Lögreglan Rafvarnarvopn verða aðgengileg hjá öllum embættum, geymd í læstum hirslum, en notkunarheimild bundin við menntaða lögreglumenn.
Lögreglan Rafvarnarvopn verða aðgengileg hjá öllum embættum, geymd í læstum hirslum, en notkunarheimild bundin við menntaða lögreglumenn. — Morgunblaðið/Eggert
Lögreglan hefur ekki enn tekið rafvarnarvopn í notkun, en þess er vænst að fyrir lok sumars geti slík vopn orðið hluti af búnaði lögreglu. Þetta kemur fram í svari Helga Valbergs Jenssonar, yfirlögfræðings hjá embætti ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn Morgunblaðsins

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Lögreglan hefur ekki enn tekið rafvarnarvopn í notkun, en þess er vænst að fyrir lok sumars geti slík vopn orðið hluti af búnaði lögreglu. Þetta kemur fram í svari Helga Valbergs Jenssonar, yfirlögfræðings hjá embætti ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Segir hann að lögreglumenn hafi verið í þjálfun í notkun búnaðarins frá því í lok síðasta árs. Byrjað hafi verið á að þjálfa sérstaka þjálfara í notkun búnaðarins sem síðan önnuðust þjálfun annarra lögreglumanna. Námskeið þjálfara segir Helgi Valberg taka þrjá daga og standa yfir í alls 30 klukkustundir, en námskeið almennra lögreglumanna taka tvo daga og vara í 20 klukkustundir.

Spurður undir hvaða kringumstæðum lögreglu verði heimilt að beita slíkum vopnum vísar hann til gildandi reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð valdbeitingartækja og vopna, þar sem segir að lögregla skuli ekki grípa til valdbeitingar nema nauðsyn krefji og stig hennar skuli vera í samræmi við aðstæður hverju sinni. Ávallt skuli gæta meðalhófs við valdbeitingu. Sé valdi beitt ber að geta í lögregluskýrslu hvers eðlis valdbeitingin var og ástæður þess að henni var beitt.

Hvað rafvarnarvopn varðar þá sé heimilt að nota þau þegar heimilt sé að nota úðavopn eða kylfu, sé talið að slíkur búnaður eða vægari aðgerðir dugi ekki til að yfirbuga viðkomandi.

Spurningu um hvaða sveit lögreglumanna muni hafa heimild til notkunar rafvarnarvopna svarar Helgi Valberg að slík vopn séu hluti af búnaði lögreglu og heimildin ekki bundin við sérstakar deildir eða embætti. Aðeins lögreglumönnum, sem hafa lokið lögreglunámi og fengið tilskilda þjálfun í notkun rafvarnarvopna, verði heimilt að bera þau og nota samkvæmt gildandi reglum.

Rafvarnarvopn verða aðgengileg hjá öllum lögregluembættum og ber að geyma í læstum hirslum á lögreglustöð, á milli þess sem þau eru skráð til notkunar og afhent lögregluþjóni. Þau eru ekki flokkuð sem hefðbundin skotvopn samkvæmt gildandi reglum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson