Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Með því að varðveita og efla íslenska tungu erum við að leggja okkar af mörkum til heimsmenningarinnar og stuðla að fjölbreytni hennar.

Vilhjálmur Bjarnason

Það er illt til þess að vita að íslenskan skuli ekki hafa náð því að verða alheimstunga. Þó er það svo að skáldið Einar Benediktsson hefur fullyrt það að:

„Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“

Það eru til aðrar þjóðir sem eiga mikið undir því að selja afurðir sínar og að afurðirnar séu kynntar á skiljanlegan hátt. Íslendingar hafa ekki leitt hugann að slíkum erfiðleikum við sölu á þorski, síld og makríl. Íslenskur framleiðandi sér um framleiðsluna en einn stór kaupandi hefur lagað leiðbeiningar fyrir neytendur, hver á sínum markaði.

Hver vill eiga farsíma með leiðbeiningar á mandarínkínversku eða máli Víetnama? Alveg óbrúklegir hér í landi, en verða brúklegir vegna „lingua franca“, sem heitir enska.

Það var eitt sinn að ritari átti þátt í því að gleðja utanríkismálanefnd Diet, japanska þingsins, með því að afhenda nefndarmönnum ályktun Alþingis um fríverslun við Japan á japönsku. Það var mikil virðing við japönsku þjóðina. Og ekki síður þegar japanskir þingmenn heimsóttu Alþingi og fengu að gjöf ljóð eftir Tómas Guðmundsson á þeirra þjóðtungu:

Japanskir morgnar mjúkri birtu stafa

á marardjúpin fyrir hvítum sandi.

Og ungir sveinar ýta bát frá landi

og eftir hafsins dýru perlum kafa.

Siðskipti og lærdómsmenn

Guðbrandur biskup Þorláksson, afi minn í ellefta lið, vissi mætavel að kristindómurinn gengi betur í alþýðu með því að hafa hann á máli sem allir skildu. Guðbrandur þýddi biblíuna úr þýsku á íslenska tungu skömmu eftir siðaskipti. Þýðingin er á máli sem skilst 450 árum síðar. Sennilega þýðing Guðbrandar afa míns.

Íslenskir lærdómsmenn þýddu biblíuna úr frummálunum og gáfu út í Viðey árið 1841.

Þá hljóðar 10. Kafli predikarans svo:

Eins og dauðar flugur með sínum þef skemma apótekarans salve, svoleiðis getur lítið heimskupar orðið þyngra en vísdómur og heiður. Hyggins manns hjarta er honum til hægri handar; en dárans hjarta er honum við vinstri hlið. Hvörja leið sem dárinn fer, vantar hann vit, og uppljóstrar því við hvörn mann, að hann sé dári.“

Hér eru lærdómsmennirnir komnir með mikinn vísdóm hjá staðsetningu hjartans hjá hyggnum mönnum, til hægri, en „dárans hjarta“ er honum við vinstri hlið.

Allt í einu varð hægra og vinstra viðkvæmt mál. Í þýðingu Biblíunnar frá 1981 er textinn orðinn svona:

Dauðar flugur valda ódaun með því að hleypa ólgu í olíu smyrslarans. Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum heldur en viska, heldur en sómi. Hjarta viturs manns stefnir á heillabraut, en hjarta heimskingjans leiðir hann í ógæfu. Og þegar aulinn er kominn út á veginn, brestur og á vitið, og hann segir við hvern mann, að hann sé auli.“

Það sem var hægra verður heillabraut en það sem var vinstra verður í ógæfu.

Rithöfundar og heimurinn

Nokkrir íslenskir rithöfundar ætluðu að skrifa fyrir heiminn. Einn þeirra, Halldór Kiljan Laxness, kaus að skrifa á íslensku, því máli sem amma hans kenndi honum og á því máli, sem honum voru sagðar sögur.

Það hefur löngum verið mér umhugsunarefni hvernig gengur að þýða sögur Halldórs Kiljan Laxness á aðrar þjóðtungur. Helst safinn úr sögunni og málinu?

Nærtækt er að líta til ræðu skáldsins á Nóbelshátíð 1955. Ræðan var flutt á sænsku en hugsuð á íslensku. Svona er lítill bútur úr ræðunni á íslensku, með safa:

„Ég spurði mig þetta umrædda kvöld: hvað má frægð og frami veita skáldi? Vissulega velsælu af því tagi sem fylgir hinum þétta leir.“

Í enskri þýðingu á vef Nóbelsstofnunarinnar er þessi bútur sem hér segir:

As I was sitting in my hotel room in Skåne, I asked myself: what can fame and success give to an author? A measure of material well-being brought about by money? Certainly.“

Hinn „þétti leir“ verður „a measure of material well-being“. Allir skilja efnisleg gæði úr „þéttum leir“.

Á meðan íslensk þjóð á svona myndríkt mál er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af íslenskri tungu.

Nýjar þýðingar

Um þessar mundir eru að koma út á ítölsku 200 þjóðsögur úr safni Jóns Árnasonar á ítölsku. Ekki er ég viss um að Jón hafi reiknað með því að sögur hans um drauga og hindurvitni yrðu til útflutnings 160 árum eftir að þær komu fyrst á prenti.

Á sama hátt tel ég fráleitt að Milton hafi reiknað með því að Paradísarmissir yrði þýddur í rafmagnsleysi í Hörgárdal og aftur þýddur við rafmagn á Akureyri 200 árum síðar.

Og skáldin yrkja

Við lýðveldisstofnun, fyrir 80 árum, ortu skáldin:

Hver á sér fegra föðurland,

með fjöll og dal og bláan sand,

með norðurljósa bjarmaband

og björk og lind í hlíð?

Með friðsæl býli, ljós og ljóð,

svo langt frá heimsins vígaslóð.

Geym, drottinn, okkar dýra land

er duna jarðarstríð.

Og:

Land míns föður, landið mitt,

laugað bláum straumi,

eilíft vakir auglit þitt

ofar tímans glaumi.

Þetta auglit elskum vér,

– ævi vor á jörðu hér

brot af þínu bergi er,

blik af þínum draumi.

Nokkru síðar var ort til ættjarðarinnar:

Bláir eru dalir þínir,

byggð mín í norðrinu,

heiður er þinn vorhiminn,

hljóðar eru nætur þínar,

létt falla öldumar

að innskerjum,

– hvít eru tröf þeirra.

Þöglar eru heiðar þínar,

byggð mín í norðrinu.

Huldur býr í fossgljúfri,

saumar sólargull

í silfurfestar vatnsdropanna.

Sæl verður gleymskan

und grasi þínu,

byggð mín í norðrinu,

því sæl er gleymskan

í fangi þess

maður elskar.

Ó bláir eru dalir þínir,

byggð mín í norðrinu.

(Hannes Pétursson 1951)

Á meðan íslensk skáld og rithöfundar yrkja og skrifa, og bókmenntamenn þýða heimsbókmenntir af og á íslensku, þá verður tungan töluð. Það er okkar að styðja við og njóta. Með því að varðveita og efla íslenska tungu erum við að leggja okkar af mörkum til heimsmenningarinnar og stuðla að fjölbreytni hennar. Þegar ég sé og heyri fegurðina, þá fyrirgef ég.

Gleðilega lýðveldishátíð.

Höfundur var alþingismaður.