Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fv. borgarritari, lést í gær, fimmtudag, 59 ára að aldri, eftir að hafa glímt í nokkur ár við alzheimersjúkdóminn. Ellý Katrín fæddist í Reykjavík 15. september 1964. Foreldrar hennar voru Petrea Sofia Guðmundsson og Guðmundur Guðmundsson

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, fv. borgarritari, lést í gær, fimmtudag, 59 ára að aldri, eftir að hafa glímt í nokkur ár við alzheimersjúkdóminn.

Ellý Katrín fæddist í Reykjavík 15. september 1964. Foreldrar hennar voru Petrea Sofia Guðmundsson og Guðmundur Guðmundsson.

Ellý var lögfræðingur að mennt og með meistarapróf í umhverfis- og alþjóðarétti frá lagadeild University of Wisconsin í Bandaríkjunum. Hún starfaði sem lögfræðingur hjá Alþjóðabankanum í Washington DC áður en hún flutti heim árið 2002 eftir átta ár dvöl í Bandaríkjunum.

Ellý Katrín hóf störf hjá Reykjavíkurborg þar sem hún stýrði fyrst umhverfis- og samgöngumálum. Hún gegndi ýmsum stjórnunarstöðum hjá borginni, m.a. sviðsstjóri umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar og árið 2011 var hún ráðin borgarritari.

Ellý Katrín hafði brennandi áhuga á umhverfismálum og var frumkvöðull á mörgum sviðum þess málaflokks hjá borginni. Hún átti sinn þátt í því að stefna var sett í loftslagsmálum, vinna við græna hagkerfið varð að veruleika, grænar fjárfestingar, svo fátt eitt sé nefnt. Ellý sat í stjórnarskrárnefnd sem var skipuð að Alþingi árið 2010, auk fjölda annarra starfshópa og nefnda.

Ellý Katrín greindist með forstig alzheimers-sjúkdóms aðeins 51 árs gömul. Árið 2017 hélt Ellý Katrín erindið Þegar minnið hopar á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar og vakti það mikla athygli. Hún var ötull málsvari einstaklinga með alzheimers-sjúkdóm og hvatti til opinskárrar umræðu um hann. Hún hlaut riddarakross fyrir störf á opinberum vettvangi og framlag til opinskárrar umræðu um alzheimer.

Eftirlifandi eiginmaður Ellýjar Katrínar er Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Þau eiga tvö börn; Ingibjörgu og Guðmund. Ingibjörg og sambýliskona hennar, Beatrice Eriksson, eiga þriggja vikna son, Almar Elí.