Stjarna Kylian Mbappé verður í eldlínunni með franska landsliðinu í leit að sínum fyrsta Evrópmeistaratitli í 24 ár.
Stjarna Kylian Mbappé verður í eldlínunni með franska landsliðinu í leit að sínum fyrsta Evrópmeistaratitli í 24 ár. — AFP/Franck Fife
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópumót karla í knattspyrnu hefst í 16. sinn með leik gestgjafa Þýskalands og Skotlands í München í kvöld. Mótið fór fyrst fram fyrir 64 árum en þá voru einungis fjögur lið en í dag eru 24 lið á hverju Evrópumóti

EM 2024

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Evrópumót karla í knattspyrnu hefst í 16. sinn með leik gestgjafa Þýskalands og Skotlands í München í kvöld. Mótið fór fyrst fram fyrir 64 árum en þá voru einungis fjögur lið en í dag eru 24 lið á hverju Evrópumóti.

Þjóðverjar halda mótið í annað sinn en þeir hafa ásamt Spáni unnið Evrópumótið oftast eða þrisvar sinnum. Tvær þjóðir sem eru ei lengur til hafa unnið mótið en Sovétríkin unnu fyrsta mótið fyrir 64 árum og Tékkóslóvakía árið 1976.

Mótið fer fram á nákvæmlega einum mánuði en úrslitaleikurinn er 14. júlí. Spilað verður í 10 þýskum borgum en úrslitaleikurinn fer fram á Ólympíuvellinum í Berlín.

Evrópumótið er öðruvísi en HM en þrátt fyrir að vera mun yngra og með færri þjóðir á hverju móti hafa fleiri þjóðir unnið EM en HM. Alls tíu þjóðir hafa unnið mótið en ásamt þeim fjórum hér fyrir ofan hafa Ítalía, Frakkland, Holland, Danmörk, Grikkland og Portúgal orðið Evrópumeistarar.

Mörg lið sigurstrangleg

Evrópumótið hefur sjaldan verið eins opið en fimm líklegustu liðin eru öll nokkuð jöfn. Það er ekki mikill munur á Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, Portúgal og Spáni og gæti dagsformið einfaldlega skipt máli. Að undanskildu Englandi unnu hin fjögur liðin öll stórmót á árunum 2008 til 2018. Englendingar eru með ungt lið og hafa farið langt á síðustu mótum og gætu horft á Evrópumótið í ár sem tækifæri til að verða loks Evrópumeistarar.

Enska liðið er með hópinn, Frakkland er með stjörnuna Kylian Mbappé, Þýskaland er á heimavelli og með þekkinguna, Spánverjar eru alltaf líklegir og Portúgal er með frábæra leikmenn og Ronaldo, sem gæti bæði orðið jákvætt og neikvætt.

Evrópumeistarar Ítalíu, Belgía og Holland gætu komið bakdyramegin en þau eru með fullt af gæðaleikmönnum sem geta staðið í bestu liðunum.

Mót óvæntra hluta

Í gegnum tíðina hafa mörg lið komið á óvart á Evrópumótinu. Árið 1992 er sögulegt en þá unnu Danir mótið, þrátt fyrir að þeir hefðu ekki átt að vera á mótinu til að byrja með. Danska liðið fékk boð á mótið eftir að Júgóslavía datt út vegna stríðs í landinu á þeim tíma. Besti leikmaður Danmerkur, Michael Laudrup, hélt sig heima en Danir unnu samt án hans.

Eftirminnilegt er þegar Grikkir urðu Evrópumeistarar árið 2004 eftir sigur á stjörnum prýddu liði Portúgals sem var á heimavelli í úrslitaleiknum. EM er mót óvæntra hluta, eins og við Íslendingar þekkjum frá árinu 2016, og með miklum meðbyr virðist hvaða lið sem er geta komið á óvart og unnið mótið.

Hvaða lið gætu komið á óvart?

Á stórmóti eins og EM eru öðruvísi væntingar gerðar til hvers liðs. Hvað telst gott mót er mismunandi skilgreining eftir því hvar liðin eru stödd. Að komast upp úr riðlinum yrði til dæmis frábært fyrir Georgíu og Rúmeníu en skylda fyrir lið eins og England og Frakkland.

Austurríki hefur vakið athygli margra í aðdraganda mótsins en liðið stóð sig frábærlega í undankeppni EM. Að komast upp úr riðlinum er hægara sagt en gert fyrir austurríska liðið en það er í riðli með Frakklandi, Hollandi og Albaníu.

Danir eru með spennandi lið og fóru alla leið í undanúrslit á síðasta móti. Ungverjar hafa spilað vel undanfarið og aldrei er hægt að afskrifa Króatíu. Þjóðir eins og Svisslendingar, Serbar, Úkraínumenn, Tékkar og Tyrkir eru einnig allar líklegar til einhvers árangurs.

Búast má við mikilli veislu í Þýskalandi í sumar. Þjóðverjar eru engir nýliðar þegar kemur að því að halda stóra viðburði og hvað þá stórmót. Þjóðverjar eru ein mesta knattspyrnuþjóð sögunnar og vita nákvæmlega hvað þarf til að gera mótið ánægjulegt.

Týpískir landsliðsmenn

Eitt það skemmtilegasta sem fylgir stórmótum er að sjá ákveðna leikmenn springa út. Margir leikmenn fara úr því að vera þekktir í að verða heimsfrægir á örfáum dögum. Sem dæmi má nefna Frakkann Kylian Mbappé en hann kom sér almennilega á kortið á HM 2018.

Á síðasta móti var það Ítalinn Federico Chiesa sem lék listir sínar með Evrópumeisturunum árið 2021. Hann hefur ekki náð að fylgja því eftir síðan með liði sínu Juventus en meiðsli hafa sett strik í reikninginn.

Ákveðnir leikmenn spjara sig betur í landsliðsbolta en félagsliðabolta. Margir hafa átt ómerkilegan leikmannaferil eða verið í aukahlutverki hjá sínum liðum en eru þjóðhetjur hjá landsliðinu. Á það reyndar oftar við um HM.

Landsliðsfótboltinn er nefnilega allt annar. Hann er skilyrðislaus enda er verið að spila fyrir eigin þjóð. Má því búast við að leikmenn leggi allt í sölurnar næsta mánuðinn og við fáum að njóta.

Upphafsleikur EM 2024 fer fram í München:

Þýskaland og Skotland hefja Evrópumótið 2024 í kvöld

Flautað verður til leiks á Evrópumóti karla í fótbolta í kvöld en klukkan 19 að íslenskum tíma, 21 að Evróputíma, hefst viðureign Þýskalands og Skotlands í A-riðlinum í München að viðstöddum 75 þúsund áhorfendum.

Þetta er eini leikurinn á fyrsta keppnisdeginum en hin tvö liðin í riðlinum, Ungverjaland og Sviss, mætast í Köln klukkan 13 á morgun, laugardag.

A: Þýskaland, Ungverjaland, Sviss, Skotland.

B: Spánn, Króatía, Ítalía, Albanía.

C: Slóvenía, Danmörk, Serbía, England.

D: Pólland, Holland, Austurríki, Frakkland.

E: Belgía, Slóvakía, Rúmenía, Úkraína.

F: Tyrkland, Georgía, Portúgal, Tékkland.

Tvö lið komast áfram úr hverjum riðli og fjögur af sex liðum í þriðja sæti komast líka í 16-liða úrslit.

Höf.: Jökull Þorkelsson