Hafnarfjörður Víkingar í miklum vígamóð á Víðistaðatúni í gær, við upphaf Víkingahátíðarinnar.
Hafnarfjörður Víkingar í miklum vígamóð á Víðistaðatúni í gær, við upphaf Víkingahátíðarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingahátíðin hófst í gær á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Hátíðin stendur yfir um helgina og til þriðjudagsins 18. júní. Í ár er jafnframt 27. starfsafmæli félagsins Rimmugýgjar sem sér um hátíðina. Jökull Tandri Ámundason, jarl Rimmugýgjar, lýsir…

Guðrún Sigríður Sæmundsen

gss@mbl.is

Víkingahátíðin hófst í gær á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Hátíðin stendur yfir um helgina og til þriðjudagsins 18. júní. Í ár er jafnframt 27. starfsafmæli félagsins Rimmugýgjar sem sér um hátíðina.

Jökull Tandri Ámundason, jarl Rimmugýgjar, lýsir þýðingunni á nafninu: „Rimma þýðir orrusta og gýgur kvenkynströll. Rimmugýgur er því kvenkynsorrustutröll,“ en það var heiti axar Skarphéðins Njálssonar i Brennu-Njálssögu

Um 57 víkingatjöld verða á hátíðinni í ár, meira en síðustu ár. Talning inn á hátíðina er ónákvæm þar sem ekki er greiddur aðgangseyrir en Hafnarfjarðarbær áætlar um 5.000 gesti á dag eða 30.000 gesti í allt.

Þátttakendur á hátíðinni eru svokallaðir „víkingar“ og koma þeir alls staðar að, til dæmis frá Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum, Noregi, Bretlandi, Póllandi, Þýskalandi og víðar í Evrópu en einnig frá Bandaríkjunum.

Nýjungar í ár

Rimmugýgur hefur haft í nógu að snúast við undirbúning hátíðarinnar og dagskráin er ansi fjölbreytt. Jökull segir eitthvað um nýjungar á hátíðinni núna en Rimmugýgur leggur meiri áherslu á handverkið í ár en undanfarin ár.

Gestir geta reynt hinar ýmsu fornu listir svo sem vattarsaum. Tríóið Frænde frá Danmörku leikur í fyrsta skipti á hátíðinni og mun hljómsveitin stíga á svið alla dagana.

Þá hefur nýtt víkingafélag verið stofnað á Akureyri sem ber nafnið Veðurfölnir og taka þeir þátt á hátíðinni á sínu fyrsta starfsári.

Hvernig er daglegt líf víkinga?

Sjálfur er Jökull matreiðslu- og framreiðslumaður og mætir í sína vinnu dagsdaglega. Félagar í Rimmugýgi hittast nokkrum sinnum yfir árið. Verkefnin eru af ýmsum toga eins og að laga búnað sem félagið á eða búa til nýjan. Í september ár hvert tekur félagið inn nýliða í bæði bardaga- og bogfimi. Eins eru reglulega teknir inn nýliðar í handverkið.

Einu sinni í mánuði sýna víkingar landnámsaldarhandverk á Þjóðminjasafninu fyrir gesti og gangandi.

Flestar helgar eru uppteknar yfir sumarið að sögn Jökuls, en víkingar mæta á ýmsar bæjarhátíðir og skemmtanir víða um land.

„Þetta er hálfur lífsstíll ef svo má kalla. Ég er þekktur sem víkingur af vinum mínum og kunningjum,“ segir Jökull.

Matvagnar eru á svæðinu og skátafélagið Hraunbúar sér um sölu á sælgæti og gosi. Dagskrána má finna á Fésbókarsíðu Rimmugýgjar.

Vinsælir viðburðir

Hólmgangan og Víkingaskóli

Jökull lýsir tveimur vinsælum viðburðum á Víkingahátíðinni næstu daga, annars vegar er Hólmgangan og hins vegar Víkingaskóli barnanna.

Jökull segir frá því hvernig Hólmgangan dregur nafn sitt af samnefndum bardögum fyrr á öldum þegar menn skoruðu hver annan á hólm ef útkljá átti ákveðin mál. Þá var barist þangað til annar gafst upp eða var hreinlega felldur. Hólmganga hátíðarinnar er áköf keppni með stigagjöf þar til einn stendur uppi sem sigurvegari þessa árs.

Víkingaskóli barnanna er einnig fastur liður á hátíðinni. Tveir eða fleiri víkingar kenna herskara af börnum hvernig eigi að munda vopn, standa í skjaldborg og berjast til síðasta manns eða gera atlögu í liðum. Börnin mæta með sín eigin vopn og læra kurteisi og drengskap í leik og bardaga. Einnig er hægt að kaupa vopn á hátíðinni.

Munurinn á fyrri aldar bardögum og hátíðarbardögunum er að þeir síðarnefndu eru til gamans.

Höf.: Guðrún Sigríður Sæmundsen