Rústir á Stöng Myndin er tekin inn í sýningarskálann og sýnir rústirnar af upphaflega bænum Stöng.
Rústir á Stöng Myndin er tekin inn í sýningarskálann og sýnir rústirnar af upphaflega bænum Stöng. — Morgunblaðið/Björn Jóhann
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framkvæmdir og lagfæringar hafa staðið yfir á sýningarskála yfir rústir gamla bæjarins Stöng í Þjórsárdal. Búið er að endurbyggja eldri yfirbygginguna að miklu leyti. Síðustu vikur hefur verið unnið að því að skipta um þekjur á sýningarskálanum

Sigríður Helga Sverrisdóttir

sigridurh@mbl.is

Framkvæmdir og lagfæringar hafa staðið yfir á sýningarskála yfir rústir gamla bæjarins Stöng í Þjórsárdal. Búið er að endurbyggja eldri yfirbygginguna að miklu leyti. Síðustu vikur hefur verið unnið að því að skipta um þekjur á sýningarskálanum. Í vikunni komst þakið á svo þessum framkvæmdum fer að ljúka, að sögn Ugga Ævarssonar, minjavarðar Suðurlands.

Þegar fornleifafræðingar þurftu að raska jörð norðuaustan við skálann til að koma fyrir útsýnispalli í fyrrasumar fundu þeir fornleifar alveg utan í skálanum. Þeir fóru langleiðina með að rannsaka þær í fyrra en náðu ekki alveg að klára sambandið milli skálans og þessara nýju minja.

Ætlunin er að ljúka rannsóknum á uppgreftrinum síðari hluta sumars, líklegast í ágúst. Þær hafi stöðvast út af framkvæmdum sem áttu sér stað á skýlinu. Í fyrrasumar var skýlið lengt og byggt yfir rústirnar og verða þær á endanum hluti af sýningunni. Uggi sagði að ekki væri alveg vitað um sambandið á milli þessara tveggja rústa, annaðhvort væru þær samtíma núverandi skála eða hluti af eldra mannvirki, eldra en skálinn sem sést á yfirborðinu.

Þegar þessum framkvæmdum er lokið verður hafist handa við að bæta sýningarskálann. Lagfæra þarf torfhleðslur, laga til og snyrta. Farið verður í það í sumar áður en skálinn verður formlega opnaður á ný en vonir standa til að verklok geti orðið með haustinu.

Með þessari nýju yfirbyggingu er kominn pallur þar sem gestir stíga inn og geta horft yfir skálann og einnig er pallur úti við svo hægt er að horfa inn um risastóran glugga og í leiðinni yfir landslagið frá hinni áttinni. Með því væri verið að binda tóftina inn í landslagið, segir Uggi.

Höf.: Sigríður Helga Sverrisdóttir