt sé nefnt.

Einstakt safn

Jón segir safnið einstakt: „Þetta er safn sem er algjörlega í þeim gæðaflokki að þetta er hvergi til á landinu nema hérna hjá mér á Bíldudal. Þetta er ekkert bara eitt herbergi, þetta er heil íbúð.“

Fyrir þremur árum gaf Jón hluta safnsins til Rokksafnsins en nú vonast hann til að koma öllu safninu þangað. Það hafðist ekki fyrir sumarið en hann vonast til að það gangi eftir sem fyrst, helst fyrir næsta sumar.

„Ég er náttúrulega orðinn 83 ára en er mjög líkamlega hress, allavega ennþá en maður veit ekkert hvað það endist,“ segir Jón.

Hann hefur því vissar áhyggjur af afdrifum safnsins en kveðst vongóður um að það komist á „réttan stað“.

Lítið menningarlíf eftir

Jón segir lítinn grundvöll fyrir menningarstarfsemi á Bíldudal, hann hafi aldrei fengið stuðning frá sveitafélaginu til reksturs safnsins og nú tali fólk þar í bæ um fátt annað en laxeldi og þörungaverksmiðjur, það hafi þó ekki alltaf verið þannig:

„Bíldudalur var menningarbær, hér var stórt og mikið leikfélag sem var alveg frábært en allt svona er bara ekki fyrir hendi lengur. Allt sem heitir menning hér er steindautt. Nú er bara talað um kalkþörungaverksmiðju og laxeldi á Bíldudal.“ elinborg@mbl.is