Helga Ólafsdóttir fæddist 5. október 1934. Hún lést 20. maí 2024.

Útför Helgu fór fram 3. júní 2024.

Þegar ég hugsa um ömmu Helgu sé ég fyrir mér kókópuffs og seríós í djúpum brúnum disk í ljósaskiptunum í Keldulandinu. Ég sé fyrir mér grænan skrjáf-nammipoka sem ég fékk að velja nammi í fyrir 50-kall. Hrúgu af klinki á borðinu þegar hún var að kenna okkur að spila upp á peninga. Hún vann alltaf. Amma hafði sterkar skoðanir á öllu og öllum og ég var svo heppin að hafa hana í lífi mínu nógu lengi til að læra að meta þessa ákveðni sem ég hafði á unglingsárum stundum upplifað sem stjórnsemi. Hún var alla tíð skýr í kollinum, afdráttarlaus og hárbeitt. Prakkari og húmoristi með smitandi hlátur. Það er gaman að sjá drætti af hvoru tveggja útliti og persónuleika ömmu áfram í dóttur minni og ég er innilega þakklát fyrir að þær fengu að kynnast áður en amma kvaddi. Takk fyrir allt, elsku amma mín, þangað til næst.

Katrín Helga
Andrésdóttir.