Ópera Frá uppsetningu Íslensku óperunnar á Ragnheiði, er Stefán Baldursson leikstýrði og aðalsöngvarar voru Þóra Einarsdóttir og Elmar Gilbertsson. Þjóðleikhússtjóri segir tafir á frumvarpi hafa áhrif á verkefni óperunnar.
Ópera Frá uppsetningu Íslensku óperunnar á Ragnheiði, er Stefán Baldursson leikstýrði og aðalsöngvarar voru Þóra Einarsdóttir og Elmar Gilbertsson. Þjóðleikhússtjóri segir tafir á frumvarpi hafa áhrif á verkefni óperunnar. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mér finnst þetta eiginlega bara skelfilegt fyrir íslenska þjóð, óperuunnendur og söngvarana í landinu,“ segir Kristján Jóhannsson um frestun á frumvarpi um Þjóðaróperu yfir á næsta þing

Sviðsljós

Elínborg Una Einarsdóttir

elinborg@mbl.is

„Mér finnst þetta eiginlega bara skelfilegt fyrir íslenska þjóð, óperuunnendur og söngvarana í landinu,“ segir Kristján Jóhannsson um frestun á frumvarpi um Þjóðaróperu yfir á næsta þing.

Morgunblaðið greindi í gær frá því að frumvarp um Þjóðaróperu yrði ekki afgreitt á þessu þingi þar sem ekki hefði fengist fjármagn í verkefnið.

Í kjölfarið gaf menningar- og viðskiptaráðuneytið út tilkynningu þar sem haft var eftir Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptamálaráðherra, að enn væri stefnt að því að Þjóðarópera yrði að veruleika og að frumvarpið yrði lagt aftur fram á næsta þingi.

Íslenska óperan var lögð niður í fyrra og var ætlunin að Þjóðarópera tæki við en hún á að falla undir Þjóðleikhúsið.

Því hefur nú myndast ákveðin eyða þar sem engin atvinnuópera er starfandi í landinu og fjármagn ekki tryggt fyrir slíka starfsemi til frambúðar.

Söngvarar óþreyjufullir

Þóra Einarsdóttir, formaður stjórnar Klassís, fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, segir þessa frestun á frumvarpinu viðbúna en jafnframt að söngvarar séu óþreyjufullir:

„Við erum mjög óþreyjufull að bíða en söngvarar eru búnir að vera að bíða eftir því að fá föst stöðugildi frá 1957. Þannig að þegar þær fréttir bárust að þessu yrði frestað þá upplifði fólk í okkar hópi vonleysi.“

Þóra segir Klassís þó hafa fengið staðfest að 275 milljónir séu tryggðar fyrir starfsemi Þjóðaróperu á næsta ári. Á heildina litið séu söngvarar bjartsýnir á að frumvarpið gangi í gegn og undurbúningur gangi vel í samstarfi við Hörpu og Þjóðleikhúsið.

„Þetta er nokkurra mánaða töf en við höldum að í stóra samhenginu getum við alveg beðið í nokkra mánuði,“ segir Þóra.

Hún tekur þó fram að í millitíðinni verði þrátt fyrir allt líf í óperusenu landsins: „Það er rosalegur kraftur í grasrótinni og við fengum innspýtingu í sviðslistasjóð fyrir óperuverkefni núna í vor. Sviðslistasjóður styrkti sjö grasrótaverkefni sem verða öll sýnd næsta vetur.“

„Eiginlega bara skelfilegt“

Kristján Jóhannsson, óperusöngvari og stjórnarmaður í Íslensku óperunni, er ekki jafn bjartsýnn og Þóra.

Spurður hvernig frestunin á frumvarpinu um Þjóðaróperu blasi við honum segir Kristján: „Bara herfilega, mér finnst þetta eiginlega bara skelfilegt fyrir íslenska þjóð, óperuunnendur og söngvarana í landinu.

Mér persónulega finnst illa að þessu staðið. Mér hefur fundist að þetta ætti að vera samfella. Að þeir hefðu haldið Íslensku óperunni á lífi þar til þetta rynni saman og Þjóðaróperan væri tilbúin svo þetta gat myndi ekki myndast. En það er alveg ljóst að það verður margra ára gat,“ segir Kristján og bætir við:

„Það er einhver hugsun að vera með einhverjar grasrótaróperur í millitíðinni. Það er gott og blessað en það er ekki það sem íslenskur óperuunnandi endilega vill.“

Þá hefur Kristján ekki endilega trú á að málið gangi í gegn á næsta þingi: „Þarna er verið að tala um einhvern milljarð í peningum og það hefur aldrei verið hægt að fara eftir því ofan í skúffu sisvona og láta það ganga upp.“

Tefur uppsetningar

Eins og áður segir er ætlunin að Þjóðarópera falli undir Þjóðleikhúsið þó starfsemin komi að mestu til með að fara fram í Hörpu.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir tafirnar á frumvarpinu koma til með að hafa áhrif á hvenær fyrstu verkefni óperunnar munu birtast á sviði en enn er stefnt að því að hún hefji starfsemi sína í byrjun 2025. Hann segir leikhúsið í startholunum en að málið liggi hjá stjórnvöldum.

„Ég held að það sé alveg raunhæft að hún hefji starfsemi en hugmyndin er ekki að strax frá byrjun verði full starfsemi og fjöldi uppsetninga heldur á að byggja þetta upp frá grunni,“ segir Magnús og tekur fram að um sé að ræða mikilvægt skref fyrir óperu í landinu.

„Við höldum áfram að vinna með öllum sem að þessu koma og undirbúum okkur en göngum ekki of langt á nokkurn veg og bíðum eftir að þingið ákveði,“ segir Magnús.

Höf.: Elínborg Una Einarsdóttir