— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, Katrín Jakobsdóttir, leiddi gesti og gangandi um Þingvelli í gærkvöldi í tilefni af því að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis Íslands. Fjallaði Katrín þar um lýðveldið Ísland, stjórnarskrána, Þingvelli og þjóðarminnið

Fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, Katrín Jakobsdóttir, leiddi gesti og gangandi um Þingvelli í gærkvöldi í tilefni af því að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis Íslands.

Fjallaði Katrín þar um lýðveldið Ísland, stjórnarskrána, Þingvelli og þjóðarminnið.

„Það stóð til, í upphafi árs, að ég myndi leiða þessa göngu sem forsætisráðherra. Nú er ég ekki lengur forsætisráðherra en Þingvellir vildu ennþá fá mig,“ sagði Katrín í samtali við Morgunblaðið.

Nefndi Katrín að áður en hún fór út í stjórnmál hefði hún mikið rannsakað hvernig þjóðerni birtist í bókmenntum og hvernig Ísland byggði sjálfsmynd sína sem þjóð í bókmenntum.

„Ég ætla að fjalla hér um Þingvelli sem stað í okkar þjóðarminni og fer sérstaklega yfir Þingvelli í Njálu, Þingvelli í Íslandsklukkunni, allar þær þjóðhátíðir sem haldnar hafa verið á Þingvöllum og hvað þessi staður merkir fyrir mig persónulega,“ sagði Katrín og bætti við:

„Ég held að þetta sé einn af örfáum stöðum á Íslandi sem eru virkilega hluti af einhverju sameiginlegu minni þjóðarinnar.“