Jóhanna Sóley Hermanníusdóttir fæddist á Gafli í Flóa 7. júlí 1940. Hún lést í Reykjavík 27. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Guðbjörg Björnsdóttir frá Gafli, f. 20. apríl 1909, d. 10. október 1983, og Hermanníus Marinó Jónsson, búsettur í Reykjavík, f. 12. júní 1900, d. 10. desember 1972. Hálfsystkini Jóhönnu samfeðra voru tíu talsins.

Jóhanna Sóley giftist Erlingi Helga Einarssyni 10. nóvember 1962, en hann fæddist í Reykjavík 17. september 1937 og lést 3. júní 2014. Börn þeirra eru: 1) Björn, f. 14. apríl 1963. Maki Björns er Lilja Þorgeirsdóttir, f. 1. ágúst 1959 og synir þeirra: Þorgeir, f. 11. ágúst 1996, og Markús, f. 15. janúar 1998. Dætur Björns frá fyrra hjónabandi: Guðbjörg, f. 5. júlí 1982, og Þóra, f. 5. janúar 1986. Barnabörn: Heimir, Hjördís, Freydís, Kristófer og Daníel. 2) Guðbjörg, f. 30. desember 1964. Maki Guðbjargar er Magnús Arinbjarnarson, f. 29. nóvember 1960, og börn þeirra: Kristín Ósk, f. 21. september 2005, og Sóley Rut, f. 5. október 2007. 3) Guðfinna Ósk, f. 11. ágúst 1969. Maki Guðfinnu er Roberto Pisano, f. 17. júlí 1971, og sonur þeirra: Anton, f. 4. september 2007.

Jóhanna Sóley ólst upp á Gafli, en bjó í Reykjavík stóran hluta ævinnar, lengst af í Smáíbúðahverfinu og seinustu þrjú árin í Hæðargarði.

Útför hennar fer fram í Bústaðakirkju í dag, 14. júní 2024, klukkan 13.

Við kveðjum öll með söknuði Jóhönnu Sóleyju, eða „ömmu Sóleyju“ eins og móðir mín var oft kölluð í fjölskyldunni, hvort sem áttu í hlut börn hennar, barnabörn eða langömmubörn. Var nánasta fólkið henni jafnan mjög kært og samverustundirnar ómetanlegar. En það sem alla tíð einkenndi hana var mannkærleikur og væntumþykja í garð okkar allra og fyrir það erum við ævarandi þakklát.

Sóley ólst upp á bænum Gafli, austan við Selfoss, þar sem móðir hennar Guðbjörg bjó og var þar mikill móðurkærleikur og hlýja sem varð gott veganesti út í lífið. Að náungakærleikur og virðing skipti máli á lífsins braut og væri í raun „að rækta sinn eigin garð“ án þess að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.

Hún vann í Tryggvaskála á Selfossi frá átján ára aldri yfir vetrartímann, en á sumrin fór hún heim til að aðstoða við sveitastörfin. Sem ung kona flutti hún til Reykjavíkur og fór í Húsmæðraskólann. Starfaði við ýmis umönnunarstörf og síðar hjá Íslandspósti og Þjóðminjasafninu.

Móðir mín var heimavinnandi á meðan við börnin vorum að vaxa úr grasi, en faðir okkar vann sem bókbindari og tónlistarmaður. Bjuggum við á Hverfisgötu og síðar í Smáíbúðahverfinu. Þegar foreldrar okkar slitu samvistum árið 1977 var það okkur erfitt en móðirin stóð þá með okkur sem klettur, sem og amma Guðbjörg sem var okkar fyrirmynd og einstök manneskja.

Sóley var umfram allt umhyggjusöm og kærleiksrík manneskja og var fjölskyldan henni allt en hún sagði oft: „Þið þurfið nú ekkert að hafa fyrir mér.“

Hún var náttúruunnandi og dýravinur og hafði yndi af ferðalögum innanlands sem utan. Fórum við börnin í útilegur og sumarbústaðaferðir með fjölskyldunni, sem er eftirminnilegt.

Hún var hannyrðakona, bæði að hekla og prjóna. Fylgdist grannt með börnum sínum í uppvextinum, sem og ömmu- og langömmubörnum og ávallt reiðubúin að liðsinna og hjálpa til þegar á þurfti að halda við barnapössun og annað tilfallandi. Var ósérhlífin og samviskusöm og kom oftast akandi á tilsettum tíma heiman frá sér hvernig sem viðraði.

Samheldni fjölskyldunnar og góður hugur skipti hana máli, en hélt sér til hlés í margmenni ef því var að skipta. Bjó í Búðagerði í mörg ár og nú síðast í Hæðargarði þar sem sólin skein skært í hásuðri og sóleyjar spruttu að vori.

Á yngri árum var Sóley berdreymin og skyggn og sá stundum fyrir ókomna atburði, svo sem áður en Björn afi hennar á Gafli lést, þegar hún var á fermingaraldri og líkt því sem stjörnur birtust.

Á þessari stundu er mér þakklæti efst í huga fyrir einstaka samfylgd, hjálpsemi og hlýhug í minn garð og fjölskyldu minnar; eiginkonu, barna og barnabarna. Með kærri kveðju fyrir ómetanlegar stundir, elsku fallega og bjarta Sóley.

Björn Erlingsson.

Það er ekki auðvelt fyrir okkur systurnar að byrja að skrifa um elskulegu móður okkar, Jóhönnu Sóleyju, sem lést skyndilega 27. maí síðastliðinn. Aldrei er nokkur manneskja viðbúin andláti náins ættingja, þó að við vitum öll að kallið kemur ávallt einhvern tímann. En yndislegar minningar streyma fram í hugann um umhyggjusama, kærleiksríka móður og ömmu sem ávallt var tilbúin með opinn hlýja faðminn og ávallt til staðar fyrir okkur öll.

Börn okkar systra nutu góðs af því með mörgum og góðum samverustundum með henni. Oft var farið á tónleika og í leikhús, þar sem móðir okkar hafði yndi af því að fylgja barnabörnunum eftir þar sem börn okkar systra stunda öll nám við tónlistarskóla. Móðir okkar naut þess að fylgjast með velgengni barnanna í skólagöngu þeirra.

Sóley amma, eins og hún var ávallt nefnd af barnabörnunum, Antoni, Kristínu Ósk og Sóleyju Rut, elskuðu ömmu sína óendanlega mikið, eins og við gerum öll í fjölskyldunni.

Hún var kletturinn í lífi okkar, mikil og góð fyrirmynd og fjölskyldan var henni allt. Hún hafði gaman af fallegri og vandaðri tónlist og að fara á tónleika, í leikhús og út að borða.

Hannyrðir voru henni í blóð bornar, þar sem móðir hennar hafði einnig þessa frábæru og skemmtilegu hæfileika. Það var prjónað, heklað, saumað í og saumaðar heilu flíkurnar á saumavél. Eftir hana og móðurömmu okkar, Guðbjörgu Björnsdóttur, liggur mikið magn af fögrum hannyrðum, sem er dýrmætt fyrir komandi kynslóðir.

Móðir okkar fór á sínum yngri árum talsvert í útilegur innanlands, sem og utanlands er hún var komin á miðjan aldur. Við systkinin nutum þess mjög vel ásamt móður okkar að ferðast saman. Hún var mikill dýravinur og náttúruunnandi og íslensk náttúra var henni mjög dýrmæt. Hún undi sér ávallt best með fjölskyldunni og í góðra vina hópi og ekki má gleyma að hún bakaði oft um helgar fyrir öll fjölskylduboðin, afmælin og jólaboðin. Þetta eru dýrmætar stundir sem lifa í minningu okkar systra, sem og allrar fjölskyldunnar.

Að lokum viljum við systurnar þakka þér fyrir allar kærleiksríku og ómetanlegu samverustundirnar með þér, elsku mamma okkar. Þú ert örugglega komin í sumarlandið þar sem eilíft ljós lýsir og vermir hverja sál. Megi Guð blessa þig, elsku mamma.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt, sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

(Pétur Þórarinsson)

Þínar dætur,

Guðbjörg og
Guðfinna Ósk.

Tengdamóðir mín er farin í annan heim og hennar er sárt saknað. Hún var góðhjörtuð og vildi öllum vel. Var mjög annt um fjölskylduna og stolt af börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Vegna þess hversu rík hún var af ömmubörnum var hún oftast kölluð amma Sóley.

Sjálf ólst hún upp með móður sinni og móðursystkinum í sveitinni á Gafli í Flóa. Þaðan átti hún góðar minningar og man ég sérstaklega eftir þegar hún sagði frá því hversu gaman henni þótti að fara í skólann á hestbaki, en langt var að fara eða um klukkustundar gönguleið.

Hún flutti sem ung kona til Reykjavíkur, stofnaði fjölskyldu og eignaðist þrjú börn. Eftir að hún varð ein sá hún um uppeldið og flest það sem fylgir því að vera með fjölskyldu og farnaðist henni það vel. Hún naut aðstoðar móður sinnar sem var henni og börnunum ómetanleg.

Þegar ég kynntist Birni eiginmanni mínum árið 1995 fann ég strax hversu góðhjörtuð móðir hans var og auðvelt var að umgangast hana. Var næm á fólk, hljóðlát og orðvör. Hún var heiðarleg og réttsýn og vildi ekki mismuna fólki. Ef brotið var gegn hennar gildum var hún skýr í sinni afstöðu, á sinn hljóðláta hátt.

Sóley var nægjusöm, leyfði sér ekki mikið en naut lífsins með góða fjölskyldu í kringum sig. Börnin voru alltaf velkomin heim til hennar og leið þeim vel þar. Alltaf var hún tilbúin til að aðstoða, en sjálf vildi hún ekki láta hafa fyrir sér en alltaf þakklát fyrir allt sem gert var fyrir hana. Hún var gjafmild en fór hjá sér þegar aðrir gáfu henni gjafir, taldi það alveg óþarfa.

Sjálfri fannst mér alltaf gott að koma heim til hennar, þar sem var kyrrð og ró. Heimili hennar var eins og vin í eyðimörk, laust við daglegt stress hversdagslífsins.

Sóley var mjög heimakær en fannst gaman endrum og sinnum að fara í ferðalög. Síðustu árin fór hún reglulega í heimsókn til dóttur sinnar og fjölskyldu í Noregi, en áður fór hún með okkur fjölskyldunni meðal annars til Danmerkur og Tenerife og einnig í ferðir innanlands. En þegar hún kom heim úr ferðum sínum sagði hún iðulega að það besta við að fara í ferðalag væri að koma aftur heim.

Eftir að hún flutti í Hæðargarð fór hún reglulega í félagsmiðstöðina sem var í göngufæri. Fékk sér að borða, fór í leikfimi, sótti tónleika og spilaði bingó. Var áfram nægjusöm, keypti sér einungis eitt bingóspjald en þrátt fyrir það var hún ansi heppin og kom iðulega heim með veglega vinninga. Við grínuðumst stundum með að kalla hana „bingóbanann“. En okkar stærsti vinningur var að hafa átt samleið með okkar kæru Sóleyju.

Með þessum orðum kveð ég tengdamóður mína með söknuði. Þakka henni kærlega fyrir samfylgdina og allar góðar stundir í gegnum árin. Um leið votta ég ættingjum og vinum innilega samúð.

Lilja Þorgeirsdóttir.

Hún hét vissulega fullu nafni Jóhanna Sóley Hermanníusdóttir, en ég kalla hana alltaf ömmu Sóleyju. Jafnvel á unga aldri fann ég sterkt fyrir þeim skorti á sjálfshyggju sem umkringdi ömmu. Kringum ömmu ríkti ró og friður. Það var eins og klukkan stoppaði heima hjá henni. Algjört hlé frá öllu stressinu og hvirfilbyl hversdagslífsins.

Amma var líka næm. Við ræddum um reimleika sem hún fann fyrir í sveitinni á sínum yngri árum. Það var áhugavert að hlusta á sögurnar af drungalegum ferðum í fjósið í kolniðamyrkri sveitalífsins. Hún var næm á framliðið fólk á þeim tíma, en lokaði fyrir það seinna meir. Amma hafði líka mikinn áhuga á draumum. Hún var mjög áhugasöm þegar þau umræðuefni komu við sögu. Hugleiddi berdreymi og átti draumráðningabækur heima fyrir sem stundum var gluggað í. Hún talaði einnig um að spá í kaffibolla, en á sínum yngri árum hafði hún gaman af því að spá fyrir sínum nánustu.

Amma hafði greinilega áhuga á andlegum og yfirnáttúrulegum málefnum. Því sem ekki er alveg hægt að útskýra. Við eigum það sameiginlegt.

Minnist síðasta aðfangadags með gífurlegri hlýju. Jólaandinn var allsráðandi það kvöld og ég man hvað okkur leið öllum vel.

Ég gleymi aldrei spjallinu þegar amma sagði með miklum þunga: „Ég held að okkur sé öllum ætlaður einhver tími.“

Það hefði auðvitað verið yndislegt ef hennar tími hefði verið lengri. En eitt er víst að ég kveð ömmu með ást og kærleik efst í huga.

Hún hélt fast í sín gildi, og ástin sem hún sýndi fjölskyldu sinni var engu lík.

Takk fyrir allar notalegu stundirnar, amma mín.

Við sjáumst síðar.

Þorgeir Björnsson.