Hvassahraun Hugmyndir hafa verið um að byggja flugvöll í hrauninu.
Hvassahraun Hugmyndir hafa verið um að byggja flugvöll í hrauninu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Skýrslan er enn í vinnslu en lokayfirferð stendur yfir. Í framhaldi af því verður skýrslan kynnt ráðherra en nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir enn,“ segir Iðunn Garðarsdóttir aðstoðarmaður innviðaráðherra um vinnu við nýja skýrslu um flugvöll í Hvassahrauni

„Skýrslan er enn í vinnslu en lokayfirferð stendur yfir. Í framhaldi af því verður skýrslan kynnt ráðherra en nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir enn,“ segir Iðunn Garðarsdóttir aðstoðarmaður innviðaráðherra um vinnu við nýja skýrslu um flugvöll í Hvassahrauni.

Ekki fengust frekari upplýsingar um stöðu málsins en síðast var sagt frá skýrslugerðinni í Morgunblaðinu 14. mars síðastliðinn.

„Skýrsla starfshóps sem falið var að skoða Hvassahraun sunnan Hafnarfjarðar sem mögulegt flugvallarstæði er komin í lokafasa. Þetta upplýsti innviðaráðherra á Alþingi sl. mánudag. Er skýrslan langt á eftir áætlun,“ sagði í fréttinni.

Samkomulag frá 2019

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins beindi fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra. Við það tilefni rifjaði Njáll Trausti upp að í tengslum við samkomulag sem var gert á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar og undirritað í lok nóvember 2019 hefði átt að gera skýrslu um Hvassahraunsflugvöll. Reiknað var með að hún kæmi út innan tveggja ára, en nú eru árin orðin rúmlega fjögur.

Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia áætlaði í samtali við Morgunblaðið í gær að kosta myndi hundruð milljarða að byggja annan alþjóðaflugvöll sem gæti sinnt tengiflugi líkt og Keflavíkurflugvöllur. Varðandi jarðhræringar á Reykjanesskaga sé ekki talið að hraunrennsli geti ógnað innviðum í Keflavík. Öðru máli gegni um Hvassahraun. baldura@mbl.is