Afþreying Rekstur Skors fer ekki á svig við reglur að mati Heima.
Afþreying Rekstur Skors fer ekki á svig við reglur að mati Heima. — Morgunblaðið/Eggert
Fasteignafélagið Heimar (áður Reginn) segir skemmtistaðinn Skor hafa aflað tilskilinna leyfa fyrir starfsemi sinni og er heimilaður veitingatími í samræmi við þinglýsta kvöð og húsreglur sem á eigninni hvíla

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Fasteignafélagið Heimar (áður Reginn) segir skemmtistaðinn Skor hafa aflað tilskilinna leyfa fyrir starfsemi sinni og er heimilaður veitingatími í samræmi við þinglýsta kvöð og húsreglur sem á eigninni hvíla. „Heimar starfa í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma,“ segir Dagbjört Erla Einarsdóttir, yfirlögfræðingur Heima, í samtali við Morgunblaðið.

Leitað var til félagsins vegna fréttar í blaðinu í gær, þar sem íbúi, sem býr fyrir ofan skemmtistaðinn Skor, lýsti yfir óánægju sinni varðandi skemmtistaðinn. Segir hann starfsemina fara á svig við þinglýsta kvöð hússins um hvers konar rekstur megi viðhafa þar.

Dagbjört segir að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sé gert ráð fyrir „líflegri starfsemi“ á svæðinu og sérstök áhersla lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu. Á jarðhæðum eigna Heima, sem falla undir ofangreinda skilgreiningu, er verslunar-, veitinga-, menningar- og þjónustustarfsemi í forgangi.

Dagbjört bætir við að bæði Heimar og rekstraraðilar Skors hafi þegar gripið til ýmissa ráðstafana til að mæta sjónarmiðum íbúa á efri hæðum hússins. „Markmiðið er að reksturinn geti farið fram í sem mestri sátt við íbúa,“ bætir hún við.

Höf.: Drífa Lýðsdóttir