Einar Þorsteinsson
Einar Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjármál Reykjavíkurborgar eru sífellt fréttaefni, en Örn Arnarson fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins finnur að því að margir fjölmiðlungar virðist telja mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga huglægt fremur en að tölur og staðreyndir fái að tala sínu máli

Fjármál Reykjavíkurborgar eru sífellt fréttaefni, en Örn Arnarson fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins finnur að því að margir fjölmiðlungar virðist telja mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga huglægt fremur en að tölur og staðreyndir fái að tala sínu máli.

Fáir hafi minnst á að 15 ma.kr. lán Þróunarbanka Evrópuráðsins til Reykjavíkurborgar sé rekstrarlán, sem endurspegli alvarlega fjárhagsstöðu hennar. Bankinn telji að vísu að það eigi að renna til félagslegrar aðlögunar skólastarfs í viðkvæmu samfélagi, en Einar Þorsteinsson borgarstjóri segi innfæddum að það fari í viðhald vegna myglu.

Útsvar ætti undir eðlilegum kringumstæðum að standa undir viðhaldi, en lántaka í evrum með tilheyrandi gjaldeyrisáhættu tæplega fyrsti kostur. Borgin eigi hins vegar erfitt með fjármögnun á innlendum skuldabréfamarkaði, bankarnir geti ekki lánað henni meira vegna áhættustýringar, en yfirdrátturinn kominn í 14 ma.kr.; álíka mikið og þróunarlánið.

Örn segir engan vafa lengur um grafalvarlega fjárhagsstöðu Reykjavíkur: „Tilkynning borgarinnar um að Perlan, ónýtt asbesthús í Elliðaárdal og nokkur bílastæði niðrí bæ séu nú til sölu, [ætti] að eyða honum endanlega. Það fé sem borgin kemur til með að fá fyrir þessar eignir mun rétt eins og lánið frá Þróunarbankanum renna í þá hít sem rekstur borgarinnar er orðinn.“