Bergþóra Jónsdóttir (Lilla í Mandal) fæddist í Vestmannaeyjum 28. september 1945. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Vestmannaeyjum, 4. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Jón Ingimundarson Stefánsson, f. 12. maí 1904, d. 6. júní 1969, og Bergþóra Jóhannsdóttir, f. 23. nóvember 1906, d. 13. apríl 1983. Systkini Bergþóru eru Jón Ingólfsson, f. 23. september 1934, d. 24. febrúar 2000, Sigríður Jónsdóttir (Stella), f. 23. október 1938, d. 11. júlí 1947, Sigurjón Jónsson (Stáki), f. 3. ágúst 1940, d. 15. janúar 1973, Jónína Jónsdóttir f. 2. febrúar 1943.

Barnsfaðir Bergþóru var Geir Friðbjörnsson. Þau eignuðust eina dóttur, Svandísi, f. 2. desember 1965, maki Ingi Grétarsson, f. 1967, þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn.

Bergþóra giftist Sigurði Eini Kristinssyni en leiðir þeirra skildi. Börn þeirra eru þrjú: 1) Jón Berg, f. 20. júní 1967, á hann fjögur börn úr fyrra hjónabandi og sex barnabörn. Maki nú er Brynja G. Hjaltadóttir, f. 1968, og á hann þar þrjú fósturbörn og fjögur barnabörn. 2) Guðrún Kristín, f. 20. júní 1970, maki Sigurður Þór Símonarson, f. 1971, þau eiga þrjú börn. 3) Þóra Sigríður, f. 2. nóvember 1979.

Bergþóra giftist hinn 1. október 2005 eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Pálssyni, f. 3. janúar 1943.

Bergþóra fæddist og ólst upp í húsinu Mandal í Vestmannaeyjum. Hefur hún verið kennd við það alla tíð (Lilla í Mandal). Hóf hún sinn búskap í Mandal. Bergþóra vann mestalla starfsævi sína við fiskvinnslu í Fiskiðjunni. Í seinni tíð vann hún við umönnun á Hraunbúðum. Bergþóra var mikil handavinnukona, prjónaði og saumaði mikið. Hennar yndi var einnig að leysa krossgátur.

Útför Bergþóru verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 14. júní 2024, klukkan 13.

„Sæl, mamma mín.“ „Sæll, sonur sæll.“

Svona byrjuðu öll okkar samtöl þegar við heyrðumst símleiðis og fengum fréttir af okkar fólki og aflafréttir af sjónum hvort frá öðru. Nú er þessum símtölum lokið og mikið á ég eftir að sakna þeirra. Get ekki lýst því með orðum hvað ég elska þig mikið og á eftir að sakna þín, elsku mamma mín. Þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér í gegn um lífið og öllu þínu fólki.

Þinn sonur,

Jón Berg.

Komið er að kveðjustund. Síðasti kaffibollinn við eldhúsborðið í Foldahrauninu með Lillu minni hefur verið drukkinn. Þar sem skipst var á fréttum af fjölskyldunni, hvað krakkarnir mínir væru að gera, hvort Jón Berg væri á leið í land og hvernig veiðar gengju á Viðey. Og ég fékk fréttir af fólkinu í Eyjum. Áhuginn var einlægur frá okkar fyrstu kynnum og ég man vel eftir því þegar ég hitti hana fyrst og með ströngum rómi og ákveðnum svip tilkynnti hún mér að það væri ekki hægt að skila Jóni Berg hennar, á honum væri enginn skilamiði. Ég hef örugglega verið örlítið sveitt í lófunum þegar ég hitti tilvonandi tengdamóður mína í fyrsta sinn fyrir um 11 árum, en allur ótti var óþarfur og með þessari athugasemd bauð hún mig velkomna. Næst þegar við hittumst og ég rétti henni höndina til að heilsa tók hún utan um mig og þar fékk ég fyrsta af ótalmörgum þéttu faðmlögunum hennar. Lilla hringdi oftar í mig en ég í hana en eftir að við Jón eignuðumst athvarf í Eyjum kíkti ég við hjá henni og Gumma í hverri ferð. Ég er þakklát fyrir stundirnar sem við áttum, árin voru bara alltof fá.

Hryggðar hrærist strengur

hröð er liðin vaka

ekki lifir lengur

ljós á þínum stjaka.

Skarð er fyrir skildi

skyggir veröldina

eftir harða hildi

horfin ertu vina.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Þín tengdadóttir,

Brynja.