Á Hörgslandi Ólafía, börnin og barnabörnin árið 2020.
Á Hörgslandi Ólafía, börnin og barnabörnin árið 2020.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafía Jakobsdóttir fæddist 14. júní 1944 í Kálfafellskoti í Fljótshverfi og ólst þar upp til 16 ára aldurs, þegar foreldar hennar fluttu að Hörgslandi II á Síðu árið 1960. Heimili Ólafíu hefur verið þar alla tíð síðan

Ólafía Jakobsdóttir fæddist 14. júní 1944 í Kálfafellskoti í Fljótshverfi og ólst þar upp til 16 ára aldurs, þegar foreldar hennar fluttu að Hörgslandi II á Síðu árið 1960. Heimili Ólafíu hefur verið þar alla tíð síðan.

Ólafía gekk í barnaskóla Hörgslandshrepps í Múlakoti á Síðu og lauk þar barnaprófi.

„Eftir að barnaskólanáminu lauk tók ég þá ákvörðun að sækja ekki nám við Héraðsskólann í Skógum en aðstoða þess í stað foreldra mína við bústörfin.“ Hún vann einnig í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri og fór á vertíðir í Vestmannaeyjum.

Árið 1963 hóf Ólafía, ásamt eiginmanni sínum Kristni Siggeirssyni frá Kirkjubæjarklaustri, búskap á Hörgslandi II í félagi við foreldra hennar. Helstu viðfangsefnin næstu 19 árin voru því landbúnaðarstörfin og barnauppeldi.

Hún starfaði líka árstíðabundið utan heimilisins á árunum 1978 til 1990 hjá Sláturfélagi Suðurlands í sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri, við almenn störf í sláturhúsi, sölu- og afgreiðslustörf og fékk síðan réttindi sem löggildur kjötmatsmaður 1984-1990.

Árið 1982 var Ólafía kjörin fyrsta konan í hreppsnefnd í Hörgslandshreppi. Fljótlega tóku við í lífi Ólafíu margvísleg félagsmála- og nefndastörf, jafnt innan sem utan sveitar og síðar á héraðs- og landsvísu.

Ólafía sótti námskeið hjá MFA, Félagsmálaskóla alþýðu, sem gagnaðist henni vel á vettvangi félags- og sveitarstjórnarmála.

Hún tók þátt í störfum undirbúningsnefndar um sameiningu hreppanna fimm milli Mýrdalssands og Skeiðarársands í Vestur-Skaftafellssýslu, sem samþykkt var í atkvæðagreiðslu íbúa hreppanna árið 1989. Nýja sveitarfélagið fékk nafnið Skaftárhreppur og dregur það nafn sitt af jökulánni Skaftá sem á upptök sín í Vatnajökli og snertir lönd gömlu hreppanna á leið sinni til sjávar. Ólafía var kosin í fyrstu sveitarstjórn Skaftárhrepps árið 1990 og sat þar samfellt í 12 ár til ársins 2002. Hún gegndi þar m.a. störfum varaoddvita og skrifstofustjóra og síðustu fjögur árin sem sveitarstjóri í Skaftárhreppi. Meðfram störfum fyrir sveitarfélagið stundaði Ólafía nám í opinberri stjórnsýslu og stjórnun hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands á árunum 1999-2000.

Ólafía tók þátt í stofnun Kirkjubæjarstofu, rannsókna- og fræðaseturs á Kirkjubæjarklaustri, sem tók til starfa árið 1997. Hún sat í stjórn stofunnar frá upphafi til ársins 2008 og starfaði þar sem verkefnastjóri og síðar sem forstöðumaður til ársloka 2022 þegar hún lauk þar störfum 78 ára að aldri.

Einn af merkum viðburðum á starfstíma Ólafíu hjá Kirkjubæjarstofu var þegar ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldið var á Hótel Geysi 24.-25. október 2019, veitti Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri Menningarverðlaun Suðurlands 2019. Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi. Um er að ræða fyrstu menningarverðlaunin sem samtökin veita í þessari mynd, sem ná þvert yfir allan landshlutann.

Ólafía tók þátt í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands árið 2005 og sat í stjórn þess samfleytt í 13 ár sem gjaldkeri eða formaður.

Eitt af þeim verkefnum sem Ólafía tók þátt í var stofnun Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi árið 2010. „Frá upphafi hafa Eldvötn fyrst og fremst verið málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða og unnið að eflingu almenningsvitundar – einkum íbúa Skaftárhrepps – um gildi náttúrunnar, umhverfismál og náttúruvernd og veitt stjórnvöldum og framkvæmdaaðilum gagnrýnið aðhald.“

Ólafía lauk diplómaprófi í ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum – Hólaskóla árið 2005 og sat hún sem fulltrúi umhverfisverndarsamtaka í svæðisráði vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hans til ársins 2019.

Ólafía sat í stjórn Byggðastofnunar árin 2013 til 2014. Hún tók einnig þátt í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir – Skaftárhreppur til framtíðar, og sat í stjórn þess fyrir Kirkjubæjarstofu til loka verkefnisins 2018.

Meðal annarra viðburða sem snertu lífsstarf Ólafíu var þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fv. umhverfisherra, veitti henni náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2021 á degi íslenskrar náttúru. Ráðherra sagði Ólafíu hafa látið sig vernd íslenskrar náttúru varða, sérstaklega í Skaftárhreppi, og sýnt einstaka elju og þrautseigju. Hún væri því vel að þessum verðlaunum komin.

Hinn 1. janúar 2022 sæmdi forseti Íslands Ólafíu Jakobsdóttur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á sviði landverndar og menningarmála. „Athöfnin á Bessastöðum var skemmtileg og eftirminnileg enda fór hún fram á covid-tímum.

Ef ég lít til baka á þessum tímamótum í lífi mínu er ég þakklát fyrir góða heilsu og mína góðu fjölskyldu. Lífið hefur þó stundum verið erfitt og slys, veikindi og missir eftir andlát míns elskulega eiginmanns hafa sett sitt mark á fjölskyldu mína.

Ég verð líka að minnast á allt mitt góða samferðafólk, sem ætíð lætur sig varða verndun náttúrunnar og hefur alla tíð stutt náttúruverndarbaráttuna heilshugar. Eftir öll þessi baráttuár er okkar kæra sveitarfélag, Skaftárhreppur, sem ég tók þátt í að stofna fyrir 34 árum, enn laust við stórvirkar framkvæmdir, s.s. miðlunarlón og vindmyllugarða.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ólafíu var Kristinn Siggeirsson, f. 6.3. 1939, 19.2. 2017, bóndi á Hörgslandi á Síðu. Foreldrar hans voru hjónin Siggeir Lárusson, f. 3.12. 1903, d. 11.10. 1984, hóteleigandi, og Soffía Kristinsdóttir, f. 16.6. 1902, d. 1.2. 1969, húsmóðir, búsett á Kirkjubæ 1 á Kirkjubæjarklaustri.

Börn Ólafíu og Kristins eru 1) Jakob Kristinsson, f. 10.3. 1963, framkvæmdastjóri, búsettur í Reykjavík. Börn hans og fyrrverandi eiginkonu, Eddu Huldar Sigurðardóttur, f. 6.3. 1965 kennara, eru Flóki, f. 8.12. 1992 og Líneik, f. 12.5. 1994, búsett í Reykjavík; 2) Sigurður Kristinsson, f. 17.12. 1964, bóndi á Hörgslandi II. Eiginkona hans er Anna Harðardóttir, f. 3.2. 1964, bóndi. Börn þeirra eru: a) Elín, f. 10.8. 1984, sambýlismaður: Khaled Hamed, f. 9.5. 1984, barn þeirra er Ísak Walid, f. 5.12. 2023, búsett í Reykjavík; b) Lára Sigurðardóttir, f. 21.5. 1988, sambýlismaður: Roberto Luigi Pagani, f. 13.11. 1990, búsett í Reykjavík; c) Atli Sigurðarson, f. 18.6. 1992, sambýliskona: Hulda María Gunnarsdóttir, f. 24.6. 1988, búsett í Kópavogi; 3) Soffía Kristinsdóttir, f. 16.6. 1966, launafulltrúi hjá LHS, búsett í Kópavogi. Eiginmaður: Rúnar Þór Bjarnþórsson, f. 2.9. 1963, deildarstjóri hjá Advania. Börn þeirra eru Kristinn, f. 27.1. 1990, Birkir Þór, f. 26.12. 1996, og Hildur Ósk, f. 15.11. 1999; 4) Gunnlaugur Kristinsson, f. 30.6. 1968, ráðgjafi hjá Advania, búsettur í Reykjavík. Eiginkona hans er Þórdís Högnadóttir, f. 20.11. 1969, jarðfræðingur. Börn þeirra eru Heiðrún, f. 20.3. 2006, og Yrsa, f. 21.9. 2008.

Systur Ólafíu eru Sigurveig Jakobsdóttir, f. 28.11. 1938, húsmóðir, búsett í Reykjavík, og Jóna Jakobsdóttir, f. 29.11. 1950, fyrrverandi skrifstofustjóri, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Ólafíu voru hjónin Jakob Bjarnason, f. 4. 7. 1910, d. 28.7. 2017, og Róshildur Hávarðsdóttir, f. 29.4. 1913, d. 23.11. 1993, bændur í Kálfafellskoti og á Hörgslandi.