Svava Svavarsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 29. febrúar 1956 og ólst þar upp. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 23. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Svavar Þórðarson, f. 11. febrúar 1911, d. 10. janúar 1978, og Þórunn A. Sigjónsdóttir, f. 26. febrúar 1913, d. 25. júlí 1998. Svava var næstyngst systra sinna. Þær eru: Edda Sigrún, f 1. janúar 1936, d. 29. júní 2011, gift Garðari Gíslasyni, f. 22. júní 1931, d. 17. júní 2013; Dóra, f. 12. maí 1942, d. 3. febrúar 2004, gift Halldóri Pálssyni, f. 10 apríl 1939, d. 29 september 2014; Rikka, f. 13. maí 1945, d. 5. október 2020, eftirlifandi maki Hrafn Oddsson, f. 2. nóvember 1945, búsettur í Vestmannaeyjum; Áslaug, f. 9. júní 1948, gift Ingvari Vigfússyni, búsett í Reykjavík; Svava, sem hér er minnst; Sif, f. 7. júlí 1957, gift Stefáni Sævari Guðjónssyni, búsett í Vestmannaeyjum.

Fyrri eiginmaður Svövu er Bjarni Guðmundsson og eignuðust þau tvö börn. Þau eru: 1) Þórunn Elsa, f. 12. júní 1975, gift Agli Gómez, f. 23 október 1973, börn þeirra eru tvö, Guðrún Svava Gómez, f. 11. apríl 1995, sambýlismaður Jón Bragi Brynjólfsson, barn þeirra er Valdimar Elí, f. 8. nóvember 2023, og Bjarni Þór Gómez, f. 7. janúar 1997. 2) Guðmundur Ingi, f. 18. júlí 1979.

Eiginmaður Svövu er Egill Ásgrímsson pípulagningameistari, f. 31.desember 1955. Egill og Svava hófu sambúð árið 1985. Eignuðust þau þrjú börn, þau eru: 1) Agla, f. 15. júlí 1989. 2) Dóra Sif, f. 13 júlí 1991, gift Þorláki Sigurjónssyni, f. 13 október 1991, börn þeirra eru Sigurjón Andri, f. 11. júlí 2013, Sigtryggur Egill, f. 16. maí 2019, Díana Sif og Sigurdís Sif, f. 15. nóvember 2022. 3) Ásgrímur Gunnar, f. 1. desember 1993. Frá fyrra hjónabandi á Egill tvær dætur, þær eru: 1) Heiða Björk, f. 7. febrúar 1977, börn hennar eru Hrafney Karlsdóttir, f. 16. júlí 2006, og Arney Karlsdóttir, f. 19. ágúst 2008. 2) Ebba, f. 3. febrúar 1980.

Hún starfaði á skrifstofunni hjá Sprinkler pípulögnum sem þau hjónin áttu saman.

Útför Svövu fer fram í Digraneskirkju í dag, 14. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma.

Ég trúi því varla að þú sért farin í draumlandið, þetta er svo óraunverulegt. Þú varst svo ung og alls ekki tilbúin til þess að fara frá okkur en líkaminn gat ekki meir. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér í draumlandinu. Ég sakna þín svo mikið og er alltaf að hugsa til þín, ég tel mig vera mjög heppna með þig sem mömmu og líka sem vinkonu, við náðum alltaf svo vel saman og gátum spjallað um allt á milli himins og jarðar. Það voru bara 19 ár á milli okkar og mér fannst ómetanlegt að eiga svona unga mömmu, sérstaklega á mínum unglingsárum, þú varst alltaf töff klædd og flott mamma sem ég var mjög montin af. Þú leyfðir mér að njóta þess að vera unglingur og alltaf treystir þú mér, þú varst sanngjörn en samt ákveðin. Það var alltaf gagnkvæm virðing á milli okkar. Þegar ég tók upp á því á mínum unglingsárum að kalla þig múttu, þá tókstu bara mjög vel í það og ég hef síðan þá nánast alltaf kallað þig múttu mína.

Eftir að þið fluttuð á Vatnsendann í litla, krúttlega timburhúsið í sveitinni varstu alveg í skýjunum. Þið gerðuð húsið að ykkar, stækkuðuð það með því að byggja við það, smíðuðuð sólpalla, löguðuð garðinn og það var yndislegt að koma til ykkar, í grillmat, afmælisveislur og jólaboð. Oft vorum við öll fjölskyldan í garðinum á góðum sumardögum.

Í mínum huga er fjölskyldan mikilvægust, hún stendur alltaf með manni í gegnum erfið og góð tímabil. Ég er svo þakklát fyrir það hvað við erum stór og náin fjölskylda og þú átt heiðurinn af því elsku mamma. Því án þín værum við ekki svona stór fjölskylda. Þú varst mjög ung amma, elskaðir öll barnabörnin þín og varst mjög dugleg að passa þau, þau elskuðu að vera í sveitinni hjá ömmu og afa. Stór garður, trampólín í garðinum, heitur pottur og allt til alls. Þú varst alltaf að dunda í húsinu bæði að utan og innan og elskaðir að vera með lifandi blóm í garðinum.

Þann 9. febrúar 2017 fengum við fjölskyldan áfall þegar þú fékkst heilablóðfall og varst á gjörgæsludeild, það var óljóst hvort þú myndir lifa það af og hvort þú myndir ná þér ef þú myndir lifa af. Þetta var mjög erfiður tími fyrir okkur öll í fjölskyldunni, en þú elsku mamma gafst ekki upp og þurftir að læra nánast allt upp á nýtt. Ég er svo þakklát að hafa fengið að hafa þig áfram hjá okkur og þrátt fyrir allt sem þú gekkst í gegnum þá breyttist aldrei húmorinn, allar fyndnu sögurnar og brandararnir sem þú sagðir og það sem við gátum hlegið saman. Þú varst líka svo ung í anda að þegar ég tilkynnti þér að þú værir að verða langamma þá sagðir þú upphátt „langamma“. En þú hafðir svo gaman af Valdimar Elí og við skoðuðum oft myndir og myndbönd af honum saman þegar ég kom til þín í heimsókn. Þú spurðir alltaf hvernig gengi hjá öllum og sagðir alltaf: „Ég bið að heilsa.“ Þér var alltaf svo umhugað um alla.

Hvíldu í friði og takk fyrir allt elsku mútta mín, ég mun alltaf sakna þín, hugsa til þín og halda minningu þinni á lofti.

Við eigum eftir að hittast og knúsast þegar minn tími kemur.

Þín dóttir,

Þórunn Elsa Bjarnadóttir.

Elsku mamma mín, ég sakna þín mikið. Sakna þess að knúsa þig og kyssa þig á ennið. Sakna þess að segja „hæ elsku mamma mín“ og þú svarar á móti „hæ elskan mín, ertu komin til mín?“ Sakna þess að koma með börnin til þín í heimsókn og spjalla við þig um allt og ekkert. Við áttum margar góðar stundir saman þegar ég kom með börnin og við yfirtókum setustofuna með barnadóti. Það voru stundum læti í okkur en þér fannst svo gaman að hitta barnabörnin þín. Ömmustoltið leyndi sér ekki. Það var svo gott að koma til þín, ég var stundum þreytt og talaði um börnin og álagið heima. Þú sagðir oft: „Ég skil þig svo vel en þau stækka svo fljótt“ og þú sagðir mér sögur af mér, Öglu og Ása þegar við vorum lítil.

Þú varst alltaf með fyndna húmorinn þinn. Ég hugsa oft til þín af því þú og pabbi voruð með mörg börn og stórt heimili og alltaf nóg að gera og nú er ég og Þorlákur í ykkar sporum. Mamma, ég á þér allt að þakka. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur systkinin, hvattir okkur til að fara eigin leiðir. Þú hjálpaðir okkur og stóðst alltaf með okkur sama hvað. Ég man þegar ég var að fara að fermast og var á mótþróaskeiði, ég vildi nefnilega alls ekki velja mér föt eins og allar hinar stelpurnar, hvítur kjóll og hælaskór. Ég valdi mér brúna skyrtu, grænt pils, fjólubláar sokkabuxur og brúnar mokkasíur. Þér fannst ég vera æðisleg og keyptir fötin á mig og varst ánægð að ég skyldi hafa valið mér föt sem mig langaði að vera í, þrátt fyrir að vera ólík öllum öðrum fermingarstúlkum.

Elsku mamma, þú þurftir að ganga í gegnum allskonar áföll á lífsleiðinni þinni, þú sýndir okkur í hvert skipti hversu ótrúlega sterk þú varst, þú gafst aldrei upp. Við erum svo þakklát fyrir tímann sem við fengum að hafa þig lengur hjá okkur og fyrir þær mörgu góðu minningar saman. Þegar við fórum til Tene saman, ég, þú, Þorlákur og pabbi. Ég var ólétt að stelpunum. Þú og pabbi leigðuð ykkur tveggja manna „scooter“. Ég leigði mér líka scooter af því ég átti erfitt með að labba mikið og saman rúntuðum við um alla strandlengjuna og Þorlákur á eftir okkur. Við fórum á veitingastaði, í fótsnyrtingu, búðaráp og fleira skemmtilegt. Þú keyptir þér bleik föt af því að þú elskaðir bleikan og það geri ég líka. Bleikur er okkar litur. Þú varst alltaf svo fín. Algjör skvísa, vinkonur mínar sögðu oft við mig „mamma þín er svo mikil skvísa.“

Ég og Þorlákur elskum þig af öllu hjarta, þú tókst svo vel á móti honum. Ég man þegar hann kom heim í fyrsta skipti, við vorum bara 15 ára að verða 16, þú eldaðir fyrir okkur heimagerða pizzu. Ég og Þorlákur rifjum stundum upp þessa stund saman. Þú tókst fullt af myndum af okkur eins og þér var lagið. Þú varst æðisleg, elsku mamma. Ég og Þorlákur munum halda áfram að tala um þig og halda minningu þinni á lofti um ókomna tíð. Sigurjón Andri, Sigtryggur Egill, Díana Sif og Sigurdís Sif munu fá að heyra sögur af þér og hversu mikið þú elskaðir okkur öll. Ég elska þig mamma mín og eins og þú sagðir alltaf til baka: „Ég elska þig meira.“

Hvíldu í friði, elsku mamma. Þín dóttir,

Dóra Sif Egilsdóttir.

Elsku mamma mín.

Þú með þitt stóra hjarta!

Kletturinn minn, mamma mín, þú skrifaðir mér skilaboð. Skilaboð sem eru mér svo kær. Þú sagðir: „ Elsku Agla Egils, vertu þú sjálf, ekki láta aðra hafa áhrif á drauma þína, þú hefur allt. Láttu þína drauma rætast. Þetta er þitt líf og enginn er fullkominn. Þú ert best. Elska þig meira!

Við ræddum í síman á hverjum degi um heima og geima eða bara allt og ekkert, það var svo gott að heyra röddina þína, svo varstu vön að spyrja mig: Ertu ekki svöng?

Þú vissir alveg að ég myndi segja já!

Þá læddumst við á Hornið. Það var okkar leyndarmál.

Fólk var oft að grínast að það hefði gleymst að klippa á naflastrenginn hjá okkur. Okkur var alveg sama enda mjög líkar, ég svo lík þér að það var eins og þú hefðir snýtt mér úr nefinu þínu.

Það besta sem ég veit var að leggjast við hliðina á þér í rúminu og þú tókst í höndina mína, við vorum að horfa á Glæstar vonir og hlógum og hneyksluðumst á henni Brook, með hverjum ætli hún sé núna?

Það voru þó nokkur skiptin sem þú opnaðir inn í herbergi til mín: „ Agla mín, ertu vakandi?“ Þú hafðir verið að horfa á hryllingsmynd og náðir ekki að sofna, þá helltir þú upp á kaffi jafnvel þótt klukkan væri að ganga tvö eftir miðnætti, svo sátum við í eldhúsinu og við hlógum og gerðum grín þangað til við gátum báðar farið að sofa með bros á vör og engin skrímsli undir rúminu.

Elsku mamma mín, þú varst svo dugleg og góð með okkur öll börnin þín, þú varst ákveðin, það mátti sko alls ekki segja kannski: „Ég geri sko engan mat með kannski“ það er bara já eða nei, þetta var það fyrsta sem vinir okkar lærðu líka mjög fljótlega, það þýðir ekkert að segja kannski við mömmu. Já takk, mamma mín, við erum alveg til í það.

Hvað þú varst fyndin, alltaf til í létt grín og stutt í húmorinn, stundum svolítið skessulegur en það er í okkar fari, þínu og mínu, við getum verið svolitlar skessur, mamma mín, það er allt í lagi, það fer okkur bara ágætlega, við hlæjum svo hátt báðar tvær. Það allra fyndnasta var þegar þú varst að leika einn af þínum uppáhaldssöngvurum, þú settir puttann á nefið og lyftir því upp og trallaðir.

Ég keypti risastórt ilmkerti og dreif mig heim til að kveikja á því, þú vildir alltaf hafa ilmkerti, jafnvel mörg. Ég geri það líka núna héðan í frá, ilmkerti minna mig á þig og allir heimsins bleikir litir, bleikar rósir. Við sungum ekki röndótta mær það var rósettumær. Eitt sinn var ég á ferðalagi og hugsaði svo mikið til þín að ég kom heim með allt bleikt í töskunni.

Mamma mín, ég sakna þín. Mig langar að leggjast við hliðina á þér og halda í hönd þína og þú strýkur mér blíðlega.

Ég er með kveikt á ilmkertinu, ég er að hlusta á lagið okkar, ég finn fyrir þér hjá mér, ég veit að þú vakir yfir okkur og þú lifir í hjarta okkar.

Ég elska þig meira!

Ég brosi er ég heyri þau syngja þetta lag

og með von og trú,

í veröldinni nú,

við getum lifað ég og þú.

(Þýð. Kristján Hreinsson)

Agla Egilsdóttir.

Elsku Svava mín.

Þú komst inn í líf okkar Ebbu þegar ég var tíu ára og Ebba sjö ára. Fyrir áttir þú tvö yndisleg börn, Gumma og Þórunni. Þið pabbi eignuðust fljótlega þrjú börn og á svipstundu urðum við þannig ein stór fjölskylda með fullt af krúttlegum, litlum, sætum systkinum.

Okkur Ebbu fannst dásamlegt að koma í heimsókn og sjá Öglu og Ása koma hlaupandi á móti okkur og Dóru Sif hanga í pilsfaldinum þínum, brosandi út að eyrum. Á þessum tíma vorum við alls sjö börnin í Svarthömrum aðra hverja helgi og ótrúlegt til þess að hugsa hvað öllum samdi vel. Held að það hafi verið mikið til þér að þakka.

Það var líka spennandi tími þegar þið pabbi keyptuð húsið á Vatnsendanum, sem var hálfgerð sveit í borg. Þar undir þú þér vel, elskaðir að vinna í garðinum og dytta að húsinu. Það má með sanni segja að þú hafðir græna fingur alveg fram í fingurgóma og varst mikil listakona.

Grillveislurnar og aðrar samkomur fjölskyldunnar á Vatnsendanum eru í hópi okkar bestu minninga. Þar var mikið sungið, dansað og hlegið hátt. Svo hátt að stundum var þér hreinlega misboðið og þá léstu í þér heyra, enda hafðir þú góð tök á þessum stóra hópi og hélst uppi kærkeiksríkum aga.

Elsku Svava okkar, takk fyrir að gefa okkur Ebbu þessar fallegu minningar. Við elskum þig, þínar dætur, Heiða Björk og Ebba.

P.S.

Þegar ég loka augunum og hugsa til þín, Svava mín, sé ég þig fyrir mér í fallegum bleikum kjól, umkringda blómum og þú spyrð mig með mildu brosi á vör: „Get ég gert eitthvað fyrir þig, Heiða mín?”

Heiða Björk Egilsdóttir, Ebba Egilsdóttir.

Elsku Svava.

Það eru liðin 36 ár síðan við kynntumst. Ég nýkomin til landsins og orðin stjúpa Þórunnar og Guðmundar Inga. Við ákváðum fljótlega, án þess að ræða það neitt frekar, að vera ekki með neitt vesen. Enda í hag barnanna að vera vinir og koma vel fram hvert við annað. Það var ekkert því til fyrirstöðu að droppa inn í kaffi, passa börnin sem bættust í hópinn og taka mikilvægar ákvarðanir saman. Mér er minnisstætt að fá lánaða stelpukjóla fyrir Elísabetu, á sumrin fékk hún að gista með Dóru Sif þar sem þær voru orðnar vinkonur og einnig minnist ég þó nokkuð margra símtala sem við áttum saman í gegnum tíðina. Þannig hefur vináttan milli barnanna okkar vaxið og fjölskylda okkar beggja stækkað.

Mig langar sérstaklega að þakka þér fyrir Gumma. Fyrir að treysta okkur Bjarna til að hafa þennan sannkallaða sólargeisla hjá okkur. Það er ekki sjálfgefið og erum við þér afar þakklát fyrir það.

Það var svo dýrmætt þegar þú komst til Ólafsfjarðar í heimsókn til Gumma. Þið áttuð svo góðar stundir saman áður en þú veiktist. Við fylgdumst með þér héðan að norðan, fórum í heimsókn til þín á Grensás á sínum tíma og á Grund núna síðast fyrir jól.

Nú er jarðvist þinni lokið en þú lifir áfram í börnum þínum og barnabörnum.

Við Bjarni munum hlúa vel að þeim og halda minningu þinni á lofti.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri' er öllu' í heimi.

(G. Guðm.)

Kveðja,

Ida, Bjarni og fjölskylda.