Guðbjörg Erla Andrésdóttir fæddist í Reykjavík 13. nóvember 1953. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. júní 2024.
Guðbjörg var dóttir hjónanna Andrésar Hafliða Guðmundssonar lyfjafræðings, f. 10. júlí 1922, d. 10. mars 2013, og Kristínar Magnúsdóttur, f. 16. maí 1925, d. 3. mars 2018. Systkini Guðbjargar eru: Örn, f. 19. ágúst 1951, Ingibjörg Ólöf, f. 5. ágúst 1955, d. 9. maí 2013, og Magnús, f. 26. apríl 1957.
Guðbjörg giftist Friðgeiri Kristinssyni, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur, f. 18. mars 1979, kvæntur Hildi Björk Hafsteinsdóttur, f. 1. júlí 1979. Börn þeirra eru: Daníel Örn, f. 28. júní 2004, Kári Steinn, f. 14. júlí 2008, og Grímur Orri, f. 18. nóvember 2013. 2) Margrét, f. 14. ágúst 1982, gift Baldri Hrafni Gunnarssyni, f. 8. janúar 1983. Börn þeirra eru: Friðgeir Örn, f. 15. febrúar 2013, og Gunnar Hrafn, f. 28. október 2015. 3) Kristinn Örn, f. 7. maí 1985, d. 17. október 2009.
Guðbjörg ólst upp fyrstu 10 árin á Norðfirði en flutti svo aftur til Reykjavíkur og kláraði gagnfræðapróf frá Hlíðaskóla. Guðbjörg fór í Lyfjatækniskólann þar sem hún lauk námi sem lyfjatæknir og hóf störf hjá Háaleitisapóteki þar sem hún starfaði til 2002. Eftir það hóf hún störf hjá Sjónarhóli, ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með stuðningsþarfir, og starfaði þar til ársins 2020.
Guðbjörg verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju í dag, 14. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Athöfninni verður streymt á eftirfarandi slóð:
www.broadcast.is/gudbjorg
Elsku duglega mamma er nú látin eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Þrátt fyrir að greinast með ólæknandi og langt gengið krabbamein þá man ég ekki eftir því að hún hafi nokkru sinni kvartað heldur einblíndi hún alltaf á að hafa gaman og njóta sem hún svo sannarlega gerði. Hún hafði einstakt viðhorf til lífsins og það var einhvern veginn alltaf gleði og fjör í kringum hana. Mamma var þeim kostum gædd að laða fólk að sér með sínum persónutöfrum enda átti hún ótrúlega marga vini, var í mörgum vinahópum og alltaf nóg að gera. Svo var hún mikill húmoristi, stundum ansi kaldhæðin og mörg hlátursköstin tekin með henni. Hún var afar mikill fagurkeri bæði hvað varðar klæðnað og heimilið sitt og hafa margir haft orð á því í gegnum tíðina.
Mamma var hjálpsöm með eindæmum og vildi allt fyrir alla gera. Var alltaf mætt þegar vantaði hjálp, pössun, þrif eða bara hvað sem var. Var mjög ráðagóð og hreinskilin á sinn hátt. Ef mig vantaði ráð varðandi eitthvað í lífinu þá leitaði ég til hennar, hún fór reyndar stundum aðeins of geyst í að gefa góð ráð og var þá kölluð ráðgjafinn af okkur systkinum.
Það er skrítið hvað lífið breytist við svona missi, við mamma vorum nánar og töluðum saman í síma nokkrum sinnum á dag. Hún var ekki bara mamma heldur líka vinkona. Hún er og verður alltaf fyrirmyndin mín í lífinu.
Takk fyrir allt og allt, elsku besta mamma mín.
Þín dóttir,
Margrét Friðgeirsdóttir (Magga).
Guðbjörg, elsku tengdamamma mín, hefur nú kvatt okkur eftir fimm ára veikindi. Að fá greiningu um ólæknandi krabbamein var mikið áfall fyrir okkur öll og óvissan um framtíðina virtist óyfirstíganleg. En einstakt viðhorf Guðbjargar, jákvæðni og lífskraftur gaf okkur fjölskyldunni dýrmætar samverustundir sem urðu þýðingarmeiri fyrir vikið.
Guðbjörg tók einstaklega vel á móti mér í fjölskylduna fyrir 27 árum og grínaðist oft með að hún hefði valið mig af bekkjarmynd okkar Mumma í Versló. Í brúðkaupi okkar níu árum síðar tilkynnti hún mér síðan formlega að skilafresturinn væri útrunninn og að hún gæti því miður ekki tekið við honum aftur. Líf og fjör, ferðalög og útivist hafa einkennt okkar samveru öll þessi ár enda tengdamamma mín einstaklega félagslynd og orkumikil. Hún kenndi okkur að það á ekki að afþakka gott boð því þú veist aldrei hvenær þér verður boðið með næst. Og fyrir vikið var hún í endalausum vinahópum og klúbbum, arkaði á fjöll, þræddi golfvelli, þeyttist um á gönguskíðum og bara skálaði almennt fyrir lífinu og tilverunni. Hún gat líka verið ansi óþolinmóð og lét hlutina gerast, tók símtalið strax í staðinn fyrir að bíða eftir einhverjum tölvupósti. En það sem einkenndi tengdamömmu mína mest var góðvildin og hlýi faðmurinn. Amma Gugga dekraði ömmustrákana sína og á sérstakan stað í hjörtum þeirra. Þeir kölluðu hana Nammidrottninguna og ekki að ástæðulausu. Þegar þeir gistu hjá ömmu sinni var sængin tekin fram í sófa og horft á bíómynd með extra mikið af nammi og ís. Amma Gugga vildi alltaf hafa strákana sína svolítið smart og þegar þeir urðu eldri fóru þau að kíkja saman í búðir og versla. Amma kunni nefnilega vel á flottu merkin og við hlæjum ennþá að því þegar hún kynnti fyrir þeim Gucci-búðina í Kaupmannahöfn og þeir með stjörnur í augunum.
Guðbjörg þakkaði alltaf svo innilega fyrir að vera velkomin á okkar heimili en raunin er að þakklætið er allt okkar. Takk Guðbjörg fyrir skilyrðislausa ást og umhyggju. Takk fyrir að sýna mér alltaf virðingu og tillitssemi í okkar sambandi. Takk fyrir að taka alltaf minn málstað þegar við Mummi vorum ósammála. Takk fyrir að styðja alltaf við bakið á okkur og hvetja okkur áfram þegar við vorum hikandi. Og að lokum, takk fyrir að taka þétt utan um mig þegar ég þurfti á því að halda en kom því ekki í orð.
Þín tengdadóttir,
Hildur Björk.
Farin er frænka mín Guðbjörg Erla eftir harða baráttu við illvígt krabbamein. Við erum systradætur, hún dóttir Kiddýjar sem var elst en ég dóttir Erlu sem er næstyngst.
Guðbjörg var einstök manneskja á allan hátt. Allt frá æsku man ég hvernig hún var bæði glöð og kát og einstakur húmoristi sem var alltaf til í allt. Hún fann alltaf það sem var sniðugt og tók eftir því skemmtilega og fyndna. Guðbjörg var ræktarsöm við öll frændsystkin sín í bæði móður- og föðurætt. Hún var sérstaklega góð við mig og passaði mig oft þegar ég var lítil. Hún var mér eins og stóra systir. Þegar hún var flutt í bæinn hittumst við með mæðrum okkar enda þær samhentar systur þótt oft væru fjarlægðir milli þeirra miklar.
Þegar við fullorðnuðumst breyttust og dýpkuðu tengslin. Við systradæturnar fórum að hittast reglulega. Við gáfum mæðrum okkar þá skemmtilegu útskýringu að boðin hefðum við þurft að halda því við dætur þeirra urðum ekki hluti af hinum víðfræga fjölskylduklúbbi sem mæður okkar voru í. Og þegar við hittumst var alltaf gaman. Við borðuðum saman, rifjuðum upp ýmislegt úr æsku okkar og margt skemmtilegt frá mæðrum okkar.
Guðbjörg mætti mikilli sorg þegar hún missti systur sína Ingu Lóu og svo soninn hann Didda. Sorginni mætti hún með styrk og æðruleysi. Eftir fráfall Ingu Lóu fór ég að vera meira með Guðbjörgu og hennar vinkonum. Við höfum átt dýrmætar stundir saman og skiptir engu hvort það voru ferðir í leikhús, göngutúrar eða að við fengum okkur eitthvað gott að borða. Ég minnist ógleymanlegrar ferðar með Guðbjörgu og vinkonunum þar sem við flugum til Egilsstaða og keyrðum á æskuslóðirnar á Norðfirði þar sem þau systkinin voru alin að hluta til upp. Ég minnist líka yndislegrar ferðar sem við Guðbjörg fórum til Valencia á Spáni með mömmu mína.
Guðbjörg Erla var hrein og bein manneskja, alltaf smart, vel tilhöfð og glæsileg. Hvort sem við heyrðumst í síma eða hittumst þá áttum við gott og einlægt samtal. Við gátum orðað það sem við vorum að hugsa og það sem á okkur hvíldi. Hún dæmdi aldrei neinn, var ráðagóð og lagði áherslu á að við ættum „að vera bara með skemmtilegu fólki því það hefur góð áhrif á okkur“. Hún hallmælti ekki öðrum, dró fram það jákvæða og lét annað kyrrt liggja. Þannig fór hún ekki í manngreinarálit, talaði við alla og kom fallega fram. Einstök fyrirmynd sem skilur eftir sig fallega minningu.
Ég bið Guð að styrkja Margréti og Guðmund og fjölskyldur þeirra í sorginni. Minning um einstaka frænku lifir.
Björg Theodórsdóttir.
Mig langar minnast systurdóttur minnar Guðbjargar Erlu með nokkrum orðum.
Ég man morguninn sem hún fæddist. Þá hringdi Andrés í mömmu mína með fréttirnar og við fórum svo í strætó á Melhagann að sjá þessa fallegu stúlku. Nafnið Guðbjörg fékk hún í höfðuðið á ömmu sinni og Erla í höfuðið á mér. Mér þótti einstaklega vænt um það.
Móðir hennar Kiddý var elst okkar systra og vorum við bæði samrýndar systur og góðar vinkonur. Þegar foreldrar hennar og systkin bjuggu á Norðfirði fór ég oft austur til þeirra. Þangað var gott að koma. Þegar þau svo komu í bæinn bjuggu þau hjá mér í Langagerðinu. Þetta voru yndislegir tímar.
Guðbjörg Erla var alla tíð ræktarleg við mig og hélt góðu sambandi. Ég man þegar hún átti yngsta barnið og hún fór á saumanámskeið. Ég passaði fyrir hana þessi kvöld og þótti vænt um það. Seinna unnum við saman í Háaleitisapóteki í nokkur ár. Þar sást hve lipur hún var og hlý, vinmörg og vinsæll félagi.
Síðustu árin hefur Guðbjörg Erla verið dugleg að fara með mig í bíltúra og að versla. Það kunni ég vel að meta. Við fengum okkur eitthvað gott á kaffihúsi eða fórum í ísbúð. Þá var hún dugleg að koma til mín í heimsókn og stundum með vinkonur sínar. Man ég vel eftir að ég fékk að kenna einhverjum þeirra að baka pönnukökur. Það þótti mér skemmtilegt.
Guð geymi fallega minningu um ljúfa konu, stúlkuna sem var elst af dætrum okkar systra.
Erla Magnúsdóttir.
Okkur systur langar að minnast frænku okkar, Guðbjargar Erlu, með nokkrum orðum, en við erum yngstar af „frænkunum“ eins og við köllum okkur, dætrum fjögurra systra.
Elsku Guðbjörg Erla var elst okkar frænknanna og var um sumt eins og elsta systirin sem við litum upp til. Hún var alltaf flotta frænkan, svo fáguð í klæðnaði og framkomu. Hún einsetti sér að sjá hið jákvæða og tala um hið góða. Hún hélt til haga því sem var fallegt og sá alltaf ljós í öllu. Þegar á móti blés, og jafnvel í verstu stormum, var Guðbjörg frænka yfirveguð. Til dæmis var æðruleysi hennar einlægt þegar hún missti systur sína, föður, móður og soninn Didda. Þá var æðruleysi hennar einkennandi allan tímann sem hún tókst á við krabbameinið. Hún minnti okkur þessar yngri á hversu mikilvægt er að forgangsraða í lífinu og var okkur fyrirmynd í því að rækta sjálfa sig, fjölskylduna og stóran hóp góðra vina. Hún sagði okkur að við ættum að sleppa þessu leiðinlega og vera bara með skemmtilegu fólki. Fyrirmyndin talaði sínu máli.
Við systur minnumst skemmtilegs fimmtugsafmælis sem hún og vinkona hennar héldu saman. Okkur fannst stemning að vera með og rifja upp að þessar „stóru stelpur“ fóru einu sinni fóru með okkur á rúntinn og þótti sport að passa okkur.
Við munum líka stórskemmtilega ferð austur í sumarbústað með frænkunum. Þvílíkt fjör og gleði. Þar rifjuðum við upp margs konar skemmtisögur, skáluðum fyrir okkur og okkar fólki og hlógum mikið að leikrænum töktum hver annarrar.
Mæður okkar voru hluti af fjórum samheldnum systrum sem stóðu saman í gegnum þunnt og þykkt. Líklega hefur samheldnin að einhverju leyti erfst því við höfum lært það sem fyrir okkur var haft. Skemmtileg dæmi eru þegar við frænkur höfum hjálpast að í flutningum og frágangi, að taka upp úr kössum, setja í skápa svo ekki sé minnst á þegar við enduðum á að setja upp jólatréð og skála svo í lokin. Þá sagði Guðbjörg Erla „skál elskurnar“ og bar það fram með hinu eina sanna flautuhljóði sem vísaði í Ingu Lóu systur hennar. Dýrmætar minningar.
Við kveðjum góða frænku sem var natin, hrein og bein og sýndi okkur og okkar börnum einlægan áhuga. Umhyggju hennar munum við og þökkum fyrir, og biðjum Guð að blessa börnin hennar, tengdabörn og barnabörn í sorginni.
Auður og Guðbjörg Pálsdætur.
Nú er hún farin, elsku hjartans Guðbjörg Erla. Við söknum glæsilegu, fallegu, glaðlegu, skemmtilegu, traustu og ljúfu frænku okkar. Betri félagsskapur var vandfundinn. Um leið gleðjumst við yfir því að hún þjáist ekki lengur. Við yljum okkur við yndislegar minningar og samverustundir sem lina sorg og eftirsjá og eiga eftir að lifa með okkur ætíð.
Þau systkin Andrésarbörn voru alltaf fastur liður í lífi okkar systkinanna frá Suður-Reykjum, eins og bræðrabörnin öll. Það var alltaf líf og fjör frá fyrstu tíð, leikir og sprell. Það fylgdi henni Guðbjörgu ferskur andblær og hún skipulagði gjarnan leiki og aðra þess háttar iðju sem voru nýlunda í sveitinni. Með tímanum var síðan hist í skólafríum og farið í útilegur upp í Reykjafjall, síðar voru sumarbústaðaferðir, ættarmót og frænkufundir, alltaf gaman og mikið fjör.
Minningarnar eru ótal margar á langri samferð eins og til dæmis þegar Andrés og Kiddý fluttu frá Norðfirði og suður. Þá var m.a. í farangrinum lager úr apótekinu í Neskaupstað, alls konar fágæti sem varla hafði sést í Mosfellssveitinni áður. En þetta var góss sem ekki seldist – og þá var tilvalið að halda tombólu í bílskúr á Reykjum. Öllu hverfinu smalað saman og tombólumiðar ruku út og vinningar eftir því. Ágóðinn var töluverður á þeirra tíma vísu – fannst okkur, og hann gáfum við Blindrafélaginu. Enn er til þakkarbréf frá því ágæta félagi.
Guðbjörg þurfti að takast á við ríflegan skerf af áföllum og sorgum. En það sem einkenndi hana alla tíð var hversu ákveðin hún var í að láta ekkert koma í veg fyrir að geta notið þess sem lífið hafði upp á að bjóða. Hún hélt alltaf sinni reisn í bland við leiftrandi húmor og lífsgleði.
Við systkinin áttum trausta vináttu Guðbjargar á fullorðinsárunum og alltaf voru fagnaðarfundir þegar við hittumst við hin ýmsu tækifæri. Það var ómetanlegt að eiga hana að vini. Og ekki spillti frændsemin. Guðbjörg var alltaf hrein og bein og sagði skoðun sína umbúðalaust. Hún var dugnaðarforkur sem dreif í að framkvæma allt sem hún vildi gera og meira til. Hún var mikil fjölskyldumanneskja. Samheldni og kærleikur einkenndi samband hennar og afkomendanna sem voru hennar ríkidæmi. Svo átti hún mjög gott samband við frændfólk í móðurætt og auk þess marga vinahópa. Ef eitthvað þá fjölgaði þeim hópum með árunum, enda hún alltaf aufúsugestur hvar sem hún kom og allir vildu vera með Guðbjörgu.
Við sendum fjölskyldu Guðbjargar Erlu innilegar samúðarkveðjur og þökkum fyrir að hafa átt þessa öðlingsmanneskju í okkar lífi. Blessuð sé minning hennar.
Sólveig, Guðmundur, Helga, Bjarni Snæbjörn, Eyjólfur og Jón Magnús.
Nú er fallin frá ástkær móðursystir mín, Guðbjörg Erla. Hugurinn leitar til baka og grefur upp margar yndislegar minningar og ég minnist hennar með hlýlegu brosi og birtu í huga.
Guðbjörg var einstaklega umhyggjusöm og góð frænka og höfum við átt margar gleði- og sorgarstundir saman. Fyrir 11 árum misstum við Andrés Már móður okkar og Guðbjörg systur sína, Ingu Lóu. Samband okkar Guðbjargar hefur alltaf verið náið, en eftir að mamma lést má segja að samband okkar hafi styrkst til muna og var hún alltaf til staðar fyrir okkur fjölskylduna. Þrátt fyrir að ég hafi búið lengi erlendis var sambandið gott og fylgdist hún ávallt vel með hvað var í gangi í lífi okkar og öfugt.
Það er óhætt að segja að það hafi verið gaman í kringum Guðbjörgu, hún var einstaklega skemmtileg og mikill húmoristi. Þær eru ófáar samverustundirnar sem við fjölskyldurnar áttum saman og eru mér sérstaklega minnisstæðar margar utanlands- og sumarbústaðaferðir þar sem gleði og hlátur voru alltaf við völd.
Guðbjörg var glæsileg kona og alltaf með puttann á púlsinum þegar kom að tísku. Ilmvötn og varalitir voru sérstakt áhugamál hjá henni, vinkonum hennar, mömmu minni og ömmu. Fyrir nokkrum vikum kom Guðbjörg ásamt vinkonum í heimsókn til mín og þegar líða fór á heimsóknina voru ilmvatnsflöskur heimilisins dregnar fram og fram fór mikil rannsókn á bestu lyktinni. Lóa, dóttir mín, hefur erft þennan áhuga og var mikil gleði hjá þeim frænkum þegar þær komust að því að þær ættu sama ilmvatnið. Guðbjörg átti sérstakan stað í hjörtum barna minna þriggja, enda einstök frænka sem var alltaf hlý, hress og skemmtileg.
Lífsgleði og lífsvilji einkenndi Guðbjörgu og þó að veikindin væru farin að minna verulega á sig þá stundaði hún golf, fór í göngur og ferðaðist. Hún sýndi ótrúlegan styrk, nýtti tímann vel og til hins ýtrasta.
Það er stórt skarð höggvið í stórfjölskylduna. Guðbjörg var mikil fjölskyldumanneskja og var dugleg að safna öllum saman. Hún var mjög áhugasöm um fólkið sitt og fylgdist vel með öllum af miklum áhuga og samgladdist innilega þegar vel gekk. Guðbjargar verður sárt saknað og nú munum við systrabörn þétta hópinn og minnast yndislegu systranna sem eru farnar frá okkur, en sem við eigum svo ótal margar góðar og skemmtilegar minningar um.
Nú þegar ég kveð Guðbjörgu fyllist ég þakklæti fyrir alla þá gleði, hlýju og stuðning sem hún hefur veitt mér og fjölskyldu minni í gegnum tíðina. Minningarnar um Guðbjörgu frænku munu búa með okkur til hinstu stundar.
Elsku Mummi, Magga og fjölskyldur, það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með hversu þétt þið hafið staðið við bakið á mömmu ykkar í veikindunum, ykkar missir er mikill en megi minningarnar vera ykkur styrkur í sorginni.
Hvíl í friði, elsku Guðbjörg.
Kristín Logadóttir.
Guðbjörg frænka féll frá eftir fimm ára baráttu við krabbamein. Það er erfitt að setja í orð hversu einstök manneskja hún var og hversu mikið hennar verður saknað. Guðbjörg frænka var glaðlynd, umhyggjusöm og góðhjörtuð kona sem gerði allt til að sjá um sína nánustu. Hún var góð amma og mikil fjölskyldukona sem lagði mikla áherslu á samveru með fjölskyldunni. Hún var dugleg að skipuleggja samverustundir fyrir stórfjölskylduna, eins og jólaböllin í Miðleiti sem allir hlökkuðu til á hverju ári.
Það var gott að eiga Guðbjörgu að og nærvera hennar var alltaf góð og upplífgandi. Það var alltaf gaman að vera í kringum hana; hún var skemmtilegur ferðafélagi, alltaf hress og stutt í húmorinn þar sem goggurinn var ákveðið fjölskyldueinkenni hennar og barnanna. Guðbjörg var mikil smekkmanneskja og ávallt óaðfinnanlega glæsileg. Maður fann alltaf hversu mikla einlægni og væntumþykju hún bar til alls síns fólks. Hún var ávallt með þeim fyrstu til að hringja og óska manni til hamingju þegar tilefni var til, og hún tékkaði reglulega á því hvernig maður hefði það og hvort það væri eitthvað sem hún gæti gert fyrir mann, meira að segja þegar hún sjálf var í sinni baráttu. Hugur hennar var alltaf hjá sínu fólki.
Guðbjörg sýndi svo mikið æðruleysi og styrk í sinni baráttu við krabbameinið, hún lét ekkert stoppa sig til að uppfylla alla sína drauma með fjölskyldu sinni og vinum og verður barátta hennar og lífsgleði okkur mikil fyrirmynd til framtíðar. Hún var óspör á hrósið og sá alltaf það besta í öllum. Guðbjörgu verður minnst fyrir þá ómetanlegu gleði og hlýju sem hún gaf öllum í kringum sig. Við sem þekktum hana höfum misst ómetanlegan vinkonu og bandamann.
Við kveðjum Guðbjörgu með þakklæti í hjarta fyrir allar þær ógleymanlegu gleðistundir sem hún gaf okkur. Minningin um hana mun lifa áfram í hjörtum okkar allra. Elsku Mummi, Magga og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum en minningin um einstaka konu mun lifa með okkur öllum.
Andrés, Berglind og Hinrik.
Kynnin af Guðbjörgu hófust þegar börn okkar, Baldur og Magga, felldu hugi saman. Hún bauð af sér einstaklega góðan þokka, var glæsileg, hlý og fáguð í framkomu og gott að njóta vináttu hennar en það sem einkenndi Guðbjörgu líka var hversu skemmtileg og kát hún var. Fljótlega eignuðumst við sameiginlegt áhugamál í barnabörnunum Friðgeiri Erni og Gunnari Hrafni og höfum átt ótal tilefni til að samfagna hversu vel rætist úr „prinsunum“ okkar.
Við samhryggjumst Möggu og Mumma og hörmum að Guðbjörg fór of fljótt, en gleðjumst fyrir þeirra hönd hversu góða og ástríka mömmu þau áttu. Við munum öll sakna hennar innilega.
Sólveig og Gunnar.
Elsku hjartans Guðbjörg okkar, við erum svo heppin að hafa kynnst þér og fjölskyldu þinni þegar við urðum stuðningsfjölskylda Didda okkar fyrir 30 árum. Kær vinskapur myndaðist þá sem hefur haldist alla tíð síðan. Strákarnir okkar hafa alltaf talað um Guðbjörgu ömmu.
Ótal minningar þjóta um hugann og það er aðeins mánuður síðan við héldum upp á afmæli Didda okkar með veislu í hans anda. Það kom svo sterkt til mín að bjóða þér, Mumma, Möggu og fjölskyldum í pítsuveislu. Þetta var síðasta veislan okkar allra saman.
Þá var dásamlegt að eyða kvöldstund með ykkur fjölskyldunni á Abba-sýningu í London í tilefni 70 ára afmælis þíns. Það var mikið hlegið, sungið og dansað það kvöld.
Þú varst stærsta fyrirmynd okkar allra, með jákvæðu hugarfari þínu, þrautseigju og æðruleysi. Þú barst þig alltaf vel þrátt fyrir erfið veikindi. Þú kenndir okkur hvernig við eigum að lifa lífinu. Lífssýn þín var einstök og hefur gert okkur að betri manneskjum.
Þú varst dásamleg vinkona, hlý, ráðagóð, traust og einlæg. Þegar við rifjum upp ljúfar minningar þá er okkur þakklæti efst í huga.
Hjartans þakkir fyrir allt og allt. Minning um einstaka vinkonu/ömmu lifir í hjörtum okkar allra.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku Mummi og Magga, tengdabörn og ömmustrákar, missir ykkar er mikill og hugur okkar er hjá ykkur.
Jóna, Kristinn, Birkir Blær og Aðalsteinn Einir.
Í dag, með sorg í hjarta, kveð ég elsku vinkonu mín hana Guðbjörgu. Kynni okkar hófust fyrir um það bil 45 árum þegar ég kynntist Viðari, en hann og Guðbjörg voru hluti af vinahópi sem kallaði sig Sveinabandið. Nokkru seinna skráðum við okkur saman á golfnámskeið og urðum eftir það miklar vinkonur. Við ferðuðumst víða saman, meðal annars til Bandaríkjanna, Taílands, Evrópu og einnig innanlands og þá langoftast með golfsettið með okkur. Oftast fórum við í sumarbústað í Kiðjabergi en þar leið Guðbjörgu vel. Hún sagði alltaf að sumarið væri byrjað þegar hún var búin að spila hring í Kiðjabergi.
Það sem einkenndi Guðbjörgu best var kímnigáfa hennar, alltaf stutt í hláturinn og húmorinn, og endalaust gátum við hlegið að uppátækjum Sveinabandsins.
Guðbjörg var alveg svakalega kraftmikil kona, bæði dugleg og jákvæð. Eftir að hún greindist með krabbameinið var eins og hún fengi aukinn kraft, ekkert gat stöðvað hana í að lifa lífinu til fulls og undir það seinasta, þrátt fyrir mikla verki, hélt hún ótrauð áfram. Vildi hitta fólk og fá innlit í Miðleitið. Ég á eftir að sakna hennar mjög mikið en á hundruð góðra minninga um hana.
Elsku Guðmundur, Margrét og fjölskyldur, hjartans samúðarkveðjur frá okkur Viðari. Minning um yndislega vinkonu lifir.
Anna Kristín og Viðar.
Yndislega Guðbjörg Erla er farin í sumarlandið eftir löng og erfið veikindi. Það er mikil sorg og söknuður hjá okkur systrunum í Rebekkustúkunni nr. 21, Bríeti, en Guðbjörg Erla var systir í stúkunni okkar. Hún var alltaf brosmild, jákvæð og elskuleg við alla og þótti okkur systrunum ákaflega vænt um þessa yndislegu systur okkar. Þær gengu saman í regluna okkar árið 2013 hún og Habbý. Það var mikið lán að þær vinkonurnar tóku þetta skref og gengu til liðs við okkur með sína jákvæðu orku og þann anda sem Oddfellowreglan stendur fyrir. Guðbjörg Erla snerti hjörtu okkar allra með vináttu sinni og kærleika. Við vitum að það hefur verið tekið vel á móti þessari fallegu sál í sumarlandinu. Við systurnar minnumst Guðbjargar Erlu með mikilli hlýju og þökkum ljúfar samverustundir.
Innilegar samúðarkveðjur sendum við til fjölskyldunnar, annarra ættingja og vina.
F.h. systranna í Rbst. nr. 21, Bríeti,
Eydís Egilsdóttir.
Hvernig skyldi það vera að fá að heyra frá lækninum sínum að illkynja krabbamein hafi greinst og lífslíkurnar séu ekki miklar? Þegar Guðbjörg vinkona okkar fékk þann dóm, þá sýndi hún hversu sterk hún var í raun. Hún ætlaði sér að standa uppi sem sigurvegari. Hún gekk á fjöll eins og enginn væri morgundagurinn, lék golf og ferðaðist bæði innanlands og utan. Hún nýtti hverja stund til að gera eitthvað uppbyggilegt, skemmtilegt og eftirminnilegt.
Þegar við horfum yfir farinn veg áttum við okkur á því hversu mikil forréttindi það eru að hafa kynnst Guðbjörgu, þessari einörðu konu. Síðastliðin 15 ár höfum við vinirnir hist í hverjum mánuði og snætt saman á veitingastaðnum Jómfrúnni og köllum okkur Jómfrúarhópinn. Þrátt fyrir ýmsar mótbárur í lífinu, sem sum okkar hafa mætt, hefur hópurinn staðið saman og haldið áfram að hnýta og herða tryggðahnútana.
Þessi samvera hefur verið sannkölluð gleðistund, þar sem mikið var skrafað og hlegið dátt. Guðbjörg nefndi aldrei veikindi sín að fyrra bragði og barmaði sér aldrei. Hláturinn, brosið og kímnigáfa Guðbjargar gerði það að verkum að við hreinlega gleymdum veikindum – nákvæmlega það sem hún vildi. Það var núið sem skipti hana mestu.
Guðbjörg fór ekki varhluta af áföllum. Fyrir utan að missa foreldra sína hafði hún misst systur sína og ungan son. Hún bar harm sinn í hljóði og ákvað að halda áfram að lifa lífinu með jákvæðni að vopni.
Auk þess að ferðast saman og spila golf hérlendis höfum við einnig ferðast erlendis, en Guðbjörg var mikill talsmaður slíkra ferða, sérstaklega eftir að hún greindist. Ein slík ferð var farin í síðasta mánuði, en þegar Guðbjörg tilkynnti forföll á síðustu stundu áttuðum við okkur á alvörunni.
Hér að leikslokum viljum við þakka Guðbjörgu fyrir samfylgdina og trausta vináttu. Megi allir englar heims vernda þig, elsku Guðbjörg. Börnunum og fjölskyldunni sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ásdís Rósa Baldursdóttir og Kristján Gíslason,
Guðný Eiríksdóttir og
Atli Arason, Hrafnhildur Tómasdóttir og Gunnar Rúnar Sverrisson, Jóhanna Halla Þórðardóttir og Rúnar Björgvinsson, Steinunn Helga Björnsdóttir og
Sigurður I. Halldórsson.
Elsku yndislega Guðbjörg mín, nú ertu komin í sumarlandið þar sem hann Diddi þinn hefur tekið á móti þér. Þú saknaðir hans mikið, talaðir oft um hann og sagðir skemmtilegar sögur af honum.
Okkar fyrstu kynni voru í Oddfellowreglunni, þar tókst þú vel á móti öllum nýjum konum. Ég kynntist þér betur þegar við voru settar í fjáröflunarnefnd saman, þessi nefnd náði vel saman og metnaðurinn í okkur var mikill. Við í fjáröflunarnefndinni brölluðum ýmislegt. Við hittumst oft á fundum, fórum út að borða saman, bökuðum saman og hittumst hver hjá annarri og skemmtum okkur saman. Þá sá ég hvað þú og Habbý voru miklar vinkonur, svo einstakar vinkonur. Þið sögðuð okkur skemmtilegar sögur af ykkur og við grenjuðum úr hlátri. Við stofnuðum ásamt Habbý „Göngusystur“ og skipulögðum margar göngur um Reykjavík og nágrenni, tókum stundum með okkur freyðivín, snarl og settumst í grasið og um jólin tókum við með heitt súkkulaði og piparkökur og sungum jólalög, og svo margt fleira. Þetta eru dýrmætar minningar. Þú varst mikill göngugarpur og voru ferðirnar með Habbý ansi margar upp á Úllann. Þú talaðir oft um barnabörnin þín, hvað þú varst stolt af öllum strákunum þínum. Ég kom í kaffi til þín nokkrum dögum áður en þú fórst í sumarlandið og þá varst þú búin að baka döðlubrauð, hafðir ekkert annað að gera, sagðir þú, alltaf svo jákvæð og dugleg. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér.
Blessuð sé minning einstakrar perlu.
Ég vil senda innilegar samúðarkveðjur til allra ástvina Guðbjargar Erlu.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Kærleikskveðja,
Þóra Egilsdóttir.
Minning þín er mér ei gleymd,
mína sál þú gladdir,
innst í hjarta hún er geymd.
Þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Þetta ljóð rúmar allt sem hægt er að segja um góða vinkonu. Að kvöldi 1. júní kvaddi Guðbjörg Erla vinkona okkar eftir erfið veikindi. Það er sárt að kveðja eftir trausta og góða vináttu til 60 ára. Við kynntumst í Hlíðaskóla og það myndaðist fljótt með okkur mikil og góð vinátta sem varði alla tíð. Tíminn stöðvast um stund og minningar hellast yfir hver af annarri.
Við minnumst Guðbjargar með miklum hlýhug og þakklæti en hún var trygg, traust og ávallt til staðar. Hún var glæsileg og mikill fagurkeri, skemmtileg og mikill húmoristi og alltaf hrókur alls fagnaðar. Við vorum saman ásamt fleiri konum í saumaklúbbnum Fjólunum, sem hefur verið saman í hálfa öld, en Guðbjörg var einnig virk í Oddfellow-reglunni og þar eignaðist hún margar góðar systur.
Guðbjörg naut útivistar, var í golfi og gönguhópum, fór á skíði og elskaði Úlfarsfellið en það var hennar heilun. Já, hún naut lífsins og notaði tímann vel. Við vinkonurnar höfum ferðast mikið saman og þá var nú mikið glens og gaman. Við höfðum gaman af því að sjá fallega staði og við tölum nú ekki um hvað það var gaman að fá sér í tána saman. Einnig fórum við með fjölskyldurnar í ferðir innanlands og utan og það var mikil væntumþykja milli barna okkar. Guðbjörg eignaðist þrjú börn sem hún var mjög stolt af og einnig af tengdabörnunum Hildi og Balla.
Gleðistundirnar voru margar en sorgin barði að dyrum þegar yngsta barnið hann Diddi lést skyndilega 24 ára gamall. Tvö eldri börn hennar, Mummi og Magga, eru flottir og sterkir einstaklingar og hún var ávallt vakandi yfir þeirra velferð. Hennar hjartans mál var að börnin kæmust vel til manns og hafa þau náð góðum árangri í lífinu. Seinna komu svo barnabörnin, fimm strákar sem hún elskaði og þeir elskuðu ömmu Guggu. Það var mikið áfall þegar hún greindist fyrst fyrir 17 árum með illkynja sjúkdóm sem meðferðir hjálpuðu til að vinna á. Annað áfall varð svo um vorið fyrir fimm árum þegar hún greindist aftur með illkynja sjúkdóm en væntingar og vonir brugðust þó svo að færustu aðstoðar nyti við. Á milli meðferða hafði hún daglegt líf eins eðlilegt og hægt var og lét ekkert stoppa sig í sinni útivist og sínum áhugamálum. Þvílíkt æðruleysi og ótrúleg vinkona. Síðastliðið ár varð svo erfiðara en meðferðir skiluðu ekki þeim árangri sem skyldi og heilsu hennar hrakaði og vissum við allar að það væri að styttast í kveðjustund.
Elsku vinkona okkar, við erum þakklátar fyrir allt sem við áttum saman og það er með sárum söknuði að við kveðjum þig. Elsku Mummi, Hildur, Magga, Balli og strákarnir, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur, ykkar missir er mikill. Megi Guð varðveita allar góðar minningar um góða vinkonu.
Orð milli vina gera daginn góðan.
Það gleymist ei en býr í hjarta mér, sem lítið fræ.
Það lifir og verður að blómi
og löngu seinna góðan ávöxt ber.
(Gunnar Dal)
Elísabet Ólafsdóttir (Betta), Hrafnhildur
Helgadóttir (Habbý).
Í dag kveðjum við einstaka vinkonu og sendum henni okkar hinstu kveðju.
Það var fyrir 17 árum að vel valinn hópur mæðgna og vinkvenna lagði land undir fót og hélt til Kaupmannahafnar á tónleika, allt frá þessari fyrstu ferð hefur hópurinn ræktað vinskapinn.
Þar var Kampavínsklúbburinn stofnaður að frumkvæði þeirra Guðbjargar, Ingu Lóu og Habbýjar, sem og löng og trygg vinátta sem er okkur öllum einstaklega kær. Félagsskapnum fylgdu ótal hittingar og mörg ferðalög sem voru oftar en ekki að frumkvæði Guðbjargar.
Samverustundirnar hafa verið margar í gegnum árin og ávallt glatt á hjalla og mikið hlegið. Veislurnar fjölbreyttar og margar, gjarnan var þema og jafnvel svo að allar mættu í búningum sem hafa skapað okkur ógleymanlegar minningar sem í dag eru ómetanlegar.
Guðbjörg var einstök vinkona og með eindæmum skemmtileg. Hún hafði sérstakt lag á því að rækta vinskap og hélt vel utan um hóp okkar kampavínssystra eins og við kölluðum hver aðra, og hún sjálf titluð ein af forystuhrútum hópsins. Það var aldrei lognmolla í kringum Guðbjörgu og krafturinn og lífsgleðin geislaði af okkar konu, hún var einstaklega falleg fyrirmynd og sýndi ótrúlegan styrk í veikindum sínum og lagði sig alla fram um að njóta hvers dags og eiga góðar stundir.
Elskuleg Guðbjörg okkar var einstakur húmoristi og bjó yfir einstökum frásagnar- og leikhæfileikum svo gleðin var að sjálfsögðu við völd þegar kampavínssystur hittust.
Þakklæti er okkur efst í huga á kveðjustund og munum við áfram gleðjast yfir góðum minningum og skála fyrir forystuhrútnum sem nú hefur kvatt okkur.
Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, elsku Mummi, Magga og fjölskyldur.
Hugur okkar er hjá ykkur.
„Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá huga þinn og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín“
(Kahlil Gibran).
Fyrir hönd Kampavínsklúbbsins,
Helga og Gyða.
Það var stórt högg fyrir vinkonu mína og allt hennar nærsamfélag þegar hún fékk dóm um alvarleg veikindi, ólæknandi krabbamein á 4. stigi, fyrir rúmum fimm árum. Það hefur á hinn bóginn verið mikill lærdómur að fylgjast með því hvernig hún tókst á við þessa stöðu og tel ég að allir hennar bestu mannkostir hafi sprungið út þannig að hún lifði áfram innihaldsríku og góðu lífi þar sem samferðamenn hennar og vinir slógust um að fá að taka þátt.
Það er svo margt sem hefur farið í gegnum hugann eftir andlát hennar og eitt af því sem ég hef staldrað við er vináttan, því það er óhætt að segja að Guðbjörg hafi verið mjög vinmörg og ræktaði vináttuna af svo mikilli ástríðu.
Ég hef verið að hugsa um það að vinátta er sannarlega eitt það eftirsóknarverðasta í lífinu og enginn getur átt gott líf án vináttu við annað fólk. Vinátta er auðvitað af ýmsum toga og stundum er sagt að besta og sterkasta vináttan verði til þegar til hennar er stofnað í æsku. Það á þó ekki við um vináttu okkar Guðbjargar því þótt við höfum þekkst frá yngri árum, þá hófst sú djúpa vinátta sem við náðum að þróa með okkur fyrir aðeins um 10 árum.
„Vinátta er ein sál, sem sest hefur að í tveimur líkömum“ sagði gríski heimspekingurinn Aristóteles fyrir margt löngu og það er nákvæmlega þannig sem ég upplifi vináttu okkar Guðbjargar.
Vinátta okkar var yndisleg, hún var gefin af heilum hug og gleði, hún umlukti okkur.
Vinátta okkar var afl, bönd sem við bundum í trausti og kærleika.
Hún var sambland af væntumþykju, trúnaði og virðingu.
En ég hef einnig verið að hugsa um hina mörgu mannkosti Guðbjargar og þá koma lýsingarorðin alltaf upp í hástigi. Guðbjörg var glæsileg og geislandi og húmorinn var aldrei langt undan. Auk þess var hún afar umhyggjusöm og jákvæð. Hún hafði svo mikla ástríðu fyrir lífinu og snerti líf svo margra á fallegan hátt.
Ég er að hugsa um konu sem lifði lífinu af svo miklum krafti og áræði alveg fram í andlátið að fáa þekki ég jafningja hennar í þeim efnum.
Því miður get ég ekki fylgt minni góðu vinkonu síðasta spölinn og tekur það mig sárt. En ég hugsa til innilegra samtala okkar þar sem við vorum sammála um að við ættum að setja lífið í forgang og mér finnst eins og ég geti heyrt elskulega vinkonu mína hvísla að mér þessu fallega ljóði:
Vertu ekki grátinn við gröfina mína
góða, ég sef ekki þar.
Ég er í leikandi ljúfum vindum,
ég leiftra sem snjórinn á tindum.
Ég er haustsins regn sem fellur á fold
og fræið í hlýrri mold.
Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,
ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.
Ég er árblik dags um óttubil
og alstirndur himinn að nóttu til.
Gráttu ekki við gröfina hér –
gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.
(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir)
Sporin sem hún skilur eftir sig eru mörg og mörg þeirra hefur hún markað í mitt hjarta. Þau mun ég varðveita sem gimsteinar væru.
Ástvinum öllum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur og segi: Þökkum það líf sem Guðbjörg átti, og fyrir fordæmið sem hún gaf með því að lifa lífinu vel.
Ásdís Rósa.