Atvinnurekstur Lögfræðingur segir að lögin geri fátt annað en að flækja rekstrarumhverfi fyrirtækja.
Atvinnurekstur Lögfræðingur segir að lögin geri fátt annað en að flækja rekstrarumhverfi fyrirtækja. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráð telja ámælisvert að Neytendastofa verði gerð að sjálfstæðu stjórnvaldi og stofnuninni verði veittar víðtækar heimildir til rannsókna og…

Sveinn Valfells

sveinnv@mbl.is

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráð telja ámælisvert að Neytendastofa verði gerð að sjálfstæðu stjórnvaldi og stofnuninni verði veittar víðtækar heimildir til rannsókna og útdeilingar refsinga gegn fyrirtækjum og atvinnurekendum.

Þetta kemur fram í sérstakri umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar vegna stjórnarfrumvarps Lilju Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, til nýrra markaðssetningarlaga. Umsagnaraðilarnir telja einnig vísvitandi gengið lengra en EES-reglur kveði á um, auk þess sem frumvarpið sé ekki til þess fallið að einfalda regluverk á neinn hátt.

María Guðjónsdóttir, lögfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að vissulega sé jákvætt að setja eigi heildarlöggjöf í málaflokknum. Hins vegar sé of langt gengið í refsigleði og margt í hinum nýju lögum sé alltof óljóst. Lögin geri því fátt annað en að flækja rekstrarumhverfi fyrirtækja. Því fylgi fyrir vikið ærinn kostnaður fyrir atvinnurekendur en einnig hið opinbera.

„Það er mjög mikilvægt að reglurnar séu skýrar, bæði fyrir atvinnurekendur en ekki síður neytandann. Fólk reynir almennt að framfylgja lögunum og stunda góða viðskiptahætti en lögin eru það matskennd og óljós að markmiðum þeirra er einfaldlega ekki náð,“ segir María.

Tálbeituaðgerðir

Í nýju lögunum er m.a. lagt bann við auglýsingum á öðrum tungumálum en íslensku. Einnig er fjallað um óréttmæta viðskiptahætti og krafa gerð um að þeir megi ekki raska „fjárhagslegri hegðun hins almenna neytanda.“

Hagsmunaaðilarnir benda á í umsögn sinni að orðalag laganna sé afar óljóst, t.d. þegar komi að verknaðarlýsingum fyrir brot sem séu refsiverð. Til dæmis sé kveðið á um skyldu atvinnurekenda til að viðhafa góða markaðshætti og bann við villandi viðskiptaháttum. Með lögunum fái Neytendastofa heimild til þess að beita húsleitum, haldlagningum og tálbeituaðgerðum gegn atvinnurekendum. Önnur ákvæði laganna byggist þar að auki á reglum sem örðugt sé að leggja mat á og stofnuninni þannig gefið vítt svigrúm til túlkunar laganna, út frá hennar eigin siðferðilegu eða félagslegu mælikvörðum.

Hálfs árs fangelsi

Einnig er gert ráð fyrir að hámarksviðurlög geti numið sektum að andvirði 4% af ársveltu fyrirtækis eða atvinnurekenda, eða allt að tveimur milljóna evra, jafnvirði um 300 milljóna króna, ef upplýsingar um ársveltu liggja ekki fyrir.

Í lögunum er ennfremur ekki gert ráð fyrir að ákvarðanir Neytendastofu verði bornar undir dómstóla, nema að undangengnum úrskurði frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Teljist sakir miklar, eða brot gegn ákvörðunum Neytendastofu ítrekuð, verður þar að auki heimilt að dæma atvinnurekendur í allt að hálfs árs fangelsi.

Frumvarpið í hnotskurn

Bann lagt t.a.m. við auglýsingum á öðrum málum en íslensku og slæmum viðskiptaháttum.

Neytendastofa verði sjálfstætt stjórnvald.

Henni verði heimilt að beita húsleitum, haldlagningum og tálbeituaðgerðum.

Refsingar vegna sumra brota verði 300 milljónir eða sex mánaða fangelsi.

Ekki verður hægt að áfrýja ákvörðunum Neytendastofu beint til dómstóla.

Höf.: Sveinn Valfells