Gleði Konur fagna loftslagsdómi MDE hinn 9. apríl síðastliðinn.
Gleði Konur fagna loftslagsdómi MDE hinn 9. apríl síðastliðinn. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Neðri deild svissneska þingsins samþykkti í fyrradag með 111 atkvæðum gegn 72 að grípa ekki til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum í kjölfar nýlegs loftslagsdóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg (MDE)

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Neðri deild svissneska þingsins samþykkti í fyrradag með 111 atkvæðum gegn 72 að grípa ekki til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum í kjölfar nýlegs loftslagsdóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg (MDE). Hafði meirihluti efri deildar svissneska þingsins þá með líku lagi samþykkt þingsályktun um að dómur MDE kallaði ekki á frekari aðgerðir í loftslagsmálum af hálfu stjórnvalda í Sviss umfram það sem þegar hefði verið ákveðið.

Mannréttindadómstóllinn kvað upp þann dóm 9. apríl sl. að svissneska ríkið hefði brotið gegn rétti hóps aldraðra kvenna með því að vernda þær ekki nógsamlega fyrir miklum hitum, sem rekja mætti til hlýnunar af mannavöldum.

Aðgerðastefna úr hófi fram

Taldi meirihlutinn í neðri deildinni að MDE hefði farið út fyrir valdsvið sitt í áðurnefndum dómi sem kallaði ekki á frekari aðgerðir Sviss í loftslagsmálum. Samþykkti meirihlutinn yfirlýsingu þar sem dómstóllinn var sakaður um „ótæka lagalega aðgerðastefnu sem væri úr hófi fram“.

Samþykkt neðri deildarinnar bindur þó ekki hendur ríkisstjórnarinnar í Sviss en ákvörðunar hennar er vænst síðsumars, að því er sagði í frétt BBC um málið.

Carl Baudenbacher, fv. forseti EFTA-dómstólsins, tjáði sig um dóm MDE í samtali við Morgunblaðið 2. maí síðastliðinn. Var niðurstaða hans að dómurinn væri út í loftið. Nú þegar afstaða þingsins í Sviss liggur fyrir hafði Morgunblaðið aftur samband við Baudenbacher og innti hann álits á atkvæðagreiðslunum í báðum deildum þingsins.

Tekist á um valdheimildir

Baudenbacher sagði að í atkvæðagreiðslum þingsins hefði verið tekist á um valdheimildir en Evrópuráðið, sem MDE heyrir undir, væri „bitlaus stofnun“. Atkvæðagreiðslan í neðri deildinni hefði sýnt fram á að margir þingmenn í Sviss vildu að Sviss, sem er ekki aðildarríki ESB, gengi lengra í samruna við ESB og heyrði undir lögsögu Evrópudómstólsins. Aðrir þingmenn hefðu hins vegar látið í ljós andstöðu við þá þróun.

Með slíku valdaframsali til ESB (e. unequal treaty) gæti Sviss orðið hálfgerð nýlenda, líkt og fyrrverandi Sovétlýðveldin. Þ.e.a.s. með tilfærslu á valdi til framkvæmdastjórnar ESB og Evrópudómstólsins en slíkt gangi gegn stjórnarskránni í Sviss og sömuleiðis á Íslandi. » 14

Höf.: Baldur Arnarson