Afþreying Borgin segir þessa mynd af parísarhjólinu hafa verið villandi.
Afþreying Borgin segir þessa mynd af parísarhjólinu hafa verið villandi. — Teikning/Reykjavíkurborg
Reiknað er með að parísarhjólið rísi á Miðbakka nú um helgina, staðfestir Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið. Spurð hvort borginni hafi borist kvartanir frá íbúum, burtséð…

Reiknað er með að parísarhjólið rísi á Miðbakka nú um helgina, staðfestir Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Spurð hvort borginni hafi borist kvartanir frá íbúum, burtséð frá þeim sem bárust á upplýsingafundi borgarinnar og íbúa vegna parísarhjólsins, svarar hún neitandi. Hún telur að óánægju íbúa megi rekja til myndarinnar, sem gerð var til að sýna hvernig parísarhjólið myndi líta út.

Myndin var teiknuð af gervigreind en ekki hugsuð til að vera varanleg útgáfa sviðsmyndarinnar, segir Kamma.

„Á myndinni virðist hjólið vera rosalega nálægt húsum svæðisins, en það stóð aldrei til,“ segir Kamma og bætir við að gestir hjólsins muni ekki geta séð inn um glugga íbúðanna þar sem hjólið verður það langt frá húsunum.

Óánægja meðal íbúa

Blaðið hefur heyrt hljóðið í nokkrum ósáttum íbúum svæðisins en þeir vildu ekki láta nafns síns getið.

Flestir eru þeir ósáttir við sjónmengunina sem muni fylgja hjólinu, en höfðu minni áhyggjur af hljóðmengun. Nær allir viðmælendur lýstu yfir áhyggjum um að farþegar parísarhjólsins myndu geta séð inn um gluggana hjá sér.

Þeir segjast hafa fjárfest í húsnæði með tilliti til útsýnis og næðis. Með parísarhjólinu yrðu þau gæði óhjákvæmilega skert.

Eins lýstu íbúarnir, sem blaðið ræddi við, reiði yfir að setja ætti upp slíkt mannvirki í næsta nágrenni án þess að þeir fengju eitthvað um það að segja. Þeir óttast að bílastæðavandinn á svæðinu muni aukast til muna með parísarhjólinu og drógu í efa að það yrði þarna aðeins þetta eina sumar, það væri líklega komið til að vera. drifa@mbl.is