Nýsköpun Íris Líf Stefánsdóttir, Indriði Thoroddsen, Bjarni Þór Gíslason og Þór Tómasarson, stofnendur nýsköpunarfyrirtækisins Thorexa.
Nýsköpun Íris Líf Stefánsdóttir, Indriði Thoroddsen, Bjarni Þór Gíslason og Þór Tómasarson, stofnendur nýsköpunarfyrirtækisins Thorexa.
Nýsköpunarfyrirtækið Thorexa hefur hannað hugbúnað fyrir sjálfvirka tölvupóstssvörun. Sjálfvirki búnaðurinn byggist á fyrri svörum hjá notandanum þannig að tónninn í svörunum verður persónulegri og búnaðurinn lærir inn á tón hvers og eins

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Nýsköpunarfyrirtækið Thorexa hefur hannað hugbúnað fyrir sjálfvirka tölvupóstssvörun. Sjálfvirki búnaðurinn byggist á fyrri svörum hjá notandanum þannig að tónninn í svörunum verður persónulegri og búnaðurinn lærir inn á tón hvers og eins.

Að baki fyrirtækinu standa þau Þór Tómasarson sem sér um hugbúnaðarþróunina, Íris Stefánsdóttir sem sér um sölu- og markaðsmál og Bjarni Þór Gíslason sem er framkvæmdastjóri.

Íris segir í samtali við Morgunblaðið að markmið Thorexa sé að aðstoða starfsmenn fyrirtækja við að takast á við tölvupóstflóðið sem oft er mjög tímafrekt verkefni.

„Drög að tölvupóstum eru tilbúin í pósthólfinu þínu þegar þú mætir til starfa. Þú getur valið að senda þau beint út þegar þú hefur lesið yfir eða lagfært það sem þarf. Þegar við tökum eftir mynstrum þar sem tölvupóstar eru sendir beint út án lagfæringa bjóðum við upp á möguleikann að senda þá sjálfkrafa út. Með tíð og tíma lærir gervigreindin af þínum breytingum og þörfin á lagfæringum hverfur,“ segir Íris og bætir við að fyrirtækið hafi fengið góðar viðtökur.

„Búnaðurinn er á byrjunarstigi og er í þróun en þeir sem við höfum sagt frá hugmyndinni eru mjög áhugasamir. Margir bíða spenntir eftir að hann verði tilbúinn svo þeir geti byrjað að nýta sér hann,“ segir Íris.

Þór segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað í nýsköpunarhraðlinum Gullegginu sem haldinn var í byrjun árs. Fyrirtækið lenti í þriðja sæti og segir Þór að það hafi verið góð reynsla sem hafi veitt þeim dýrmætt tengslanet og góða umgjörð. „Við kynntumst í Gullegginu og þekktumst ekkert fyrir. Við vorum öll sammála um að tímarnir væru að breytast og tæknin væri á fleygiferð. Við höfðum sambærilegar pælingar og eftir ítarleg samtöl fengum við hugmynd að þessu fyrirtæki. Við höfum ekki fengið neitt fjármagn enn umfram verðlaunaféð úr Gullegginu en erum nú í fjármögnunarfasa,“ segir Þór.

Áhersla á góða íslensku

Íris segir að fyrirtækið stefni hátt. Það ætli að þróa vöruna betur og fara mögulega með fyrirtækið út fyrir landsteinana. „Við ætlum að byrja á að þróa vöruna á Íslandi en við leggjum mikla áherslu á góða íslensku. Síðan í framhaldi stefnum við á alþjóðamarkað,“ segir Íris og bætir við að fyrirtæki í útlöndum glími við sömu vandamál varðandi magn af tölvupóstum og þau íslensku.

„Við höfum rætt við fjöldann allan af fyrirtækjum sem eru áhugasöm. Þetta er vandamál sem allt fólk í skrifstofustörfum tengir við. Við viljum öll nýta vinnutímann okkar í eitthvað mikilvægara en endalausa tölvupósta. Við teljum því að mikil þörf sé fyrir vöru af þessu tagi,“ segir Íris að lokum.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir