Ólafur Engilbertsson fæddist á Kaldbak í Rangárvallasýslu 19. maí 1943. Hann lést 1. júní 2024.

Hann var sonur hjónanna Engilberts Kristjánssonar og Sesselju Sveinsdóttur. Hann var næstyngstur fjögurra systkina. Elstur er Olgeir, næstur er Skúli Svanberg, svo Ólafur og yngst var Laufey, hún lést árið 1966.

Ólafur var giftur Ragnhildi Rögnvaldsdóttur frá 1969. Börn Ólafs eru: Bertha Guðrún Kvaran, Anna Fía Ólafsdóttir og Bryndís Ólafsdóttir. Barnabörnin eru 11 og barnabarnabörn eru einnig 11.

Ólafur ólst upp að mestu á bænum Pulu í Rangárvallasýslu, til unglingsára. Bjó svo í Reykjavík allt til ársins 2018 þegar þau hjónin fluttu á Selfoss. Ólafur vann ýmis störf í gegnum ævina, aðallega tengt bílum og tölvum, hann var það sem kallast getur „alt-muligt-mand“. Hann byggði heimili fyrir fjölskylduna tvisvar sinnum og einn sumarbústað. Hann kom að byggingum heimila fyrir allar dætur sínar og aðstoðaði við að gera við bíla allra í fjölskyldunni.

Útför Ólafs fer fram frá Selfosskirkju í dag, 14. júní 2024, klukkan 14.

Elsku Óli, það er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur. Þú sem varst alltaf svo mikill „ekta afi“. Fróður um alla hluti, minnugur, glaðlyndur og ljúfur.

Mínar fyrstu minningar um þig eru frá því við Andri vorum ungt par og komum í heimsóknir í Stararimann. Þangað var alltaf gott að koma og vel tekið á móti manni. Oftast fannst þú nú afsökun til að sækja einhvern góðan skyndibita fyrir okkur fjögur sem við snæddum svo með bestu lyst yfir djúpum samtölum og rökræðum. Oftast voru Andri og Hildur nú löngu búin að gefast upp á masinu og rökræðunum í okkur tveimur en í minningunni voru þetta alltaf mikilvæg samtöl um gamla og nýja tíma þar sem við leystum gjarnan heimsmálin svo ekki sé nú talað um pólitíkina sem við gátum rökrætt um út í hið óendanlega – og sjaldan vorum við sammála.

Börnin okkar áttu svo einstakt samband við þig og þótt stundum liði eitthvað á milli heimsókna þá tókstu þeim alltaf opnum örmum og þau fundu hlýjuna og væntumþykjuna frá þér. Soffía var svo heppin að fá að ferðast víða með ykkur og ömmu sinni og afa og eru þær ferðir henni mjög minnisstæðar. Ferðin í Landmannalaugar, Landmannahelli og Keldur lifir einnig sterkt hjá Soffíu og Kristófer þar sem þau hafa án efa fengið allan mögulegan fróðleik um svæðið frá langafa sínum enda vel kunnugur og þekkti án efa hverja þúfu með heiti. Ragnhildur Sara átti svo sérstakt samband við langa og löngu enda voruð þið skírnarvottarnir hennar og tókuð það hlutverk að ykkur af fullri alvöru. Hún var alltaf til í að knúsa langafa og sambandið ykkar var dýrmætt. Svo er það auðvitað sá yngsti sem þótti alltaf svo vænt um langafa þótt hann væri feiminn. Það voru forréttindi fyrir börnin okkar að fá að kynnast langafa sínum og upplifðu þau hann öll sem hjartahlýjan og fróðan með eindæmum.

Í maí áttum við svo dýrmætar stundir með stórfjölskyldunni þegar Hildur fagnaði 80 ára afmælinu sínu og Kristófer Máni fermdist. Þessi samvera og minningar lifa í hjörtum okkar og við eigum svo fallegar myndir frá þessum dögum sem minna okkur á elsku langafa.

Elsku besti Óli. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig sem hluta af okkar lífi. Þú kenndir okkur svo margt og varst okkur öllum góð fyrirmynd. Það er sárt að missa þig en fallegar og ljúfar minningar lifa áfram. Hvíldu í friði og takk fyrir allt okkar.

Við geymum minningarnar áfram í hjarta okkar og huga.

Hulda.

Við Nefsholtsfjölskyldan fengum óvæntar og sorglegar fréttir þegar Óli bróðir og frændi féll skyndilega frá eftir áfall rúmlega áttræður en hann hafði alla tíð verið heilsuhraustur. En í raun veit enginn hvenær kallið kemur.

Ólafur Engilbertsson, sem var aldrei kallaður annað en Óli í fjölskyldunni, fæddist 19. maí 1943 á Kaldbak á Rangárvöllum og átti þar heima til sjö ára aldurs þegar foreldrar hans fluttu að Pulu í Holtahreppi ásamt fjórum börnum sínum en Óli var næstyngstur í systkinahópnum. Fjölskyldan á sterkar rætur á Rangárvöllum og tengist m.a. Keldum, Geldingalæk og Kaldbak. Í kjölfar Heklugossins 1947 var oft leiðindasandfok og erfiðar aðstæður til búsetu. Margar sögur hafa gengið í fjölskyldunni um sandrokin sem hafa líklega verið meginástæða þess að fjölskyldan flutti sig um set í næstu sveit, að Pulu í Holtum, en ástandið var þar mun betra. Foreldrar Óla, Engilbert Kristjánsson og Sesselja Sveinsdóttir, hvíla í kirkjugarðinum á Keldum ásamt Laufeyju dóttur þeirra sem féll frá rúmleg tvítug árið 1966 en Engilbert (Gilli) ólst upp á Keldum frá barnæsku. Fjölskyldan hefur ræktað vel tengslin við Keldur og tók Óli t.d. virkan þátt ásamt bræðrum sínum í að ganga vel frá legsteinum á Keldum. Á vel heppnuðu ættarmóti árið 2011 í tilefni af 100 ára ártíð Sesselju Sveinsdóttur móður Óla var t.d. minningarstund á Keldum hluti af ættarmótinu.

Óli byrjaði sína skólagöngu 10 ára á Skammbeinsstöðum í Holtum en þá var ekki búið að stofna skóla í sveitinni. Þar voru krakkarnir tvær vikur í skólanum og tvær vikur heima. Eftir barnaskóla fór hann í Skógaskóla og síðan lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri. Óli hafði alla tíð áhuga á vélum og vann t.d. við bílaviðgerðir og gaman er að segja frá því að hann setti árið 1981 upp díselvélina í Geimstöðinni sem er Dodge Weapon árgerð 1953 sem ófáar ferðir hefur farið inn á Landmannaafrétt í fjallferðum. Díselvélin hefur aldrei klikkað í rúmlega 40 ár. Einnig fékk Óli mikinn áhuga á tölvum þegar þær komu til sögunnar og stofnaði ásamt félögum sínum tölvufyrirtækið Míkrótölvuna þar sem m.a. var unnið við að aðlaga tölvur að séríslenskum stöfum. Starfsævinni lauk hann svo hjá skattinum þar sem hann sá um tölvukerfi.

Hugur Óla leitaði alla tíð til fjalla og afrétta Rangárvallasýslu og sérstaklega til Veiðivatna en þangað fór hann ófáar ferðir með vinum sínum. Einnig komu hann og Hildur kona hans oft í árlega netaveiðiferð Nefsholtsfjölskyldunnar að hausti sem hafa verið fastur liður í tilverunni í um 40 ár. Þá var oft glatt á hjalla, sagðar sögur og rifjaðar upp fræknar fjall- og veiðiferðir og margar góðar minningar tengdar veiðiferðunum.

Síðasta samtal mitt við Óla var á afmælisdaginn hans 19. maí sl. og þá lék allt í lyndi og ekkert benti til þess að hann væri allur skömmu síðar. Minningin lifir um góðan dreng og Óli átti gott líf og samhenta fjölskyldu.

Fjölskyldan vottar öll Hildi eftirlifandi eiginkonu, Berthu, Önnu Fíu og Bryndísi og fjölskyldum þeirra dýpstu samúð. Blessuð sé minning hans.

F.h. Nefsholtsfjölskyldunnar,

Olgeir Engilbertsson.