Sigríður Þóra Eiríksdóttir fæddist í Vorsabæ á Skeiðum 29. ágúst 1936. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. maí 2024.

Foreldrar Sigríðar voru hjónin Eiríkur Jónsson, bóndi og oddviti í Vorsabæ, f. 1891, d. 1963, og Kristrún Þorsteinsdóttir, f. 1894, d. 1966. Systkini Sigríðar eru Ragna, f. 1917, d. 1998. Sigursteinn, f. 1919, d. 1934. Jón, f. 1921, d. 2010. Axel, f. 1923, d. 2006. Óskírður drengur, fæddur andvana 1925. Helga, f. 1928. Friðsemd, f. 1932.

Sigríður giftist 1. júní 1958 Ágústi Sigurðssyni frá Birtingaholti, f. 22. ágúst 1936. Börn þeirra hjóna eru: 1) Eiríkur, f. 1957, maki Olga Lind Guðmundsdóttir, f. 1963. Synir þeirra eru: a) Bjarki, kona hans er Dögg Þrastardóttir. b) Bogi Pétur, kona hans er Svava Kristjánsdóttir. c) Guðmundur Karl, kona hans er Guðný Helga Lárusdóttir. 2) Sigrún, f. 1958, d. 1982, unnusti Bogi Pétur Thorarensen, f. 1956, d. 1982. 3) Hulda, f. 1962, maki Ingþór Sigurjón Sævarsson, f. 1959. Börn þeirra eru: a) Sævar, kona hans er Ása Bryndís Guðmundsdóttir. b) Sigrún, maður hennar er Stefnir Stefnisson. c) Elvar. 4) Sigurður, f. 1966, maki Fjóla Ingveldur Kjartansdóttir, f. 1967. Synir þeirra eru: a) Ágúst Helgi, kona hans er Guðfinna Lára Hávarðardóttir. b) Kjartan, kona hans er Inga Lóa Þrastardóttir. c) Heimir, kona hans er Dagný Lilja Birgisdóttir. 5) Borghildur, f. 1972, maki Magnús Sveinn Sigurðsson, f. 1970. Synir þeirra eru: a) Eyþór Már, kona hans er Stefanía Ástrós Benónýsdóttir. b) Egill, kona hans er Andrea Rut Eiríksdóttir. c) Ágúst. Langömmubörnin eru 27 talsins.

Sigríður fæddist og ólst upp í Vorsabæ á Skeiðum, yngst af stórum systkinahópi. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1954 og prófi frá Húsmæðraskólanum á Laugarvatni 1957. Eftir að þau Ágúst giftust flutti Sigríður að Birtingaholti og stofnuðu þau hjónin nýbýlið Birtingaholt 4. Þau stunduðu fjölbreyttan blandaðan búskap í fyrstu, áttu nokkrar kýr, kindur, voru með eggjaframleiðslu og fjölbreytta garðyrkju. Fljótlega þróaðist búskapurinn út í allstórt kúabú og umtalsverða garðyrkju. Árið 1996 seldu þau hjónin Sigurði syni sínum og Fjólu konu hans jörðina en þau höfðu áður búið saman í félagsbúi um skeið. Héldu þau Ágúst og Sigríður áfram með kartöfluræktun langt fram eftir aldri.

Sigríður var félagslynd og tók meðal annars virkan þátt í starfi Kvenfélags Hrunamannahrepps. Var hún í stjórn félagsins frá 1995 til 1998. Sigríður sinnti alla ævi heimilisstörfum af kostgæfni en vann jafnframt mikið við bústörfin. Árið 1989 réð hún sig í hlutastarf við sveppatínslu hjá Flúðasveppum og líkaði sú vinna vel og vann hún þar í nokkur ár.

Þau hjónin voru mjög samrýmd og ferðuðust talsvertsferðir. Árið 2022 missti Ágúst heilsuna og fluttist á hjúkrunardeildina Ljósheima á Selfossi en Sigríður bjó áfram í Birtingaholti og hélt heimili af reisn og myndarskap.

Útför Sigríðar fer fram í Skálholtsdómkirkju í dag, 14. júní 2024, klukkan 14.

Aldrei grunaði mig á hvítasunnudag að það yrði í síðasta skiptið sem þú kæmir í mat í bústaðinn til okkar Magga, elsku mamma mín.

Ég hélt alltaf að pabbi myndi kveðja á undan þér en við munum passa hann fyrir þig, þangað til hann kemur til þín. Þið pabbi voruð einstaklega samrýmd hjón og ástin á milli ykkar sönn og einlæg, þið pössuðuð vel upp á hvort annað. Það var því mjög erfitt fyrir þig þegar pabbi veiktist og þurfti að fara á Hjúkrunaheimilið Ljósheima en við fjölskyldan stóðum þétt við bakið á þér og pössuðum upp á þig.

Stundum töluðuð þið pabbi um hvað þið væruð heppin með fjölskyldu en eins og orðatiltækið segir: „Maður uppsker eins og maður sáir.“ Á svona stundu hugsar ég til baka og fer yfir þær minningar sem ég á sem eru bæði margar og góðar. Yndisleg æskuár með ykkur í Birtingaholti, heimsóknir ykkar til Þýskalands þegar við bjuggum þar, ferðalagið okkar saman til Danmerkur þar sem við hittum Ole vinnumann, verslunarferð með okkur Huldu til Boston og ég tala nú ekki um allar heimsóknirnar í Birtingaholt þar sem manni var alltaf tekið fagnandi. Þegar við Maggi keyptum bústaðinn hafðir þú áhyggjur af því að nú myndi ég ekki lengur koma og gista í Birtingaholti, en ég passaði alltaf að gista öðru hvoru, þó að stutt væri í bústaðinn. Nú síðast þegar ég gisti á uppstigningardag áttum við góða stund saman í góðu veðri og um kvöldið eldaðir þú fyrir mig uppáhaldsmatinn minn. Þú fylgdist alltaf vel með okkur öllum og elskaðir að hafa barnabörnin og barnabarnabörnin í kringum þig og oftar en ekki bakaðir þú handa þeim pönnukökur.

Eftir að þú fékkst spjaldtölvuna og lærðir bæði á Snapchat og Facebook gastu fylgst enn betur með og alltaf svaraðir þú einhverju fallegu.

Elsku mamma mín, ég er þakklát fyrir öll árin og minningarnar sem við eigum, ég á eftir að sakna þín mikið og það verður skrítið að heyra ekki í þér á hverjum degi. Nú ert þú komin yfir í sumarlandið og ég veit að Sigrún og Bogi hafa tekið vel á móti þér.

Elska þig, þín

Borghildur.

Elsku amma, langamma og vinkona.

Nú er komið að kveðjustund sem við héldum satt að segja að kæmi ekki alveg strax þrátt fyrir háan aldur þinn. Fyrirvarinn sem við fengum var ekki langur og lífið sýndi okkur enn á ný hversu óútreiknanlegt það getur verið. Það er ekkert fast í hendi og á einu andartaki hefur lífið tekið aðra stefnu. Í sorg og söknuði erum við óendanlega þakklát fyrir þær góðu minningar sem við eigum um þig og höldum í þær.

Efst í huga eru öll boðin í Birtingaholti og fjörið, glensið og gamanið sem einkenndi þau. Það væru eflaust ekki allar ömmur rólegar yfir boltaleikjum og ærslagangi barnabarna sinna inni á snyrtilegum heimilum sínum en það raskaði þó ekki ró þinni. Þú tókst því með jafnaðargeði enda virtist þú vilja hafa sem mest líf og fjör á heimilinu. Þannig leið þér best og þú naust þess að hafa hópinn þinn stóra í kringum þig.

Að koma í heimsókn til þín var ævintýri líkast og í hvert skipti sem við komum fundum við hversu velkomin við vorum. Það stóð aldrei illa á hjá þér þegar heimsókn frá þínum nánustu var annars vegar. Við gátum jafnframt gert ráð fyrir því að þú töfraðir fram veitingar á einu augabragði, ekki síst pönnukökurnar þínar sem að okkar áliti voru og eru þær bestu í heimi. Á sólríkum sumardögum var ekkert betra en að fara í sundlaugina í garðinum og þar var heldur betur buslað. Sem betur fer fengu langömmubörnin þín einnig að njóta þeirrar paradísar. Þú varst einstök amma, langamma og manneskja og tókst vel á móti öllum og sýndir okkur mikla ræktarsemi og umhyggju.

Við hugsum með hlýhug til þess þegar þú heimsóttir okkur í ítölsku sveitina komin á níræðisaldur. Við fundum hversu tilbúin þú varst að kynnast nýjum menningarheimi og erlendri sveit, sem þú reyndar tengdir strax við þar sem þú sást ákveðin líkindi við það sem þú þekktir af eigin raun.

Þú lagðir mikið upp úr því að gefa vandaðar gjafir og fallegt handverk. Gjafirnar frá þér voru úthugsaðar og valdar með þarfir okkar í huga. Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að þú prjónaðir á okkur vettlinga og ullarsokka sem hafa nánast verið notaðir daglega á köldum vetrardögum. Besta gjöfin var þó fólgin í samverustundunum ótalmörgu sem við áttum með þér og að fá að sjá og finna þitt fallega og hlýja bros. Þú geislaðir og andlitið ljómaði.

Við minnumst þín með óendanlegu þakklæti, hlýhug og söknuði. Þú verður ætíð í hjörtum okkar og þannig mun minningin um þig lifa.

Við biðjum um vernd og blessun yfir elsku Gústa afa, langafa og góðan vin.

Við kveðjum þig með fallegu bænaversi sem langömmubörnin þín syngja gjarnan af barnslegri einlægni sinni.

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi þig

Guð í hendi sér.

(Þýð. Bjarni Stefán Konráðsson)

Með hjartans kveðju.

Guðmundur Karl,
Guðný Helga,
Ágúst Elí og
Helga Lind.

Elsku Sigga amma er farin.

Ákveðinn fasti í lífinu er þar með horfinn á braut með henni sem skilur eftir sig tóm í tilveru okkar allra, afkomenda hennar og maka, sem reglulega lögðum leið okkar til hennar í Birtingaholt.

Um hugann þjóta í gegn minningar sem fylla í tómið því þó að komi að leiðarlokum munu allar samverustundirnar sem ég, og við öll, áttum með ömmu og afa lifa áfram og halda áfram að kalla fram ljúfar tilfinningar um ókomna tíð.

Eitt af því sem ég mun alltaf minnast ömmu fyrir er hve henni var mikið í mun að við systkinabörnin borðuðum vel í matarboðum í Birtingaholti. Ef við fengum okkur ekki allavega eina ábót á lambalærið og annan hálffullan disk af kartöflum og sósu hafði hún áhyggjur af því að við myndum horast upp og verða að engu. Þetta hesthúsuðum við allt ásamt auðvitað stórri skál af Emmess-rjómaís með súkkulaðisósu á eftir. Alltaf var nóg til, enda var amma húsfreyja af gamla skólanum.

Ég minnist einnig úr bernsku að borða nesti úti undir berum himni í kartöfluupptöku og í réttum, flatkökur með lambakjöti koma sterkar upp í minningunni ásamt bestu pönnukökum í heimi, með nóg af sykri á. Afmælisferðirnar út um hvippinn og hvappinn í seinni tíð, réttasúpa í Birtingaholti, að horfa á gamlar teiknimyndir með Tomma og Jenna og Andrési Önd á VHS-spólum; listinn er langur og ég gæti lengi haldið áfram.

En ætli það sé ekki einmitt merki um hve náin fjölskyldan er? Við getum mælt hamingjuna í minningum og samveru með þeim sem okkur eru kærust í fjölda afmælisboða og heimsókna með langömmubörnin.

Ég var svo lánsamur að amma gat heimsótt mig á afmælisdaginn minn í apríl síðastliðnum. Það var í síðasta skiptið sem við hittumst og mér er það ómetanlegt að hún hafi getað fagnað deginum með mér. Nú hefur hins vegar gangur lífsins tekið við og eftir sitjum við ástvinir og afkomendur, með söknuð í hjarta, og yljum okkur við fallegar minningar sem við eignuðumst með húsfreyjunni í Birtingaholti, Siggu ömmu.

Takk fyrir samferðina, elsku amma.

Bjarki.

Ef þú er heppinn elstu upp umkringdur klettum, sterku fólki sem styður þig sama hvað á dynur. Amma var án efa einn af stóru klettunum mínum og það kemur margt upp í hugann þegar hugsað er til hennar. Minningarnar draga allar upp mynd af elskulegri, umvefjandi ömmu sem vildi öllu öðru fremur verja tíma með fjölskyldu og vinum, sérstaklega heima í Birtingaholti.

Ég naut góðs af því að vera elsta barnabarnið, amma og afi þá ung og spræk og fékk ég að vera mörg sumur og óteljandi helgar hjá þeim í Birtingaholti. Sumrin einkenndust af kúarekstri, mjöltum, heyskap, sundlaugarferðum, leik með frændsystkinum og miklu dekri. Kjarninn í minningunum er myndin af ömmu að hlúa að garðinum, eða í eldhúsinu eitthvað að fást við mat. Eftir morgunmjaltir beið manns allsnægtaborð og í lok dags var svo farið í laugina, með vænan vínberjaklasa úr gróðurhúsinu, slakað á og spjallað. Amma hafði alltaf tíma fyrir spjall – og sat hjá manni í rólegheitum ef maður átti erfitt með að sofna.

Þegar árin liðu og heimsóknum í Birtingaholt fækkaði var samt alltaf yndislegt að koma. Konan mín hefur réttilega bent mér á að ef of langur tími líði á milli heimsókna komi yfir mig eirðarleysi og yfirgengileg þörf til að heimsækja Birtingaholt, að hitta ömmu og afa og ná að kjarna mig.

Amma tók alltaf á móti okkur í útidyrunum og svo var spjallað í eldhúsinu um daginn og veginn, staðan tekin á öllum helstu málum á meðan hún tíndi til „eitthvert smáræði“ sem var yfirleitt nóg í veislu fyrir tuttugu. Við matarborðið spurði hún mann spjörunum úr hvernig gengi í öllu, blés manni byr í brjóst fyrir dugnaðinn, passaði að maður borðaði vel, og hvatti til frekari verka.

Mér er mjög minnisstætt þegar ég sagði ömmu að það væri von á yngstu dóttur minni. Viðbrögðin leyndu sér ekki – himinlifandi og spennt – „jáh! nr. 22 er á leiðinni“, rétt eins og hún hefði verið með allar tölurnar réttar í lottóinu, enn eitt langömmubarnið til að fylgjast með, knúsa og prjóna eitthvað fallegt á. Þótt langömmubörnin væru að nálgast þrjátíu hafði hún fullkomna yfirsýn; hvað allir væru að gera og hvernig allir hefðu það – og allir fengu afmælis- og jólagjafir.

Langömmubörnin höfðu líka nef fyrir matargerðarsnilli ömmu, hún einfaldlega gerði BESTU pönnsurnar. Sama hvað ég reyni þá á ég ekki séns í pönnukökurnar hennar ömmu. Þegar ég hugsa út í það þá hefur það líklega ekkert með pönnukökurnar að gera – þótt ljúffengar séu – heldur er það andrúmsloftið og tilfinningin sem hún skapaði í eldhúsinu; áhuginn sem hún sýndi fólkinu sínu og hvernig hún stóð alltaf með því. Eins og klettur.

Elsku amma, að leiðarlokum er mér þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir þau ár sem við höfum fylgst að og þær gæðastundir sem við höfum deilt. Þótt þú hafir kvatt þennan heim situr eftir þessi sterka tilfinning sem þú náðir að skapa í eldhúsinu í Birtingaholti, tilfinning sem erfitt er að henda reiður á og koma í orð, en ég mun hafa mig allan við að ná að skapa fyrir mína afkomendur, og þína. Elsku amma.

Takk fyrir allt.

Þinn

Sævar.

Það er fátt sem mótar mann meira í lífinu en að fá að alast upp í kringum góða einstaklinga og það má svo sannarlega heimfæra á ömmu Siggu. Það voru svo mikil forréttindi að fá að alast upp nokkur hundruð metrum frá henni og afa Gústa. Amma var ekki aðeins harðdugleg kona, sem sinnti bæði heimili og búi, heldur var hún einnig með eitt stærsta hjarta og mýksta faðm sem manneskja getur haft.

Það er alltaf erfitt að kveðja og sérstaklega þegar manneskjan sem kvödd er skipti mann miklu máli. En á tímamótum sem þessum er gaman að horfa til baka og hugsa um allar góðu stundirnar sem við áttum saman, stundir sem eru ómetanlegar og munu alltaf lifa með manni. Amma gaf sér alltaf tíma fyrir okkur bræðurna og ég hugsa oft um allar stundirnar sem við sátum og ræddum um allt á milli himins og jarðar.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar maður horfir til baka, skemmtilegu bíltúrarnir með ykkur afa í hvíta Pajero-jeppanum, góðu stundirnar sem við áttum saman við kartöflurnar, hvort sem það var að setja þær niður, taka þær upp eða þegar við stóðum við flokkunarvélina inni í kartöflugeymslu, það að kíkja í sunnudagskaffi og borða allar pönnukökurnar og allt hitt, því það mátti aldrei bara vera einn hlutur á borðinu.

Það er svo margt sem hægt er að rifja upp, en það sem stendur eftir er að amma var alltaf til staðar fyrir mann.

Á seinni árum var líka svo gaman að sjá hversu vel amma náði til langömmubarnanna sinna og eiga þau eins og allir sem hana þekktu eftir að sakna þess að fá að dvelja í faðminum hennar í hvert einasta sinn sem tekið var á móti manni í anddyrinu í Birtingaholti.

Amma var mikil fyrirmynd, alltaf svo glaðlynd og lausnamiðuð, og það voru svo margir hlutir sem maður lærði af henni. Hlutir sem maður er og verður alltaf þakklátur fyrir. Við kveðjum hana núna en ég veit að hún mun vaka yfir og passa upp á okkur um ókomna tíð.

Lífsins ljósið bjarta

lýsi þína leið.

Sorg í mínu hjarta

þó gatan virðist greið.

Margar góðar stundir

áttum saman hér.

Minningarnar geymi

Innst í hjarta mér.

(FIK)

Kjartan Sigurðsson.

Ég kynntist Siggu árið 2011 þegar við Eyþór, barnabarn hennar, byrjuðum saman. Varla er hægt að tala um Siggu án þess að tala um Gústa líka enda voru þau hjón einstaklega samrýnd og var augljóslega mikill kærleikur þeirra á milli alla tíð. Þau tóku strax á móti mér með einlægri hlýju og umhyggju. Stuttu síðar missti ég báðar ömmur mínar og hefur Sigga í raun verið mér sem amma síðan.

Eyþór var alinn upp við að vera mikið í sveitinni í Birtingaholti hjá ömmu sinni og afa og þegar við vorum yngri fannst okkur dásamlegt að kíkja í heimsókn um helgar og gista hjá þeim. Skemmtilegast var að sitja með Siggu og Gústa við eldhúsborðið og spjalla um gamla tíma, hlusta á áhugaverðar sögur af ferðalögum og ræða um allt milli himins og jarðar.

Árið 2017 eignuðumst við Eyþór eldri drenginn okkar, Magnús Geir, eftir erfiða meðgöngu. Sigga hringdi alltaf reglulega, bæði á meðgöngunni og eftir að Magnús Geir fæddist, til að heyra hvernig gengi. Ég veit að hún hafði miklar áhyggjur af litla langömmustráknum sínum á meðan það versta gekk yfir, enda með eindæmum umhyggjusöm. Magnús Geir óx og braggaðist og tengdist langömmu sinni og langafa mjög sterkum böndum. Þau sáu líka ekki sólina fyrir honum, frekar en öðrum afkomendum sínum, enda var fjölskyldan þeirra líf og yndi. Um þetta leyti byggði fjölskylda mín sumarbústað í Langholtsfjallinu, rétt við Birtingaholt, og fjölgaði þá heimsóknum okkar í sveitina enn frekar. Einnig þótti okkur gaman að fá þau hjónin í mat til okkar upp í sumarbústað og voru það yndislegar stundir.

Bogga tengdamamma var alltaf dugleg að fara með Magnús Geir í sveitina og einu sinni fór hann með ömmu sinni og gisti hjá langömmu og langafa í sveitinni í fimm daga. Ég veit að það var dásamlegur tími, bæði fyrir Siggu og Gústa og fyrir Magnús Geir, sem elskaði að vera hjá langömmu og langafa.

Það var ótrúlegt að tala við Siggu um börnin, tengdabörnin, barnabörnin og langömmubörnin því hún vissi alltaf hvað allir voru að gera og gat meira að segja sagt mér hversu margar tennur langömmubörnin voru komin með, svo vel fylgdist hún með öllum af einskærri væntumþykju. Hún var líka mjög tæknivædd og notaði samfélagsmiðla til þess að fylgjast með hvað allir voru að gera. Aldrei mátti segja styggðaryrði um börnin og skammaði hún þau aldrei. Ég sendi henni oft myndbönd af strákunum mínum tveimur og svaraði hún alltaf um hæl og hringdi svo reglulega í mig og þakkaði mér fyrir að senda sér, því hún hafði svo gaman af því að fylgjast með þeim. Skemmtilegast var að skrifa eitthvað á þann veg að Gunnar Logi, eins árs, væri óþekkur því þá svaraði Sigga alltaf eins: „aldrei óþekkur, bara lítill“, sem fékk mig til að brosa af því ég vissi hvað hún dýrkaði börnin mikið.

Það er með mikilli sorg og söknuði sem ég kveð elsku Siggu sem var svo stór partur af lífi okkar.

Elsku Gústi, Eiríkur, Hulda, Siggi, Bogga og fjölskyldur, ykkar missir er mikill, en yndislegar minningar um einstaka konu lifa um ókomna tíð.

Stefanía Ástrós
Benónýsdóttir.

Elsku Sigga kvaddi okkur skyndilega og er skrýtið að fara í gegnum dagana án hennar. Ég er svo heppin að hafa búið í næsta húsi við hana og Gústa síðustu 13 ár og eiga þau að sem vini og langömmu og langafa barnanna okkar Boga. Þau hjálpuðu okkur mikið með krakkana sem voru alltaf velkomin og voru alltaf svo stillt og góð að hennar sögn. Þótt stundum gengi hitt og þetta á í leikjum eða brúðkaupsstellið dregið fram til að hræra saman graut í þá var hún alltaf svo glöð með þau. Best var að hafa fullt hús af börnum og auðvitað í lauginni. Þetta eru mínar uppáhaldsminningar, að sitja á pallinum og spjalla, Gústi að passa að allt væri í lagi með laugina og krakkarnir að busla. Sigga og Gústi buðust stundum til að koma og passa fyrir okkur svo við gætum farið út. Þá hringdi Sigga í mig og sagði að þau Gústi hefðu verið búin að ákveða að vera heima og þau skyldu koma og vera með krökkunum og við ættum að kíkja út. Nú í seinni tíð hefur Breki yngsti okkar oft verið kóngur um stund hjá ömmu Siggu þegar hann vildi sleppa við eitthvert bras. Þar lá hann í hægindastólnum og horfði á teiknimyndir þar sem amma bar í hann góðgæti og strauk á honum tærnar, perlaði einhver ósköp og Sigga mundi alltaf eftir að kaupa perlurnar sem vantaði í næstu Selfossferð handa honum. Í síðustu heimsókn Siggu til okkar stóðum við hér í dyrunum þegar hún var að kveðja og hann hékk um hálsinn á henni og kyssti hana aftur og aftur svo hún fór skælbrosandi. Karítas fór á kvöldin og spilaði ólsen við ömmu og vann hún ömmu sína grunsamlega oft. Sigrún var svo heppin eins og ég að fylgja Siggu í þessi 13 ár næstum og þykir henni mjög vænt um stundir þeirra saman. Sigga hélt alltaf með manni og svo oft þarf maður á því að halda að einhver haldi með manni og á ég eftir að sakna þess frá henni. Hún var einstök í að sýna áhuga á því sem maður var að gera og líka að segja manni frá því sem var að gerast hjá öðrum af einlægum áhuga og hluttekt þar sem hún átti auðvelt með að samgleðjast og samhryggjast fólki. Oftar en ekki spurði hún mig hvort ég hefði ekki fengið snapp frá einhverjum sem hafði verið svo skemmtilegt en hún naut þess mikið að fylgjast með fjölskyldunni þar og fá sendar myndir í tölvuna sem var svo frábært að hún tileinkaði sér. Mér fannst alltaf gaman að heyra sögur frá því hún var lítil og af ferðalögum þeirra Gústa og skemmtunum í gegnum tíðina, þau ljómuðu oft af tilhugsuninni og augljóst að það var oft gaman enda hvöttu þau mann mikið til að ferðast og glöddust yfir þegar svo bar til. Sigga kom alltaf á vorin að halda á lömbunum og finna lambailminn, hún var líka hrifin af hestum og átti góðar stundir á hestbaki í Vorsabæ þegar hún var barn. Hún var mér og okkur einstaklega góð í einu og öllu og mun ég sakna hennar í hversdeginum þegar ég horfi niður eftir og hún er ekki í glugganum að fylgjast með mér, símtala og kaffispjalls, sem og á stærri stundum og hátíðum. Ég er alls ekki tilbúin að kveðja en þakka fyrir tímann okkar saman.

Svava.

Ég minnist Siggu með miklu þakklæti fyrir alla þá hlýju sem hún sýndi okkur systkinunum upp frá og síðar fjölskyldunni minni alla tíð.

Það er erfitt að lýsa hlutverki Siggu í mínu lífi, hún var ekki bara mágkona pabba eða svilkona mömmu, hún var Sigga niður frá. Ómetanleg manneskja sem átti alltaf næga hlýju og umhyggju.

Þegar ég var lítil skipti ekki miklu máli þó að mamma og pabbi brygðu sér af bæ því ég fór bara niður eftir til Siggu og Gústa. Ég sat á háa stólnum eða við eldhúsborðið, við Sigga spjölluðum á meðan hún fékkst við eitthvað í eldhúsinu. Samtölin okkar voru á jafningjagrundvelli, við töluðum saman að mínu mati eins og tvær fullorðnar konur þrátt fyrir að önnur okkar væri fimm ára og hin 41 árs. Þetta endurspeglar þá hlýju og virðingu sem ég upplifði alla tíð frá Siggu.

Það mátti alltaf aðeins meira niður frá hjá Siggu og Gústa, sem dæmi þá var stundum boðið upp á suðusúkkulaði rétt fyrir kvöldmat og svo fékk búleikur okkar Sævars mikið vægi. Hjá Siggu fengum við nefnilega hveiti og smá sykur til að blanda við sand, mold og vatn við matseldina. Þær voru mun veglegri og glæsilegri veitingarnar sem komu úr búinu niður frá heldur en drullukökurnar sem annars voru reiddar fram í slíkum leik.

Sigga var alltaf svo umhyggjusöm, hún hringdi alltaf eða sendi skilaboð þegar einhver strákanna minna átti afmæli. Þess á milli heyrði hún í mér til að fá fréttir af okkur.

Hún mun alltaf fylgja mér sú hlýja sem ég fékk í hjartað við eitt sem hún Sigga sagði þegar hún var spurð hvort ég væri dóttir hennar, hún svaraði á þá leið að ég væri hluti af fólkinu hennar. Siggu var svo umhugað um fólkið sitt og ég verð ávallt þakklát fyrir að upplifa mig og mína fjölskyldu sem hluta af fólkinu hennar.

Ég mun geyma í hjarta mér alla minningarnar um elsku Siggu og allt okkar.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Ég minnist þín af þakklæti, hlýju og virðingu elsku Sigga og bið góðan Guð að geyma þig.

Þín

Ragnheiður Guðný (Ragna).

Ég var svo heppin þegar ég var að alast upp að eiga fjórar föðursystur sem voru mér fyrirmyndir, hver á sinn hátt. Sigga var þeirra yngst, aðeins fjórtán árum eldri en ég. Ég mun sakna árlegrar afmæliskveðju frá henni þar sem hún rifjaði ávallt upp hve spennt hún var þegar ég fæddist. Foreldrar mínir höfðu þá búið sér heimili hinum megin við bæjarhlaðið og Sigga sagðist halda að hún hefði tekið hlaðið í tveimur stökkum til að sjá nýju frænkuna.

Elsta systirin, Ragna, var þá flutt að heiman en hinar áttu herbergi á efri hæðinni í vesturbænum í húsi afa og ömmu. Þessi herbergi höfðu mikið aðdráttarafl í mínum augum, sérstaklega snyrtiborðið með öllum krukkunum og skartgripunum sem ég mátti stundum máta og þar átti ég margar gæðastundir með frænkunum, sérstaklega Siggu.

Þegar ég var sex ára gerðist það svo að ungur maður fór að venja komur sínar til Siggu og ógna gæðastundunum fannst mér. Ég sá að honum þyrfti að koma í burtu hið bráðasta svo ég sýndi honum mínar verstu hliðar til að reyna að fæla hann frá Siggu – en hann sat sem fastast. Sigga frænka mín hefur líklega haft gaman af og þar sem hún var ráðsnjöll kona bauð hún mér þau kaup að ef ég yrði kurteis við Gústa mætti ég eiga vellyktandiglasið hennar þegar hún færi til að eiga heima hjá Gústa. Ágirnd mín á ilmvatninu sigraði eignarhald mitt yfir Siggu og eftir það gat ég varla beðið eftir því að Gústi kæmi til að sækja hana Siggu sína – sem ég var þá búin að selja.

Þótt hún ætti æ síðan heima í annarri sveit voru tengslin við æskuheimilið sterk og reglulegar ferðir á milli. Börnin komu svo eitt af öðru. Þegar von var á Huldu árið 1962 fór ég í vist að Birtingaholti að létta undir með Siggu sem átti þá Eirík tæplega fimm ára og Sigrúnu 3½ árs. Ekki veit ég hvort ég kom að miklu gagni þótt ég reyndi vissulega mitt besta en þetta var mér lærdómsrík dvöl. Seinna bættust svo Siggi og Bogga í barnahópinn. Barnaafmælisveislur í Birtingaholti voru stórafmæli, þar hljóp um krakkaskari og bæði úti og inni ríkti mikil gleði sem lauk venjulega með fjöldasöng allra við undirleik Sigurðar tengdaföður Siggu.

Sigga frænka mín var yndisleg kona. Hún hafði ljúfa nærveru og var mjög lík Kristrúnu móður sinni. Hún virtist aldrei skipta skapi. Ég þakka henni samfylgdina gegnum lífið, kærleikann og væntumþykjuna sem hún sýndi mér og mínum alla tíð um leið og ég sendi Gústa og fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Valgerður Jónsdóttir frá Vorsabæ.

Með söknuði og þakklæti í huga vil ég minnast Siggu svilkonu minnar í fáum orðum.

Það var vorið 1968 að kynni okkar hófust, þegar ég réð mig til sumardvalar í Birtingaholti. Hún heilsaði með hlýju handabandi og bauð mig velkomna.

Örlögin höguðu því svo, að nær óslitið síðan fórum við samferða í gegnum lífið, árin orðin fimmtíu og sex.

Fyrstu árin bjuggum við í sama húsi, tengdaforeldrar okkar og við fjölskyldurnar tvær og börnin orðin samtals átta og oft fjör á skútunni.

Ég fullyrði að tengslin sem mynduðust milli barnanna á þessum árum séu meiri og sterkari en gerist og gengur á milli frændsystkina. Ef kastaðist í kekki á milli þeirra yngstu hafði Sigga gott og aðdáunarvert ráð, kallaði gjarnan til þeirra „komið þið krakkar mínir“, rétti þeim eitthvað sætt í munn og öll sárindi hurfu á svipstundu.

Sigga og Gústi fluttu í nýja húsið sitt vorið 1972 og ári síðar var það sameiginleg ákvörðun allra fjölskyldna á Birtingaholtstorfunni að freista gæfunnar og bora eftir heitu vatni, það varð að veruleika og ómetanleg breyting á högum okkar og lífsgæðum. Ekki leið á löngu þar til komin var sundlaug í garðinn hjá Siggu og Gústa. Nutu yngri börnin þess að vera orðin synd þegar skólagangan hófst, laus við allan kvíða og hræðslu við vatnið. Það var þeim Siggu og Gústa mikið áhugamál og voru börnin okkar þar ekki undanskilin, alltaf velkomin í sund og undu þar löngum stundum.

Á fyrstu árunum var samvinna mikil á milli fjölskyldnanna hvað varðar vinnuframlag og verkfæraeign, svo sem við heyöflun og kartöflurækt. Á hátíðarstundum var hjálpast að, hvort sem um var að ræða stórafmæli, fermingar, eða annað í leik og starfi.

Minningarnar eru margar og gott að hugsa til þeirra þegar tregi sækir að. Það er komið að kveðjustund. Ég trúi að við mætumst á ný, handabandið okkar verður hlýtt sem fyrr. Hafðu þökk fyrir allar samverustundirnar, hjálpsemi, vináttu og tryggð.

Guð blessi þig og varðveiti elsku Sigga.

Guðbjörg Björgvinsdóttir.

Elsku Sigga hefur kvatt þennan heim. Eftir standa dýrmætar minningar um yndislega konu sem átti til svo mikla hlýju og væntumþykju. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til hennar og bara góðar minningar um barnæskuna streyma fram. Mikill og góður samgangur var alltaf á milli heimilanna í Birtingaholti sem einkenndist af kærleika, virðingu og vináttu milli fjölskyldnanna sem svo hefur endurspeglast í samheldni okkar frændsystkina allt til dagsins í dag. Að alast upp í slíku umhverfi er ómetanlegt og líka svo fallegt.

Oft var mikið fjör á skútunni hjá barnaskaranum í Birtingaholti. Þar kom vel fram umburðarlyndi og þolinmæði Siggu gagnvart okkur krökkum, sama hvað við vorum að brasa. Þegar ég hugsa til baka þá held ég að hún hafi oftar en ekki haft svolítið gaman af einstaka prakkarastrikum og ég sé hana fyrir mér brosa út í annað. Ef eitthvað bjátaði á eins og gengur þá var hughreystingin auðfengin og allt varð gott.

Sundlaugarferðirnar til Siggu og Gústa urðu óteljandi en í fallega garðinum þeirra lærðum við að synda með góðri leiðsögn. Það var aldrei annað en sjálfsagt og velkomið að skella sér í laugina til þeirra, heimilið stóð manni alltaf opið hvort sem var að nóttu sem degi. Það var alltaf gaman að fá að gista niður frá og sparimorgunmatur á sunnudagsmorgnum var fastur liður áður en farið var heim.

Þegar ég fullorðnaðist fann ég áfram vel fyrir umhyggjusemi frá Siggu í minn garð. Hún fylgdist alltaf vel með mér og mínum og var umhugað um hvernig gengi. Hún var dugleg að tileinka sér samfélagsmiðlana og ég á mörg falleg skilaboð frá henni þar.

Elsku Sigga, það er mér ómetanlegt að hafa fengið að alast upp í nánd við þig og ég mun ylja mér við minningarnar og samverustundirnar okkar um ókomna tíð. Börnunum mínum varstu alltaf svo góð og ég er líka svo þakklát fyrir að þau fengu tækifæri til að kynnast ykkur Gústa.

Guð geymi þig og blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Elsku fjölskylda, ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að styrkja ykkur og umvefja í sorginni og söknuðinum.

María Magnúsdóttir.

Elsku Sigga okkar er farin. Það verður tómlegt án hennar.

Við systkinin vorum svo heppin að vera hjá Siggu og Gústa í Birtingaholti sumar eftir sumar og ótal helgar þegar við vorum börn og unglingar. Við skiptum okkur niður á helgarnar og svo var stokkið upp í rútu austur fyrir fjall. Alltaf var vel tekið á móti okkur. Sigga hafði áhuga á því sem við vorum að gera í lífinu og alltaf til í spjall. Það var gott og fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Það var hlýtt og gott að koma inn á sumarkvöldum eftir heyskap, fá mjólk og kex í eldhúsinu og stundum upprúllaðar pönnsur.

Flatkökurnar hennar Siggu voru þær allra bestu. Að koma í eldhúsið niður frá var notalegt og þar lærði ég margt. Krakkaskarinn mættur, allir í Laugina og ekki þverfótað fyrir fötum og handklæðum út um öll gólf. Alltaf var elsku Sigga þolinmóð, hló og sagði: „Þetta eru nú meiri ósköpin.“

Minningarnar eru margar og er ég þakklát fyrir þær og munu þær lifa um ókomna tíð. Sigga kenndi mér margt og fylgdist með mér allt lífið, strákunum mínum, barnabörnum og alltaf með puttann á púlsinum. Stundum töluðum við saman í síma og hún fylgdist vel með á samfélagsmiðlum, henni fannst gaman að fá myndir sendar og alltaf kom hlýtt og kærleiksríkt svar til baka frá Siggu. Við áttum gott spjall í síma í apríl, þegar hún hringdi í mig til Lundar að athuga hvernig gengi með litlu tvíburana, mikið þótti mér vænt um það. Síðasta spjallið okkar var þegar ég sendi henni myndir af stelpuskottunum mínum annan í hvítasunnu, aðeins 6 dögum áður en hún kvaddi. Ekki stóð á svarinu; „Gott að sjá þær allar hjá ykkur, Ingunn mín.“

Ég veit að hún mun fylgjast áfram með fólkinu sínu sem hún var svo stolt af.

Elsku hjartans Gústi, Bogga, Siggi, Hulda, Eiríkur og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Góða ferð, elsku Sigga mín, hafðu þökk fyrir allt og allt, þú varst mér og okkur svo kær.

Ingunn Þorleifsdóttir.

Haustið 1956 hittumst við 32 stúlkur í Lindinni á Laugarvatni til að hefja nám í Húsmæðraskóla Suðurlands þar sem var sjö mánaða skóli. Við komum alls staðar að af landinu. Í dag erum við að kveðja eina úr hópnum, Sigríði Eiríksdóttur í Birtingarholti 4.

Í Lindinni var heimavist og mikið nábýli hver við aðra svo þarna kynntumst við vel og samkomulag var gott og þarna varð til vinskapur sem við höfum haldið síðan. Saumaklúbbur varð til strax í Reykjavík og þær sem bjuggu úti á landi voru duglegar að mæta þegar tækifæri gafst. Við héldum upp á stórafmæli, fórum í ferðalög, makarnir okkar með, dansað og sungið og margt af góðu söngfólki í hópnum. Við höfum séð á eftir mörgum. Sextán eru búnar að kveðja þessa jarðvist.

Í maí komum við saman ellefu heima hjá Gógó og Sigga Eiríks kom og tvær frá Hvolsvelli en okkur var verulega brugðið að heyra snöggt andlát hennar svo stuttu seinna. Þegar við minnumst Siggu er ekki hægt annað en hugsa mikið til mannsins hennar Gústa sem liggur á hjúkrunarheimili á Selfossi um þessar mundir. Þau voru dugleg að ferðast og koma í heimsókn til okkar skólasystra víðs vegar um landið og gaman var þegar þau komu til okkar Jónasar í Fljótin eftir að við settum okkur þar niður á sumrin. Sigga og Gústi voru líka höfðingjar heim að sækja og ég minnist heimsóknar hópsins til þeirra, mikil veisla en það var líka menningarferð því keyrt var um nágrennið og okkur sýnt ýmislegt, má þar t.d. nefna Flúðasveppi, og endað hjá Eiríki í jarðarberjaveislu. Það var ekki laust við að okkur fyndist við eiga svolítið í Eiríki því Sigga gekk með hann þennan vetur á Laugarvatni.

Sigga var bráðmyndarleg kona, hávaxin og bar sig vel og alltaf gott að eiga samtal við hana og eru þau orðin mörg í gegnum árin. Við skólasysturnar þökkum Siggu samfylgdina og biðjum henni blessunar í nýjum heimkynnum. Ágústi, börnum þeirra og stórfjölskyldunni allri vottum við innilega samúð.

F.h. okkar skólasystra,

Hulda Erlingsdóttir.