Sigríður Guðrún Árnadóttir fæddist 6. febrúar 1945 í Vestmannaeyjum. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 14. maí 2024.

Foreldrar Sigríðar voru Laufey Hulda Sæmundsdóttir húsmóðir, frá Draumbæ í Vestmannaeyjum, f. 29. október 1920, d. 2002, og Árni Hannesson sjómaður, frá Hvoli í Vestmannaeyjum, f. 10. desember 1921, d. 1999. Sigríður var næstelst í sjö systkina. Elstur var Sæmundur, f. 1943, d. 2011, Ársæll Helgi, f. 1949, Kolbrún, f. 1953, Sunna, f. 1955, Helena, f. 1960, og Viðar, f. 1962, d. 2022.

Hinn 24. desember 1965 giftist Sigríður eiginmanni sínum Frímanni Frímannssyni, f. 9. júní 1944, d. 4. september 2016. Foreldrar hans voru Frímann Guðmundsson og Soffía Guðmundsdóttir. Börn Sigríðar og Frímanns eru: 1) Ásdís Guðrún, f. 11. nóvember 1964, maður hennar er Marc Carlsson, dóttir Ásdísar og Marcs er Isabelle, f. 2001, sonur Ásdísar er Julian Frímann Bergsagel, f. 1991. Börn Julians og konu hans Emmi Louise, f. 1993, eru Frímann, f. 2021, og Mannfred, f. 2023. 2) Frímann, f. 14. júní 1966, kona hans er Ester Sigurðardóttir, f. 1968. Börn þeirra eru Elvar Frímann, f. 1993, og Íris, f. 2000. 3) Soffía, f. 27. júlí 1973, maður hennar er Elías Kristjánsson, f. 1972. Börn þeirra eru Thelma Rut, f. 2003, Hrannar Hólm, f. 2005, og Diljá, f. 2005. 4) Harpa, f. 13. janúar 1976, maður hennar er Davíð Scheving, f. 1975. Börn þeirra eru Lovísa, f. 2003, Lilja, f. 2005, og Birgir, f. 2009. 5) Hulda, f. 14. janúar 1983, maður hennar er Skúli Eyjólfsson, f. 1983. Börn þeirra eru Manúela, f. 2008, Birnir, f. 2011, og Rúrik, f. 2020.

Sigríður ólst upp í Vestmannaeyjum hjá foreldrum sínum og systkinum. Tæplega tvítug fluttist hún til Akureyrar og bjó þar alla tíð. Sigríður og Frímann stofnuðu heimili á Akureyri en síðustu árin bjó Sigríður í Jaðarstúni 2 á Akureyri. Sigríður var heimavinnandi húsmóðir alla tíð og helgaði sig fjölskyldunni og samverustundum með henni, ekki síst barnabörnunum, sem voru hennar líf og yndi. Hún var þeirra helsti stuðningsmaður í leik og starfi. Sigríður elskaði að ferðast með fjölskyldunni til sólríkra landa, borða góðan mat og að kaupa fallega muni fyrir heimili sitt, sem bar þess sannarlega merki.

Útför Sigríðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 14. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Fallegasta drottningin hefur kvatt sviðið og þar með klárað sína síðustu sýningu. Lokasýninguna. Sinnti öllum sínum hlutverkum af natni og ástúð. Fegurðin einkenndi allt hennar fas hvar sem hún kom. Raddblærinn bjartur og blíður. Vakti aðdáun fyrir undurfagurt hjartalag. Alltaf alltumvefjandi. Kveðjustund.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt elsku mömmu í 50 ár og átt fallegt og einlægt mæðgnasamband alla tíð. Væntumþykja og virðing. Börnin mín áttu einstakt samband við ömmu sína eins og öll barnabörnin. Hún var stuðningsmaður númer eitt í öllu sem þau gerðu, hvort sem var í skóla, íþróttum eða námi. Alltaf með þeim í liði. Þau sakna hennar þegar í stað. Mamma var skemmtileg, ræðin og elskaði að fá fréttir af sínu fólki og í símtölum okkar kom mjög oft setningin: „Segðu mér einhverjar fréttir“ og ég svaraði: „Varstu búin að heyra um …?“ og ætíð svaraði mamma í von um eitthvað meira krassandi: „Nei; Hulda segir mér aldrei neitt.“

Mamma var þekkt fyrir skemmtileg tilsvör og var ef svo má segja „frasakerling“. Þegar krakkarnir voru með nammi sagði hún alltaf: „Áttu mola?“ og: „Má ég kíkja í pokann?“ Þegar hún kom í heimsókn til Sunnu systur sagði hún alltaf þegar hún kom í dyrnar: „Áttu eina?“ og þá var hún að meina brauðsneið. Elías eiginmaður minn eldaði heimsins besta mat að mömmu sögn og það var ósjaldan þegar hún kom úr Neslauginni eftir 5-6 klukkustunda sundferð að hún labbaði að eldavélinni og sagði: „Elli, hvað er í þessu? Hvernig steikirðu þetta? Geturðu gefið mér uppskriftina? Ég ætla nefnilega að elda þetta þegar ég kem norður.“ Alltaf áhugi á mat og því sem honum tengdist. Enda fannst mömmu skemmtilegt að fara út að borða eða á kaffihús sem við gerðum oftar en ekki þegar við hittumst. Henni fannst ég nú stundum vera hálfgerður siðapostuli í tengslum við mat og sætindi en þá fékk ég að heyra: „Æi gefðu mér nú bara eitt appelsínglas. Æi láttu nú ekki svona. Má maður nú ekki leyfa sér smá?“ En svo var auðvitað hellt í glasið, en aðeins einu sinni. Hennar þekktasta setning sem hún sagði oftar en ekki þegar við fórum út að borða er án efa: „Ég segi nú bara takk fyrir mig.“

Nú þegar komið er að leiðarlokum og kominn tími til að kveðja þá fæ ég samt hlýtt í hjartað yfir því að mamma og pabbi séu sameinuð á ný en pabbi lést úr alzheimer fyrir átta árum og var söknuður mömmu alltaf sár. En nú eru þau eflaust dansandi glöð á fallegum engjum eða þannig ætla ég að sjá þau.

Söknuðurinn er mikill en minningin um einstaka konu mun lifa að eilífu.

Ég ætla að láta þetta ljóð vera mín kveðjuorð:

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Þín dóttir,

Soffía.

Mamma.

Ég elska þig meira en allt

nú ertu farin fyrir fullt og allt.

Þú skilur eftir minningar sem ég geymi mér hjá

ég brosi gegnum tárin og græt meira en smá.

Þú kunnir að koma fyrir þig orði og vera hress

enda þekktir þú ekki orðið stress.

Elskaðir sólina, sjóinn og sund

fjölskylduboðin, þú elskaðir þann fund.

Börn og afleggjara þú elskaðir mest

enda fannst öllum þú vera langbest.

Best að skilja eftir pening í bænum

þú vildir að hagkerfið yxi í einum grænum.

Þú veiktist hratt á skömmum tíma,

veikindin urðu þér erfið glíma.

Við héldum í hönd þína og þráðum svo heitt

fá þig til baka, því var ekki breytt.

Ég þakka fyrir þína ljúfu daga

þeir voru fullir af fjöri og ein stór saga.

Fullt af ást og þakklæti fyrir þig

– Ég segi nú bara takk fyrir mig!

Ég finn fegurðina í lífinu fljúga hjá,

söknuðurinn, tárin heyra má.

Friðurinn yfir þig kominn er

kveðjustund eins og vera ber,

þegar lífinu er að ljúka senn

ég elska þig ávallt og enn.

Þín dóttir,

Harpa.

Það er allt svo tómlegt án þín elsku mamma, við sem vorum vanar að hittast daglega og njóta saman við alls konar er eitthvað sem verður aldrei aftur. Mér líður eins og naflastrengurinn sem aldrei slitnaði í 41 ár hafi rofnað og mér blæðir af söknuði. Því frá því ég var lítil stelpa þá mátti ég ekki sjá af þér, vildi alltaf vera með þér, grenjaði þegar þú ætlaðir að horfa á Dallas í sjónvarpinu, lagðist ofan á þig þegar þú ætlaðir að gera leikfimisæfingar, vildi alls ekki fara á leikskóla því það var betra að vera heima með mömmu og fara í bæinn á hælaskóm með varalit, því þannig varst þú og ég vildi vera eins.

Þótt söknuðurinn sé sár og hjartað svíði þá verma fallegar og góðar minningar hjarta mitt. Þú og pabbi voruð klettarnir mínir og í uppeldinu lögðuð þið mikla áherslu á gott veganesti sem ég mun alltaf búa að. Við gerðum svo mikið saman elsku mamma enda afar nánar alla tíð. Ég á eftir að sakna þess að þú komir í bolla og spjall á morgnana, fara saman að kaupa föt eða snyrtivörur, skutlast á kvöldin í ísbíltúr, borða saman eitthvað gott, fara saman til heitari landa þar sem þú naust þín best enda mikill sóldýrkandi, horfa saman á fótboltaleiki þar sem þú vildir vita allt um leikmennina og svo margt fleira eru minningar sem ég mun geyma. Ömmubörnin þín þrjú eiga eftir að sakna allra stundanna með þér því þú varst svo stór partur af lífi okkar litlu fjölskyldunnar, þú varst alltaf með okkur og fannst Manúelu, Birni og Rúrik þú besta amma í heimi. Þú sýndir þeim svo einlægan áhuga, varst þeirra stuðningsmaður og alltaf með þeim í liði sama hvað. Nú er tómlegt að koma heim eftir skóla og amma er ekki í gráa stólnum eins og var.

Þú hafðir svo frábæra og góða konu að geyma, alltaf svo glæsileg og vel tilhöfð svo eftir var tekið. Nærveran var líka þannig að fólk laðaðist að þér. Þú varst hláturmild og skemmtileg og oftar en ekki hrókur alls fagnaðar, því þér fannst gaman að vera til, vera meðal fólks og lyfta þér upp eins og sagt er. Ég þekki engan sem var jafn mikil pæja og þú og spáðir í allt það nýjasta hverju sinni, hvort sem það voru, föt, skór, klippingar, ilmvötn eða snyrtivörur alveg fram á það síðasta. Enda komin með gráskyggð gleraugu og tattú-brúnir á undan öllum.

Í seinni tíð skiptumst við á hlutverkum og ég varð þinn klettur. Þú sagðir oft hversu þakklát þú værir fyrir stuðninginn sem við Skúli veittum þér, sérstaklega eftir að pabbi veiktist og kvaddi, því þú mátaðir þig aldrei inn í nýjan veruleika að vera ekkja og saknaðir pabba alltaf. Við gerðum okkar besta til að láta þér líða sem best og vera til staðar í einu og öllu. Þegar ég horfi til baka þá gengum við saman, elsku mamma, í gegnum alls konar, bæði gleði og sorg, sigra og töp og lífið saman hönd í hönd. Ég reyni að brosa í gegnum tárin af söknuði yfir að hafa misst þig, sakna þess sem var og syrgi það sem verður ekki. Mig langar bara svo í eitt faðmlag í viðbót, einn koss á kinn, einn bolla og spjall, já bara eitt af öllu sem var með þér.

Ástarkveðja,

Hulda.

Elsku amma, við trúum því ekki að þú sért farin frá okkur og komið að kveðjustund.

Erum samt þakklát fyrir tímann sem við fengum með þér en okkur langaði í meiri tíma og fleiri minningar. Þú varst svo frábær amma, gerðir svo margt með okkur enda vorum við alltaf saman. Við eigum eftir að sakna þín úr okkar daglega lífi.

Það er skrítið að hugsa til þess að það verða ekki fleiri ferðir með þér á Glerártorg til að versla og enda það maraþon á pylsu og ís, eða fara á Greifann og gera vel við okkur, segja þér hvort Salah sé í liðinu þegar við sitjum öll saman og horfum á bolta, sýna þér síður á netinu til að panta á, fara saman til útlanda og nú verður engin spenna lengur þegar nýir skór mæta í hús því þú varst alltaf spenntust yfir þeim.

Jólin og áramótin verða líka aldrei eins aftur því það vantar þig.

Þetta er allt svo óraunverulegt, að hafa þig ekki lengur hjá okkur elsku amma. Þú varst alltaf svo góð við okkur og við máttum allt þegar þú varst að passa okkur. Sama hvað við vorum að fást við, þú sýndir okkur alltaf mikinn áhuga og varst stuðningsmaður númer eitt, okkar helsti liðsmaður enda alltaf með okkur í liði. Þú komst líka oft með bestu ráðin.

Það var svo notalegt að hafa þig mikið heima í Nonnahaganum, að koma heim úr skólanum og þú tókst á móti okkur með hlýjan faðminn og koss á kinn er minning sem á eftir að verma okkar hjörtu ásamt fleirum sem við geymum.

Elsku besta amma, við eigum eftir að sakna þín sárt og elskum þig að eilífu.

Takk fyrir allt.

Þín

Manúela, Birnir og Rúrik.

Árið 1976 ákváðum við Gunni að flytja til Akureyrar, sem hefur reynst okkar hið mesta gæfuspor. Það var ekki síst Siggu systur og Frímanni eiginmanni hennar að þakka að við fluttum norður. Með flutningnum norður endurnýjuðum við systravináttuna en Sigga flutti ung til Akureyrar. Vináttan og systrakærleikurinn hefur verið mikill á milli okkar Siggu og hefur verið ómetanlegur og vorum við mjög nánar.

Samgangur var mikill og þegar við komum til hennar í Skarðshlíðinni þar sem hún og Frímann bjuggu í mörg ár var iðulega nýbökuð hjónabandssæla og smurt brauð á boðstólum enda var hún mikil og góð húsmóðir. Við systurnar fórum oft í sund með börnin okkar á góðviðrisdögum og komum okkur fyrir á Sigríðarstöðum, en það var svo kallað þar sem Sigga var búin að koma sér vel fyrir á skjólgóðum stað. Iðulega var haft nesti með í för og þegar komið var að nestistíma var kallað á börnin. Börnin sem eldri voru köfuðu hvað mest því þeim þótti þetta vandræðalegt.

Sigga systir fylgdist vel með tískunni, var alltaf vel klædd og var mesta tískulöggan sjálf. Nokkur sumur ferðuðumst við Sigga og makar okkar saman um landið, leigðum sumarhús þar sem við keyrðum svo út frá þeim. Þessi frí voru ávallt skemmtileg og fróðleg enda var Frímann eiginmaður Siggu mjög fróður um landið. Eina ferð fórum við saman ásamt hluta af börnum Siggu og Frímanns til Króatíu, sem var virkilega skemmtileg ferð. Sigga hafði sérstaklega gaman af að skoða dúka og aðrar hannyrðir og í hvert skipti sem hún kom á markaðinn þurfti hún að skoða og skanna, konurnar sem voru að selja voru farnar að þekkja Siggu og kölluðu hana til sín með nafni.

Seinustu árin bjó Sigga systir beint á móti okkur hér í Jaðarstúninu og vorum við mikið saman sögðum hvor annarri sögur sem við hlógum mikið að. Sigga var stór partur af fjölskyldunni minni og var gert ávallt ráð fyrir henni í grautnum um helgar svo og þegar einhver tilefni voru til veisluhalda hjá okkur. Hún kom mjög oft yfir til okkar og þá spurði hún oft „áttu eina“ sem þýddi áttu eina brauðsneið og kaffi. Seinasta ferðin okkar Siggu systur var til Siglufjarðar á fallegum sumardegi með Frímanni syni Siggu og hans fjölskyldu. Frímann og fjölskylda ákváðu að fara á Síldarminjasafnið en við systur að fara í bakaríið. Okkur leið eins og heimsborgurum en þar hittum við mann sem benti okkur á fjöllin í kring og sagði okkur skemmtisögur af staðnum og hvað við hlógum mikið, þetta var einn af okkar mörgu gæðadögum.

Sigga systir hefur verið stór hluti af mínu lífi og minni fjölskyldu í gegnum árin. Það er mikill söknuður við fráfall Siggu systur og hugsa ég til hennar á hverjum degi og sendi ég henni ljósið. Við Gunni og fjölskylda okkar þökkum henni fyrir alla gæðastundirnar sem við áttum með henni og sendum hennar nánustu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sunna systir og fjölskylda.

Fyrir sextíu árum lágu leiðir okkar Sigríðar saman á æskuheimilinu að Eyrarvegi 27 á Akureyri. Foreldrar mínir tóku á móti henni sem sinni eigin dóttur og vinátta þeirra þriggja var falleg. Sjálf var ég einkadóttir foreldra minna og þótti stundum nóg um dálæti þeirra á ungu konunni sem bæst hafði í hóp okkar sem bjuggum í Eyrarveginum, líklega vottur af smá afbrýðisemi átta ára barnsins. Frumburður Sigríðar og Frímanns bróður míns ólst upp í Eyrarveginum til ca. tveggja ára aldurs og þar kom ég sterk inn sem barnapía, lét með krakkann eins og um dúkku væri að ræða; á ljúfar minningar frá þessum tíma.

Sigríður og Frímann kynntust á dansleik í Freyvangi og heilluðust strax hvort af öðru. Það er ekki sjálfgefið að fólk rekist á þann eina rétta; upplifi gagnkvæma ást og öðlist tækifæri til að deila lífinu í áratugi eins og þau tvö gerðu. Í mínum huga var samband Sigríðar og Frímanns fallegt; þar ríkti kærleikur, vinátta, traust, virðing og samheldni. Því var missir mágkonu minnar næstum óbærilegur þegar Frímann lést langt fyrir aldur fram 4. september 2016.

Þau hjónin eignuðust fimm börn; fjórar stúlkur og einn son, fjögur þeirra búa hér á landi og stóð sá hópur þétt við bak móður sinnar bæði í veikindum Frímanns og einnig þær tíu vikur sem Sigríður háði sína baráttu við veikindi sem hún að lokum laut í lægra haldi fyrir. Ég dáðist að samheldni og umhyggju þeirra systkina í garð móður sinnar. Barnabörnin eru þrettán talsins og langömmubörnin tvö. Sigríður elskaði að fylgjast með afkomendahópnum, var stolt af því sem þau tóku sér fyrir hendur; velgefið og dugmikið fólk þar á ferð.

Ef ég ætti að lýsa mágkonu minni koma upp í hugann orð eins og; hlý, einlæg, skemmtileg og jákvæð. Hroki og baktal voru óþekkt í fari Sigríðar.

Ég vel að trúa því að Sigríður hafi nú hitt Frímann sinn á ný og aðra þá sem voru henni kærir og hafa farið á vit feðra sinna.

Megi Sigríður Guðrún Árnadóttir hvíla í friði og afkomendur hennar eiga farsælt líf.

Guðrún Frímannsdóttir.