Í höfn Samninganefndir Sameykis og ríkisins undirrituðu nýjan kjarasamning í fyrrakvöld, þann fyrsta á opinberum markaði í samningalotunni.
Í höfn Samninganefndir Sameykis og ríkisins undirrituðu nýjan kjarasamning í fyrrakvöld, þann fyrsta á opinberum markaði í samningalotunni. — Ljósmyndir/Sameyki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjólin eru loks farin að snúast í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga á opinbera markaðnum. Flestir runnu þeir út í lok mars sl. og tók þá við löng viðræðulota. Síðdegis í fyrradag komst skriður á viðræður stéttarfélaga innan BSRB og viðsemjenda hjá hinu opinbera

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Hjólin eru loks farin að snúast í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga á opinbera markaðnum. Flestir runnu þeir út í lok mars sl. og tók þá við löng viðræðulota. Síðdegis í fyrradag komst skriður á viðræður stéttarfélaga innan BSRB og viðsemjenda hjá hinu opinbera. „Þá datt þetta allt inn í sama árfarveg,“ segir Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis, stærsta stéttarfélags opinberra starfsmanna.

Þegar leið á kvöldið riðu samninganefndir Sameykis og ríkisins á vaðið og undirrituðu nýjan kjarasamning. Er það fyrsti kjarasamningurinn sem gerður er á opinberum markaði í yfirstandandi kjaralotu. Gildistími hans er frá 1. apríl sl. til 31. mars 2028. Í tilkynningu frá BSRB kemur fram að samið var á sambærilegum nótum og á almennum markaði í vor.

Þar með var búið að gangsetja vélina og í framhaldi af þessu, eða á öðrum tímanum í fyrrinótt, undirrituðu samninganefndir 11 aðildarfélaga BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga nýjan kjarasamning. „Sá samningur felur í sér sambærilegar launahækkanir og gildir einnig frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028,“ segir í tilkynningu BSRB.

Félögin 11 sem um ræðir eru Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi, FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu, Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu og starfsmannafélög Garðabæjar, Húsavíkur, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar, Kópavogs, Suðurnesja og Vestmannaeyjabæjar.

Pennarnir voru enn á lofti þegar lengra var liðið inn í nóttina, því á þriðja tímanum í fyrrinótt undirrituðu samninganefndir Sameykis og Reykjavíkurborgar einnig nýjan kjarasamning.

Síðdegis í gær gerðu Landssamband lögreglumanna og sjö BSRB félög nýja samninga við ríkið.

Bæjarstarfsmannafélögin í BSRB sem nú hafa náð samningum við sveitarfélögin höfðu undir lok maí vísað kjaradeilunni við sveitarfélögin til ríkissáttasemjara. Endurnýjaðir samningar þeirra taka til um sjö þúsund félagsmanna um allt land.

Viðsemjendur hafa lítið viljað tjá sig um innihald samninganna þar sem eftir er að kynna þá fyrir félagsfólki og greiða um þá atkvæði. Standa vonir til að lokið verði við gerð fleiri samninga á næstu dögum.

„Þetta eru stærstu viðsemjendur okkar á opinbera markaðnum og svo erum við búin að semja á almenna markaðnum við Isavia og undirrituðum samning í fyrradag við Fríhöfnina. Síðan eigum við eftir þó nokkra samninga sem koma í kjölfar þessara. Það er við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Orkuveituna, Rarik og Strætó, Klettabæ og fleiri viðsemjendur, sem eru núna í röðinni á verkefnalistanum,“ sagði Þórarinn í gær um stöðu samninga hjá Sameyki.

Samningarnir eru innan ramma eða merkis stöðugleikasamninganna frá því í vetur að sögn Þórarins, auk þess sem þurft hefur að lagfæra ýmis atriði, endurskoða og festa í sessi. Forystumenn BSRB hafa sagt að samkomulag um jöfnun launa á milli markaða væri forsenda þess að skrifað yrði undir kjarasamninga. Samkomulag náðist um það í viðræðulotunni og um fleiri verkefni.

Höf.: Ómar Friðriksson