Stemma þarf stigu við valdafíkn MDE

Margir ugga um ­vestrænt, frjálslynt lýðræði þegar pópúlískum öflum vex ásmegin innan borgarmúra hins frjálsa heims, en alræðisöfl með vopnaskak fyrir utan.

Ekki er skárra þegar sótt er að lýðræðinu í nafni lýðræðislegra stofnana, eins og gerðist með loftslagsdómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) gegn Sviss nú í apríl og fjallað var um á þessum stað þá.

Þar komst dómstóllinn að því á 260 síðum, að meirihluti svissneskra kjósenda hefði brotið mannréttindi á borgurum landsins með því að gera ekki nóg í loftslagsmálum. Í Sviss er beint lýðræði í hávegum haft, en þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um loftslagsaðgerðir árið 2021.

Ekki kom á óvart að á miðvikudag hafnaði svissneska þingið dóminum; sagði hann efnislega rangan, að MDE hefði farið út fyrir valdsvið sitt og viðhaft óþolandi afskipti af svissnesku lýðræði.

Flest göngum við út frá því sem vísu að lýðræði og mannréttindi séu af hinu góða, séu samtvinnuð, nánast hið sama. Það er þó flóknara. Lýðræðið er stjórnarfyrirkomulag, þar sem vilji meirihlutans ræður, en aðeins þó um þau mál sem heildina varðar um og þannig að meirihlutinn fái ekki kúgað minnihlutann. Til þess er m.a. kveðið á um skýr og ófrávíkjanleg mannréttindi einstaklinganna, en stjórnlög setja hinu opinbera skorður.

Dómur MDE gegn Sviss leiðir hins vegar vel í ljós hvernig má misnota mannréttindi gegn lýðræðinu þegar alþjóðlegar stofnanir ákveða í eigin nafni að færa út kvíarnar, án stoðar í stofnskrá sinni og án þess að bera það undir nokkurn nema sjálfar sig.

Alvarlegast er þó að með dómnum voru gefin pólitísk fyrirmæli, sem dómstóllinn af óskiljanlegu drambi telur að trompi skýr fyrirmæli svissneskra kjósenda: að MDE geti trompað lýðræðið.

Það má ekki þola. Standi valið milli evrópskrar lýðræðishefðar og ofmetnaðar dómara MDE er það einfalt.

Þar ræðir þó ekki aðeins um valdahnuplstilraun, því MDE vegur með dóminum að þrígreiningu ríkisvaldsins að forskrift Montesquieus, sem frjálslynt vestrænt lýðræðisfyrirkomulag hvílir á.

Ofurvaldi hins opinbera eru sett mörk og mótvægi: löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald er aðskilið, en greinarnar tempra hver aðra og mega ekki seilast til valda hinna.

Þarna ákvað MDE hins vegar að láta sér ekki dómsvaldið nægja, heldur gerast líka löggjafi og taka matskennda ákvörðun í einu helsta viðfangsefni stjórnmála vorra daga. Dómurinn var ekkert annað en stjórnmálaafskipti dulbúin í lagamáli, en þó gátu dómararnir ekki stillt sig um að hreykja sér af því að taka af skarið þar sem stjórnmálamennirnir hafi hikað.

Sjálfsagt telja margir að dómurinn sé nauðsynlegur. Mikið sé í húfi og málefnið brýnt, en löggjafarþingin svo svifasein og kjósendur svo sérhlífnir þegar kemur að fórnum í þágu loftslagsins að dómstóllinn hafi orðið að taka til sinna ráða.

Þannig virkar lýðræðið ekki, það er ekki lýðræði. Þvert á móti eru þetta sígildar viðbárur óvina lýðræðisins, hvort sem þar ræðir um alræðisöfl, embættismannavald eða aðalsstéttir fyrri tíma, að þeir einir viti betur.

Þeirrar hneigðar hefur gætt víða á Vesturlöndum – einnig á Íslandi – að klæða alls kyns pólitísk markmið, réttindi og gæði í búning stjórnlaga og mannréttinda. Þar er í raun verið að meitla pólitíska stefnu um pólitísk álitaefni í stein, beinlínis til þess að binda hendur almennings og lýðræðislega kjörinna fulltrúa þeirra; minnka val þeirra og vald. Það er ekki gert af lýðræðisást.

Flest verkefni almannavaldsins eru hins vegar tímabundin viðbrögð við því sem að höndum ber eða fyrirhyggja um hitt sem verr gæti farið. Þar er sjaldnast ein leið sú eina rétta, skoðanir geta verið misjafnar í einstökum löndum og þær skoðanir geta breyst í takt við tíðaranda og reynslu. Lýðræðið gerir okkur kleift að skipta um valdhafa, breyta ákvörðunum og setja ný mál í forgang.

Það er sá sveigjan­leiki lýðræðisins sem er helsti styrkur þess og í góðu samræmi við frelsi einstaklingsins og ábyrgð. Sú lýðræðislega aðferð er ekki og má ekki vera háð lokasvari eða neitunarvaldi ábyrgðarlausra dómara, hér eða úti í heimi.