Sviðlistir Teymið á bak við sviðslistahúsið Afturámóti. Nafnið Afturámóti er fengið úr Sölku Völku eftir Laxness.
Sviðlistir Teymið á bak við sviðslistahúsið Afturámóti. Nafnið Afturámóti er fengið úr Sölku Völku eftir Laxness. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
„Afturámóti er nýtt, íslenskt sviðslistahús sem leggur áherslu á að taka á móti ungu fólki og veita því pláss til að koma list sinni á framfæri án fjárhagslegrar áhættu,“ segir Ingi Þór Þórhallsson, einn stofnenda sviðslistahússins Afturámóti, sem er með aðsetur í Háskólabíói

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

jonagreta@mbl.is

„Afturámóti er nýtt, íslenskt sviðslistahús sem leggur áherslu á að taka á móti ungu fólki og veita því pláss til að koma list sinni á framfæri án fjárhagslegrar áhættu,“ segir Ingi Þór Þórhallsson, einn stofnenda sviðslistahússins Afturámóti, sem er með aðsetur í Háskólabíói.

Félagið stofnaði hann með vinum sínum, Kristni Óla Haraldssyni, betur þekktur sem Króli, og Höskuldi Þór Jónssyni fyrr á árinu en teymið samanstendur einnig af Mána Huginssyni sem var ráðinn inn sem skipulagsstjóri og framleiðandi og Körlu Kristjánsdóttur sem er tæknistjóri og framleiðandi.

Hvernig datt ykkur í hug að stofna sviðslistahús?

„Við vorum að leita að rými fyrir okkar uppsetningar og þau voru af skornum skammti og mörg hver mjög kostnaðarsöm. Við vorum til dæmis búnir að vera að skoða það að leigja skemmu en það hefði verið ótrúlega kostnaðarsamt að breyta henni í leikhús. Um það leyti sáum við að bíóreksturinn var að hætta í Háskólabíói og þá hugsuðum við að þar væri auðvitað umgjörðin til staðar og því talsvert auðveldara að yfirfæra það á leikhúsformið. Við heyrðum í Háskólabíói sem tók vel í þetta,“ svarar Ingi Þór.

Markmiðið með félaginu er að halda úti rými fyrir listsköpun og sýningar en framleiða einnig eigið efni. Teymið er með eigin uppsetningu sem heitir Hlið við hlið sem er söngleikur með lögum tónlistarmannsins Friðriks Dórs. Auk þess eru stofnendurnir, Ingi Þór og Kristinn, báðir með tónleika, Ingi Þór er með útgáfutónleika og Kristinn líka sem hluti af tvíeykinu JóiPé x Króli. Tónlistarmennirnir Izleifur og Una Torfa verða einnig með tónleika í tónlistarröðinni hjá Afturámóti, að því er fram kemur á heimasíðu.

Spurður hvað hann ætti við með að þessu fylgdi engin fjárhagsleg áhætta svaraði Ingi Þór: „Við erum ekki að leigja salina út heldur er þetta samstarfsverkefni sem við vinnum saman svo að listamennirnir þurfi ekki leggja út stórar fjárhæðir og í staðinn er hagnaðinum skipt á milli listamannanna og teymisins.“ Að sögn Inga Þórs var teymið bak við Afturámóti ekki byrjað að auglýsa rýmið áður en fólk fór að hafa samband og vildi vera með og nú er byrjað að selja inn á 42 viðburði en flestar sýningarnar hafa aldrei verið sýndar áður opinberlega og verða því frumsýndar í Háskólabíói.

Hvers konar viðburði eruð þið að bjóða upp á?

„Við erum að reyna að taka á sem flestu og vera með sem fjölbreyttastan höfundahóp þannig að það sé eitthvað fyrir alla. Við erum til dæmis með söngleikinn Hlið við hlið sem er eintóm skemmtun og síðan eru samstarfssýningarnar allt frá því að vera tilraunakennd verk yfir í stofudrama,“ segir Ingi Þór og nefnir til dæmis leiksýninguna Ég er ekki Jóhanna af Örk eftir leikstjórann Berg Þór Ingólfsson sem fjallar um þrjá vini sem eru að taka upp hlaðvarp um Jóhönnu af Örk en þeirra persónulega líf truflar framganginn.

Kvikmyndahátíðin Strandgate er líka ótrúlega spennandi vegna þess að hún er í rauninni gjörningur. Þetta er hópur fólks sem setur á svið kvikmyndahátíð, leikur fólkið sem afhendir verðlaunin, þau sem taka á móti verðlaununum og leikur í ýmsum stiklum sem verða sýndar. Þetta er svona smá ádeila eða verið að gera grín að því hvernig svona hátíðir eru stundum,“ segir Ingi Þór.

Af hverju varð nafnið „Afturámóti“ fyrir valinu?

„Við vorum að reyna að velja nafn þegar Kiddi hringir í mig og segist vera kominn með nafn og ég segi bara: „Já, Kiddi minn, hvað áttu við með því?“ Hann segist hafa verið að lesa Sölku Völku eftir Halldór Laxness og séð þetta orð „afturámóti“. Þetta er auðvitað orðasamband en Laxness skrifaði það í einu orði og honum fannst þetta bara svo töff og mér líka.“

Ingi Þór segir það spennandi að vera með sumarleikhús enda hefur það ekki verið gert í mörg ár og teymið vonist til að geta haldið áfram að vera með sviðsleikhúsið yfir sumartímann. Sjálfur ætlar Ingi Þór að sjá allar sýningar og hvetur lesendur til þess að gera það líka.

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir