Jódís Skúladóttir
Jódís Skúladóttir
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana í dómsmálaráðuneytinu árum saman og er ábyrgð ráðherranna þar á stöðu lögreglunnar rík.

Jódís Skúladóttir

Aðgerðir lögreglu vegna mótmælanna í lok síðasta mánaðar og afleiðingar þeirra hafa skapað réttmæta umræðu. Sitt sýnist hverjum. Fréttaflutningur af lögregluofbeldi veldur mér áhyggjum og hef ég gert það að umtalsefni í ræðustól Alþingis, sem féll ekki í kramið hjá öllum. Ég hef fengið pósta frá lögreglumönnum sem fannst að sér vegið. Ég hef hins vegar líka fengið talsvert af póstum frá almennum borgurum sem segjast hafa upplifað áreiti eða ofbeldi af hálfu lögreglu. Ég virði bæði sjónarmið og svo því sé haldið til haga þá hef ég í gegnum tíðina staðið með lögreglunni bæði í ræðu og riti. Að mínu mati byggist vandi lögreglunnar fyrst og fremst á langvarandi fjárskorti. Á sama tíma og aðhaldskrafan eykst fjölgar verkefnunum. Það eykur bara á vandann, sem er löngu orðinn djúpstæður og flókinn. En lausnin er hins vegar ekki að auka heimildir hennar.

Mönnun lögreglunnar, ekki síst á landsbyggðinni, er mikið áhyggjuefni. Umdæmin eru gríðarstór og eðli máls samkvæmt er ógerningur að tryggja öryggi lögreglumanna og almennings á meðan staðan er sú, eins og dæmin sanna, að einn einstaklingur á að vakta mörg hundruð ferkílómetra svæði.

Mistökum fjölgar og veikindi aukast

Þá liggur sömuleiðis í augum uppi að á meðan sama fólkið þarf að manna stöðugildi sem ættu að dreifast á mun fleiri hendur, þá endar það bara á einn veg: Mistökum fjölgar, fólk endar í kulnun eða veikindum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana í dómsmálaráðuneytinu árum saman og er ábyrgð ráðherranna þar á stöðu lögreglunnar rík. Það sama má segja um stöðu útlendingamála og fangelsismála, en það er önnur saga.

Lögreglan þarfnast skilnings

Sem fulltrúi VG í fjárlaganefnd hef ég lagt ríka áherslu á að lögreglunni sé sýndur skilningur og niðurskurðarólin sé ekki þrengd enn frekar. Ég held með lögreglunni og virði hana, en er í grundvallaratriðum ósammála þeim rökum að vandi hennar leysist með auknum rannsóknarheimildum eða vopnaburði. Hins vegar þarf að tryggja strax viðunandi vinnuaðstæður og mannsæmandi umhverfi. Það liggur í augum uppi.

Höfundur er þingmaður Vinstri-grænna.

Höf.: Jódís Skúladóttir