Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Sjálft Péturstorgið fyrir framan kirkjuna táknar faðm kaþólsku kirkjunnar sem umvefur borgina og veröld alla.

Þórhallur Heimisson

Hver er skýringin á heitinu „Miðjarðarhaf“? Það er ekki vegna þess að hafið sé staðsett á miðju jarðarinnar. Nei, það er vegna þess að það var í miðju rómverska ríkinu – það var rómverskt innhaf. Enda kölluðu Rómverjar það líka „Mare nostrum“ sem þýðir einfaldlega „hafið okkar“. Þegar Rómaveldi var hvað stærst náði það allt frá eyðimörkum Mesópótamíu, yfir alla norðurströnd Afríku norðan Sahara, yfir Litlu-Asíu, kringum austan- og vestanvert Svartahaf og allt að múrnum sem Rómverjar létu reisa við landamærin sem síðar urðu Skotland. Að öðru leyti fylgdu landamærin stórfljótum Evrópu sem Rómverjar víggirtu, Rín og Dóná. Rómaveldi hefur mótað sögu Evrópu og menningu allar aldir allt til dagsins í dag og þar með allt það sem evrópsk menning hefur getið af sér og mótað um víða veröld. Það er í raun og veru sama hvert litið er, það þarf ekki nema skrapa yfirborð evrópskrar menningar, þá leynast þræðir undir sem ná í gegnum aldirnar og til Rómaveldis hins forna. Fræðihugtök, lög, skipulag kirkjunnar, hugmyndir um stríð og hernað, stjórnmál, ríkisvald, lýðræði, einræði, sagnfræði, byggingarlist, verkfræði, vegagerð, læknisfræði, dagatal, keisarar og konungar – allt tengist þetta Rómaveldi.

Enn má sjá minjar um vald og áhrif Rómar í Evrópu, Norður-Afríku og í Mið-Austurlöndum, hallarrústir, baðhús, vegi, vatnsveitur og kirkjur. Enda reistu Rómaveldi og keisarar þess kirkjur um allt heimsveldið eftir að kristni var lögtekin í ríkinu. Þær kirkjur standa sumar enn og eru margar hverjar meðal glæstustu bygginga sem reistar hafa verið. Draumurinn um sameinaða Evrópu er líka frá Rómverjum kominn, eitt ríki, einn keisara og einn Guð – og hugmyndin um heimsveldið af Guði gefið, imperium („empire“ á ensku). Rómverjar kölluðu ríki sitt „Imperium Romanum“. Það tóku önnur heimsveldi upp síðar samanber Imperium Britannicum, eða breska heimsveldið. Rómaveldi stóð af sér árásir og lifði af í 2100 ár frá ca 700 f.Kr. og til 1453 e.Kr. þegar hin önnur Róm, Konstantínópel, féll fyrir Tyrkjum. Tyrkneska Ottómanaveldið reis á rústum þess og stóð til 1918. Allir keisarar Evrópu tóku sér titil Júlíusar Sesars, en frá nafni hans „Sesar“ eru komnir titlarnir „keisari“ og „zar“. Og allir vita hver hann var. Sem segir sitt um áhrif Rómar enn í dag. Keisari – Sesar – er sá sem vill ríkja yfir öllum löndum heimsins. Veldistákn keisaranna í Konstantínópel í Austrómverska ríkinu var hnötturinn. Moskva varð hin þriðja Róm árið 1453 eftir fall Konstantínópel. Þýski keisarinn var keisari hins „heilaga þýsk-rómverska keisaradæmis“. Napóleon vildi sem keisari leggja undir sig Evrópu. Wilhelm Þýskalandskeisari reyndi það sama árið 1914. Evrópusambandið er stofnað sem friðarbandalag til að sameina ríki Evrópu eftir árhundraða styrjaldir. Og svona mætti lengi telja.

Sjálfur hef ég undanfarin tuttugu ár ferðast með þúsundir Íslendinga á slóðir hins forna Rómaveldis og stórborga þess, allt frá Skotlandi til Persaflóa. Rómar, Istanbúl, Alexandríu, Jerúsalem, Efesus, Cesareu, London, Parísar, Kölnar, Aþenu, Valettu, Damaskus, og ótal fleiri, allar bera þær heimsveldinu forna vitni. Drottning þeirra allra er sjálf Róm, borgin eilífa. Róm hýsir líka eitt minnsta ríki heims, sem um leið er eitt hið stærsta. Vatíkanið, eða Páfaríkið, stendur á bökkum Tíberfljótsins í miðri Rómaborg. Þar eru víst aðeins skráðir um 1.000 ríkisborgarar en þrátt fyrir smæð sína er Vatíkanið andlegur höfuðstaður kaþólsku kirkjunnar sem telur um 1,4 milljarða meðlima. Páfinn er yfirmaður Vatíkansins eins og kaþólsku kirkjunnar og frá fornu fari ber hann titilinn „Pontifex Maximus“ sem er latína og þýðir hinn æðsti brúarsmiður. Í huga kaþólskra er hann andlegur brúarsmiður sem byggir brú milli Guðs og manna. Um leið er það hinn fórni keisaratitill.

Vatíkanið samanstendur af Péturskirkjunni og höll páfa, auk safna, stjórnbygginga, garða og íbúðarhúsa þar í kring. Péturskirkjan er ein þekktasta kirkja kristninnar. En í Vatíkansafninu er að finna sixtínsku kapelluna, sem er einkakapella páfa og hefur að geyma hinar frægu freskur Michelangelos af sköpun heimsins og dómsdegi. Fátt jafnast á við áhrifin af því að standa á Péturstorgi fyrir framan Péturskirkjuna. Þar eru þúsundir samankomnar frá öllum heiminum, pílagrímar, forvitnir túristar, prestar, nunnur og munkar, að ógleymdum svissnesku varðmönnunum, leiðsögumönnunum sem tala hver í kapp við annan, börnum, hestum og margs konar listamönnum. Péturskirkjan er reist á þeim stað þar sem talið er að Pétur postuli hafi verið jarðsettur. Óteljandi listamenn komu að gerð kirkjunnar en þar bera Bramante, Rafael, Michelangelo og Bernini höfuð og herðar yfir aðra. Sjálft Péturstorgið fyrir framan kirkjuna á að tákna faðm kaþólsku kirkjunnar sem faðmar að sér borgina og veröld alla. „Urbi et Orbi“, heim og borg eins og það heitir á latínu. Og vissulega er það svo að borgin eilífa opnar enn faðm sinn fyrir hverjum þeim sem sækir hana heim.

Höfundur er söguáhugamaður.

Höf.: Þórhallur Heimisson