Hörður Valdimarsson fæddist á Akureyri 26. júní 1962. Hann lést í Danmörku 13. mars 2024.

Foreldrar hans voru Valdimar Sigfús Helgason, f. 12. mars 1933, d. 14. apríl 2019, og Engla Margunnur Kristjánsdóttir, f. 13. mars 1936, d. 7. október 2013. Systkini Harðar eru: Sigrún Steina, f. 13. mars 1955, maki Walter Schmitz; Kristín, f. 10. nóvember 1956, maki Magnús Magnússon; Kolbrún Ásdís, f. 24. maí 1958; Gunnar Grétar, f. 6. mars 1964, maki Ingibjörg Sigurðardóttir; Erna, f. 21. nóvember 1965.

Hörður var í sambúð með Önnu Maríu Þorsteinsdóttir en þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: 1) Anna Margrét, f. 1992, gift Tobiasi Husted Lüdeking. Börn þeirra eru Saga, f. 2016, Asgar, f. 2017, og Idunn, f. 2023. 2) Arnar Þórður, f. 1993, í sambúð með Jeannette Frederiksen. 3) Kristín Björk, f. 2006.

Bálför hefur þegar farið fram í Danmörku en minningarathöfn verður haldin í kapellunni í Fossvogi í dag, 14. júní 2024, klukkan 11.

Í dag kveðjum við hinstu kveðju bróður okkar, Hörð, sem lést í Danmörku, þar sem hann hafði búið um árabil. Hörður var uppátækjasamur með eindæmum sem barn og reyndi það oft á þolrifin á foreldrum okkar. Hann t.d. prílaði á stillönsum og var ekki hræddur við að detta eða meiða sig. Við munum sérstaklega eftir atviki sem átti sér stað í sumarfríi í Hrísey. Þar var hann heppinn að stórslasa sig ekki þar sem hann sveiflaði í kringum sig sjóðandi heitum málmi sem brenndi hann þó lítillega og bar hann ör eftir það. Þessi atvik ásamt öðrum gerðu föður okkar oft pirraðan og við það að fá hjartaslag yfir uppátækjum hans.

Sem unglingur hjálpaði hann pabba að byggja einbýlishús fjölskyldunnar í Grjótaseli og var haft á orði að hann ynni á við fullorðinn mann enda oft kallaður „Tarsan“.

Hörður var góður námsmaður og tók hann t.d. tvo bekki saman í Menntaskólanum við Sund þar sem hann lauk stúdentsprófi. Eftir stúdentspróf flutti Hörður með sambýliskonu sinni Önnu Maríu til Danmerkur, en hann átti með henni þrjú börn; Önnu Margréti, Arnar Þórð og Kristínu Björk.

Við sendum börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Sigrún, Kristín Kolbrún, Gunnar og Erna.

Fallinn er frá félagi vor Hörður Valdimarsson. Hann var meðlimur í virðulegu félagi nokkurra menntaskóladrengja sem við köllum Hámenningarfélagið. Til þessa hóps heyra auk Harðar þeir Birgir Óli Einarsson, Haldor G. Haldorsen, Jón H. Steingrímsson, Ragnar Björnsson, Reynir Eyvindarson og Þrándur Arnþórsson. Félag þetta hefur staðið fyrir samkomum, samræðum, glaum og gleði. Þar var Hörður svo sannarlega í essinu sínu. Við sem eftir stöndum minnumst Harðar sem félaga, vinar sem ávallt vildi vel, ákafamanns sem hreyfði við okkur og manns sem gott var heim að sækja. Við vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Fyrir hönd Hámenningarfélagsins,

Ragnar Björnsson.

Mín fyrsta minning um Hödda er þegar hann kom röltandi til mín þar sem ég sat í Skálholti, eins og anddyrið í Menntaskólanum við Sund var kallað, á uppháu brúnu skónum sínum, í grænum hermannajakka og með skólatöskuna á öxlinni. Hann var með blik í auga, glotti við tönn og hallaði örlítið út á hlið til að vega á móti þunga töskunnar. Hann tók upp pípu, tóbak og eldfæri og var tilbúinn í spjall um heima og geima. Okkur hafði verið raðað saman í 1. bekk A.

Það tókst með okkur góður félagsskapur og ekki leið á löngu þar til við vorum farnir að rökræða og rífast því rökræður voru algert eftirlæti Harðar. Svo mikið að hann gerði í því að vera á annarri skoðun bara til að hækka blóðþrýstinginn hjá öðrum; það voru hans ær og kýr. Það skipti hann engu máli hvert umræðuefnið var, hann var iðulega á annarri skoðun svona til að örva hugsunina. Fljótlega stækkaði vinahópurinn sem gerði sér tvö félagsheimili, annað í kjallara góðum í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem Reynir félagi okkar leigði og hitt í kjallara við Grensásveg undir kjörbúð sem Valdimar faðir Harðar átti og rak. Þar voru landsmál og öll önnur krufin til mergjar af þeirri list sem menntskælingum er einum lagið. Höddi dró ekki af sér þar og þá var iðulega glaumur og gleði. Fljótlega tók hópurinn upp nafnið Kjallaraklíkan og það voru meira að segja gefin út félagsskírteini.

Höddi var félagslyndur og mikill gleðimaður en gat orðið þungur á brún ef honum fannst ómaklega að sér vegið. Það var gaman að sjá breytinguna á strák ef um misskilning var að ræða og þá gall iðulega í honum: „Hurru kunningi!“ og öllu snúið upp í grín.

Eftir að hann og fjölskyldan fluttu til Danmerkur rofnaði sambandið að nokkru leyti en gamla Kjallaraklíkan kom þó alltaf saman þegar hann kom heim. Þegar hópurinn með mökum ákvað að heimsækja Kastró til Kúbu brá Hörður undir sig betri fætinum og stökk heim til að slást í hópinn. Honum leiddist ekki að komast í Kúbuvindlana enda reykingar mikið áhugamál. Seinni árin voru veikindi hans mikil og þung og við félagarnir ráðalausir gagnvart þeim.

Hörður var tónelskur, hafði verið í tónlistarnámi og gat spilað á gítar sem hann og gerði t.d. í frábærri útilegu í Þórsmörk. Hann hélt mikið upp á hljómsveitina Dire Straits og mér verður ætíð hugsað til hans þegar ég hlusta á þá.

Menntskælingar eru oft eins og beljur á vori þegar fjósdyrnar ljúkast upp og frelsið blasir við. Höddi lét sitt ekki eftir liggja á því sviði og kallaði það að „taka skrens“ og nú hefur Höddi tekið sitt síðasta skrens.

Ég sendi hugheilar samúðarkveðjur til allra aðstandenda.

Haldor G. Haldorsen.

Fallinn er frá félagi, vinur, maður sem skilur eftir sig spor í mínu lífi. Fyrir aldur fram. Það kallar fram minningar, hugsanir um liðna tíð. Um hvenær og hvernig hann Hörður snerti mann og hafði áhrif á líf mitt og annarra í kringum sig.

Hörður var fjörkálfur. Aldrei nein lognmolla í kringum hann. Alltaf til í bíóferðina, partíið, ferðalagið og rökræðurnar. Já, rökræðurnar – maður lifandi. Þar var hann á heimavelli. Ekkert málefni var honum óviðkomandi. Og skoðanir hafði hann á öllu. Oft og tíðum stillti hann sér upp á móti straumnum. Tók strauminn á kassann og henti einhverju grjóthörðu á móti. Sló vopnin úr höndunum á manni með einhverjum alkunnum sannleik sem okkur fannst stundum enginn fótur fyrir. En stundum var hann með allt á hreinu og svo vel lesinn að andstæðingurinn var skák og mát. Og hvenær átti hið fyrrnefnda við og hvenær hið síðarnefnda? Maður vissi það aldrei. Eftir á að hyggja voru þessi einkenni hans örugglega eitthvað sem við vinirnir sóttum í. Við vildum „fætinginn“! Við vildum fjörið. Við vildum vera nálægt þessum manni sem var alltaf að skora á okkur og einhvern veginn ýtti okkur í þá átt að hafa skoðun – þótt það væri ekki endilega hans skoðun! Við vorum saman í menntaskóla og ekki verður á hann minnst án þess að nefna Kjallaragengið! Það var hópur nokkurra menntaskóladrengja í MS sem hittust reglulega á kvöldum í kjallaraíbúð og síðar í kjallara verslunar sem fjölskylda Harðar átti. Þarna vorum við að hittast, hafa gaman og ræða málin fram og til baka. Síðar meir breikkaði þessi hópur og fékk þá hið virðulega heiti Hámenningarfélagið (nefnt HÁM til styttingar). Þótt Hörður hafi ásamt konu sinni, Önnu Maríu, flust til Danmerkur á sama tíma og við hinir vorum í námi á Íslandi hélst alltaf sambandið við hann. Hann kom öðru hvoru til Íslands, við fórum saman í Kúbuferð og við hittumst tvisvar í Danmörku. Í fyrra skiptið um aldamótin þar sem nokkrar fjölskyldur hittust í góðu atlæti á búgarði á Jótlandi. Síðara skiptið var fyrir 7-8 árum þegar tekið var að halla undan fæti hjá Herði. Þá heimsóttum við hann nokkrir HÁM-félagar og við áttum góðar stundir saman. Hin síðari ár hefur því miður smám saman fjarað undan lífsgæðum og lífi Harðar og nú syrgjum við fallinn félaga. Ég votta mína dýpstu samúð til barna Harðar, fyrrverandi lífsfélaga hans, systkina og annarra ættingja.

Jón Hólmgeir Steingrímsson.

Nú er hann Hörður vinur minn dáinn.

Okkur félögum hans var það löngu ljóst hvert stefndi. Við vorum orðnir viðbúnir því að næstu fréttir sem við heyrðum væru fréttir af andláti hans. En samt, þegar fréttirnar koma, fyllist maður tómleikakennd, söknuði og sektarkennd. Maður hefði getað gert betur, haft meira samband, en gerði það ekki. En það voru margir búnir að reyna. Systkini hans, konan hans og börnin hafa reynt og þolað mikið, en að lokum fór þetta svona.

Hörður var glaður strákur í menntaskóla þegar við kynntumst. Hann var bæði fallegur og skemmtilegur. Þetta var góður tími, menntaskólaárin. Við félagarnir drukkum reyndar allt of mikið, en það þótti ekkert óeðlilegt í þá daga. Við vorum leitandi og rökræddum um samfélagsmál og allskonar hluti, svo þetta var frjór og skemmtilegur hópur sem ég er feginn að hafa kynnst.

Framtíðin blasti björt við okkur, og ekki síst Herði. Hann reyndi ýmislegt fyrir sér í Háskólanum, eignaðist góða og fallega konu. En einhvern veginn gekk ekki það sem hann lagði fyrir sig í náminu. Svo liðu árin, fjölskyldan flutti til Danmerkur, og Hörður fór að halla sér meira og meira að flöskunni. Lífið hans endaði svo núna fyrir nokkrum vikum, í raun miklu seinna en margir bjuggust við.

Mér verður hugsað til systur minnar ,hennar Ástu Guðrúnar. Hún var elst af okkur systkinunum, glaðvær og uppfinningasöm eins og Höddi. En hún var líka metnaðargjörn, ég held að hún hafi litið á það sem skyldu sína að „slá í gegn“. Það geta ekki allir slegið í gegn, og það var sameiginlegt með þeim tveimur að þau vildu slá í gegn á sviði sem þau voru ekkert svo góð í. Það er synd, því það var margt sem þau bæði voru mjög góð í. Ég held að hungur eftir viðurkenningu hafi leitt þau bæði út á hálan ís. Vímuefnin voru leið til að lina sársaukann yfir því að finnast þau ekki vera nógu góð.

Ásta dó úr ofneyslu eiturlyfja, en Hörður úr ofneyslu áfengis. Áfengi er ekki flokkað sem eiturlyf. Eflaust vegna þess að það var ákveðið fyrir löngu að rétt væri að selja það í Ríkinu. Það var rétt ákvörðun. Fólk í þá daga sá hættuna af því ef glæpamenn væru að höndla með áfengið. Núna sjá glæpamenn um að selja eiturlyfin, og Ásta systir átti ekki í neinum vandræðum með að útvega sér þau. Það er sorglegt hvað fólk er farið að líta á áfengið sem hverja aðra neysluvöru, sem eðlilegt sé að selja í kjörbúðum og auglýsa. Fyrir flesta er ekkert mál að neyta áfengis í hófi. Það gerðum við strákarnir í Hám-hópnum – já og oft í óhófi. Allir komumst við í gegnum lífið, nema Hörður.

Mér finnst að lífshlaup Harðar og annarra þeirra sem fóru sömu leið ætti að vera okkur áminning um að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Áfengi er eitur, og þannig á að umgangast það. Þá er ég ekki að tala um að banna það, því það er gert með önnur eiturlyf með litlum árangri. Sú saga er jafnvel enn sorglegri, þar sem þessu veika fólki er refsað af lögreglu og dómstólum og það jaðarsett af samfélaginu öllu.

Hvíl í friði, Hörður.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Reynir Eyvindsson.