Sköpun „Eitthvað leitar sterkt á mig, grunur eða hughrif, og í ferlinu fæðist verkið eiginlega af sjálfu sér.“
Sköpun „Eitthvað leitar sterkt á mig, grunur eða hughrif, og í ferlinu fæðist verkið eiginlega af sjálfu sér.“ — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á sýningunni Mæling í Berg Contemporary við Klapparstíg sýnir Haraldur Jónsson ný verk, unnin í ýmiss konar miðla. Þetta er í þriðja sinn sem Haraldur sýnir í galleríinu. „Ég hef allt frá upphafi unnið í marga miðla

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Á sýningunni Mæling í Berg Contemporary við Klapparstíg sýnir Haraldur Jónsson ný verk, unnin í ýmiss konar miðla. Þetta er í þriðja sinn sem Haraldur sýnir í galleríinu.

„Ég hef allt frá upphafi unnið í marga miðla. Eitthvað leitar sterkt á mig, grunur eða hughrif, og í ferlinu fæðist verkið eiginlega af sjálfu sér. Það er með þessa sýningu, eins og allar mínar sýningar, að ég lít á þær sem eina heild, kannski ekki ólíkt skáldverki eða tónverki, án þess að ákveðnir söguþræðir eða tímalínur séu að flækjast fyrir heldur spinnur hvert okkar sína eigin. Verkin fléttast síðan inn í arkitektúrinn og draga fram eiginleika hans. Þannig opnast möguleikar fyrir alls konar skynjun hjá áhorfendum. Myndlist er ekki staðdeyfing, hún er miklu frekar svæðanudd. Hún er örvun og ég vil framkalla viðbrögð hjá áhorfendum,“ segir listamaðurinn.

Titill sýningarinnar er Mæling. Spurður um titilinn segir Haraldur: „Titillinn er leikur um mörkin milli skynjunar og skilnings. Það er magnað að vera til á okkar tímum, þessu skringilega skautasvelli. Við lifum á tímum greininga, mælinga og sviðsmynda. Það er svo margt sem kemur huganum á hreyfingu og verkin á sýningunni eru ákveðin eiming á tíðaranda.“

Samsláttur ólíkra hljóða

Þegar gengið er inn í galleríið frá Klapparstíg tekur verkið „Skor“ á móti sýningargestinum. „Þetta er stórt grafíkverk úr nokkrum einingum. Fólk hefur tengt það við alls kyns kerfi, opin eða lokuð. Hvert okkar og eitt mátar sig, túlkar eftir eigin reynsluheimi og upplagi. Og skapar merkingu.“

„Nemi“ heitir annað stórt og grípandi verk þar sem guli liturinn er áberandi. „Þetta verk getur umbreyst í ýmislegt og fangar nánasta umhverfi á margslunginn hátt. „Nemi“ kallast á við annað verk sem heitir „Skermur“. Það dregur birtuna í fremri hluta rýmisins og endurvarpar henni af fleti sem myndaður er úr silfruðu neyðarteppi og fest er upp á endavegg með beinalími,“ segir Haraldur.

Fjögur vídeóverk eru á sýningunni. „Í verkunum í fremri salnum skapar samsláttur ólíkra hljóða og myndheima stöðugt nýjar tengingar sem leiða um rýmið. Þessi verk eru skrásetning á því sem verður á vegi mínum um heiminn. Langar ljósmyndir, hækur eða sönnunargögn úr hversdeginum.“

Litur sem atburður

Í innsta sýningarsalnum er vídeóinnsetningin „Skyn“ eða „Skin“ á ensku. Verkið er rauðtóna og skiptir reglulega um lit. „Á sýningunni er ég líka að leika mér með titla og þýðingar. Þessi titill vísar í skynjun og bjarma en líka í húðina, stærsta skynfærið.

Ein kveikjan að verkinu er reynsluheimur kaldastríðsbarnanna. Ég er einmitt af þeirri kynslóð og man mjög vel eftir mér sem barn og unglingur á gangi um kvöld og sjá glampana frá sjónvörpum skella á stofuveggjum á heimilum fólks þegar ég leit upp í gluggana. Þetta greyptist inn í hugann. Verkið Skyn er vörpun af þessari vörpun. Mér finnst spennandi að sjá samslátt tíma og litar í sama verkinu. Litur sem atburður.

Þegar ég var búinn að setja verkið upp áttaði ég mig á því að það er líka óður til augnlokanna því þau eru auðvitað upprunalegu sýningartjöldin. Maður liggur til dæmis eða situr í sól, hallar augnlokunum aftur og eitthvað í umhverfinu ber fyrir lokað sjónsviðið. Þá myndast skuggaspil, blóðrauð bíómynd milli þess innra og ytra. Það hreyfir við og situr stundum eftir,“ segir Haraldur.