Bragðarefur Guðrún segir að bókin sé sambland af fróðleik og sprelli.
Bragðarefur Guðrún segir að bókin sé sambland af fróðleik og sprelli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Háskólaútgáfan hefur gefið út bókina Bragðaref, með molum úr gömlum textum sætum, súrum og beiskum í samantekt Guðrúnar Ingólfsdóttur. „Frá minni hendi er bókin sambland af fróðleik og sprelli

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Háskólaútgáfan hefur gefið út bókina Bragðaref, með molum úr gömlum textum sætum, súrum og beiskum í samantekt Guðrúnar Ingólfsdóttur. „Frá minni hendi er bókin sambland af fróðleik og sprelli. Ég lít ekki á Bragðarefinn sem fræðibók heldur skemmtibók,“ segir Guðrún, en ritið er það 34. í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Guðrún er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Hún hefur meðal annars áður sent frá sér bækurnar „Í hverri bók er mannsandi“. Handritasyrpur ‒ bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld (doktorsritgerð 2011), Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld (2016), og Skáldkona gengur laus. Erindi 19. aldar skáldkvenna við heiminn (2021).

Molarnir í Bragðarefnum eru einkum úr handritum frá 18. og 19. öld en eiga sér margir lengri sögu. Þar kennir ýmissa grasa. Varpað er ljósi á hugmyndir fólks um aðrar þjóðir, tímann og veðrið, lækningar, galdur, karla og konur og útlitsmörkun, svo dæmi séu tekin. „Útlit manns átti til dæmis að segja til um hvers konar manneskja væri þar á ferð. Útlitseinkenni bæru vott um ákveðna sálræna eiginleika,“ segir Guðrún og bendir á að sjá megi ámóta hugmyndir í tímaritum nútímans. „Við erum ekkert minna fordóma- og hjátrúarfull en fólk var á fyrri tíð.“

Ástríðuviðfangsefni

„Handrit hafa alltaf verið mitt ástríðuviðfangsefni,“ heldur Guðrún áfram. Í doktorsritgerðinni hafi hún skrifað um svokallaðar syrpur, þ.e. handrit með fjölbreyttu efni. Hún hafi tekið fyrir handrit skrifuð af einum skrifara, sem tíndi saman áhugaverðan fróðleik og skemmtiefni, safnaði sér bókasafni í bók. „Þegar ég vann að doktorsritgerð minni skoðaði ég hvernig fólk skipaði ákveðinni þekkingu niður, hverju fólk safnaði, hver var heimsmynd þess og sjálfsmynd, hvað í veröldinni skipti það máli.“

Undanfarin ár hefur Guðrún gramsað í handritum með fjölskrúðugu efni, fróðleik af ýmsu tagi, og byrjað að skrá skemmtilega mola niður. „Þannig varð þessi hugmynd til, að búa í raun til sams konar syrpu og ég hafði sjálf rannsakað í doktorsritgerðinni.“ Hún hafi tínt saman ólíka mola héðan og þaðan til að gefa lesendum innsýn í lesefni fólks á öldum áður, því til fróðleiks og skemmtunar. Fólk hafi ekki bara lesið þjóðsögur, fornsögur og kvæði heldur ótrúlega fjölskrúðugt efni. „Og þó að trúarlegt efni hafi líka verið ríkur þáttur í lesefni fólks þá voru fróðleikur og skemmtiefni það ekki síður,“ segir hún. Veröldin hafi sannarlega ekki bara verið dauf og drungaleg. „Líf fólks á fyrri tíð var miklu litríkara en við viljum vera láta.“

Guðrún leggur áherslu á að hún hafi haft fróðleiks- og skemmtanagildi molanna að leiðarljósi. Bókin sé hugsuð fyrir breiðan hóp lesenda, bæði unga og aldna. Í inngangi bendir hún á að Bragðarefurinn sé syrpa af molum með margvíslegu bragði, settur saman til að kitla bragðlauka nútímafólks. „Ég vil sýna hvað veraldarsýn fólks var fjölbreytt,“ segir hún, „og held að Bragðarefurinn sé upplögð sumarbústaðabók.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson